Íslenzka á undanhaldi

Greinar

Kynslóðirnar tala minna saman en áður var, þegar þjóðlíf og atvinnuhættir voru með fábreyttara lagi. Foreldrar eru sjaldan heima og uppeldisvenjur nútímans eru frjálslegri en áður. Börn og unglingar fá uppeldi sitt að meira eða minna leyti hjá jafnöldrum sínum.

Reynt hefur verið að láta skólana taka við umtalsverðum hluta af uppeldishlutverki foreldra. Í stórum dráttum tekst það sæmilega, svo sem sést af því, að þjóðfélagið heldur áfram að blómstra. Á sumum sviðum hefur þó orðið merkjanleg afturför í uppeldi.

Íslenzkukunnátta er eitt af því, sem hrakað hefur. Fyrir þremur áratugum mátti reikna með því að óathuguðu máli, að umsækjendur um starf í blaðamennsku kynnu sæmilega íslenzku. Nú verður hins vegar að gera ráð fyrir því fyrirfram, að þeir kunni hana ekki.

Líklegt er, að vangeta skólakerfisins á þessu sviði stafi sumpart af nýtízkulegri óbeit þess á öllu, sem erfitt er. Málfræði og setningarfræði hafa orðið að víkja fyrir óáþreifanlegu snakki um bókmenntir og marklausri hópvinnu, þar sem einn vinnur fyrir alla.

Skólanemendur venjast því að geta flotið meira eða minna áhuga- og meðvitundarlítið upp skólastigann með þátttöku í fúski og leikjum og á baki annarra í svokallaðri hópvinnu, sem stjórnunarfræðilega er sannað, að skilar ekki árangri, er jafnast á við einkavinnu.

Sumpart stafar vangeta skólakerfisins á þessu sviði, að það lítur enn á íslenzku sem ritmál fyrst og fremst. Skólanemendur fá lítil tækifæri til að þjálfast í að tjá sig á skipulegan og frambærilegan hátt í mæltu máli. Þetta hefur dýpkað gjána milli talmáls og ritmáls.

Þetta misræmi heldur svo áfram í fjölmiðlunum, sem óbeint taka við uppeldishlutverki á sviði íslenzkrar tungu, þegar skólunum sleppir. Annars vegar eru blaða- og bókaútgáfur með á sínum snærum fjölmennar sveitir handrita- og prófarkalesara, sem hreinsa texta.

Á DV einu eru um fimm störf fólgin í að laga texta, einkum þann, sem berst blaðinu í auglýsingum, greinum og bréfum utan úr bæ. Þannig verður textinn, sem lesendur sjá, mun vandaðri en hann var í upphafi. Svipaða sögu er að segja um flest annað prentað mál í landinu.

Á hinn veginn eru svo talaðir fjölmiðlar, sem ekki virðast leggja áherzlu á síu af þessu tagi. Ríkisútvarpið hefur aðeins einn málfarsráðunaut fyrir útvarp og sjónvarp. Ekki er vitað um neinn slíkan á einkastöðvunum. Afleiðingar áhyggjuleysis láta ekki á sér standa.

“Valvan” fór “tvem” sinnum “erlendis” og var “talva” “evst” á lista, er hún “verzlaði” gjafir í fríhöfninni. Fábjánalegt orðaval af þessu tagi heyrist nær daglega í útvarpi og sjónvarpi, án þess að þær stofnanir geri neina alvarlega tilraun til að útrýma ruglinu.

Enn alvarlegra er raunar, að hefbundin hrynjandi íslenzku er að víkja fyrir útlendri hrynjandi. Plötusnúðar hafa tamið sér enska hrynjandi, sem fellur illa að íslenzku. Fréttamenn, sem koma úr námi frá Norðurlöndum, söngla sumir norska og sænska hrynjandi.

Útvarps- og sjónvarpsstöðvar ættu að verja svipaðri orku og fé til grisjunar og hreinsunar á talmáli og útgefendur blaða og bóka gera á ritmáli. Að öðrum kosti er hætta á, að talmál fjarlægist ritmál enn frekar og stefni hratt í átt til útlendra orða og útlendrar hrynjandi.

Í heimi aukinna samvelda og ríkjabandalaga felst tilveruréttur sjálfstæðrar þjóðar fyrst og fremst í tungumáli og þjóðarsögu. Og íslenzk tunga er á undanhaldi.

Jónas Kristjánsson

DV