Íslenzka heilsubyltingin

Greinar

Ánægjulegasta breytingin, sem orðið hefur á lífsháttum Íslendinga síðustu árin, er aukin áherzla á heilsurækt. Með hverju árinu fjölgar þeim verulega, sem taka sjálfir ábyrgð á heilsu sinni og rækta með sér lífsstíl, sem stuðlar að langri, góðri og vandræðalítilli ævi.

Mest ber á þessu í almenningsíþróttum. Ódýrastar og gagnlegastar eru ganga, skokk, sund og hjólreiðar. Sund hefur áratugum saman verið mikið stundað, en ganga, skokk og hjólreiðar eru nýrri af nálinni og farin að setja svip sinn á götulífið víða á höfuðborgarsvæðinu.

Mun dýrari og ekki eins gagnlegir, en afar gagnlegir þó, eru tækjasalirnir, sem hafa sprottið upp á síðustu árum. Þeir gagnast vel við sértæk verkefni, svo sem sjúkraþjálfun, og þjóna þar á ofan því eindregna áhugamáli margs ungs fólks að taka sig vel út.

Þótt útlit sé oft skylt innihaldi, er þó nauðsynlegt að gera greinarmun á líkamsrækt, sem stefnir að góðu útliti, og heilsurækt, sem stefnir að góðri heilsu. Þessir tvö áhugamál tengjast hvort öðru og styðja hvort annað, en eiga sér eigi að síður misjafnar forsendur.

Mikilvægasti þáttur heilsuræktar er mataræðið, sem oft er talið spanna um helming þeirra möguleika, sem fólk hefur til að laga eða bæta heilsu sína. Svo vel vill til, að fræðimenn og stofnanir um heim allan eru á nokkurn veginn einu máli um, hvað sé gott og hollt mataræði.

Fólk á að stórminnka neyzlu á sykri og sykruðum vörum og á fitu og fituríkum vörum, einkum dýrafitu og hertri fitu. Fólk á að minnka neyzlu á kjöti og auka neyzlu á fiski. Það á að stórauka neyzlu á grænmeti og ávöxtum. Það á að taka hýðiskorn fram yfir hreinsað.

Þetta er formúla Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar. Ýmsir læknar, sem síðustu árin hafa skrifað vinsælar bækur um varnir gegn menningarsjúkdómum á borð við hjartasjúkdóma og krabbamein, eru róttækari og mæla með hreinu grænmetis- og ávaxtafæði, lífrænt ræktuðu.

Um mataræðið gildir eins og hreyfinguna, að á hverju ári fjölgar þeim mjög, sem taka ábyrgð á eigin heilsu og skipta um lífshætti. Verzlanir með lífrænt ræktaðar heilsuvörur skjóta upp kollinum, heilsuhorn eru farin að sjást í stórmörkuðum og hollustufélög hafa eflzt.

Hár þröskuldur er samt í vegi frekari framfara á þessu sviði. Það eru ofurtollar ríkisins á innfluttu grænmeti, er sérstaklega koma hart niður á lífrænt ræktuðu grænmeti, sem er dýrt í innkaupi. Grænmetisstefna stjórnvalda er ávísun á sjúkdóma og kostnað.

Þriðji meginþáttur heilsuræktar er góð slökun, sem nýtur vaxandi vinsælda hér á landi eins og góð hreyfing og gott mataræði. Slökun getur verið margs konar. Allar aðferðirnar eiga rætur að rekja til indverskrar aðferðafræði og kenningakerfis, sem kallað er jóga.

Þetta getur verið líkamsrækt á borð við teygjuæfingar og öndunaræfingar. Það getur líka verið hugleiðsla, sálræn eða andleg. Einnig getur það verið trúariðkun eða vitsmunarækt. Aðferðir í jóga og slökun eru afar fjölbreyttar, svo að flestir geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Þrenning hreyfingar, mataræðis og slökunar er gullið tækifæri fyrir nútímafólk til að afla sér góðrar og langvinnrar heilsu og draga úr líkum á, að það þurfi mikið að vera háð dýrri heilbrigðisþjónustu hins opinbera, sem raunar rambar núna á barmi gjaldþrots.

Enginn þarf að fara á mis við nýja lífshætti. Til eru áhugafélög, þjálfarar, læknar og aðrir sérfræðingar, sem geta hjálpað fólki til að stíga fyrstu skrefin.

Jónas Kristjánsson

DV