Íslenzkir gíslar

Greinar

Þeir bera ábyrgðina, sem hafa í vinnudeilu frumkvæði að vandræðum eða tjóni þriðja aðila, en ekki sá aðili, sem tregðast við að fallast á kröfur frumkvæðismanna um betri kjör. Þetta gildir um flugmenn, kennara, lækna og verzlunarmenn eins og aðra slíka hópa.

Hitler hélt fram gagnstæðri kenningu, þegar hann lét her sinn ráðast inn í Pólland við upphaf síðari heimsstyrjaldarinnar. Hann sagði, að Pólverjar bæru ábyrgð á vandræðum stríðsins, af því að þeir höfðu neitað að fallast á fáeinar kröfur, sem hann taldi hógværar.

Æ síðan hefur kenning Hitlers verið tekin sem dæmi um rökleysu eða hundalógík. Hún lifir þó góðu lífi í launabaráttu á Íslandi, þótt nýfallinn dómur um ábyrgð verzlunarmanna í afgreiðsluverkfalli á vandræðum flugfarþega kunni að hafa dregið úr henni að sinni.

Ákveðnast settu samtök kennara fram rökleysuna á fundum, sem þeir héldu fyrir þremur árum, þegar þeir háðu eitt kjarastríð sitt af mörgum við stjórnvöld. Þá átöldu fundarmenn “stjórnvöld harðlega fyrir að etja kennurum enn einu sinni út í verkfallsaðgerðir”.

Um skeið var það orðið að náttúrulögmáli, að kennarar færu í verkfall á tíma, sem hentaði námsfólki illa. Kennarar vöndu sig á að taka nemendur að gíslum í kjarabaráttu sinni. “Nemendur lifa það af að lenda í svolitlum hrakningum,” sagði talsmaður kennara.

Að loknu verkfalli kennara fyrir þremur árum tóku þeir ríkisvaldið haustaki með undirritun samkomulags um, að nemendum skyldi ekki hleypt milli bekkja án námsmats og samráðs við kennara. Samningurinn fjallaði beinlínis um, að taka megi nemendur í gíslingu.

Lymskulegast hafa læknar og sérfræðingar sjúkrahúsa beitt kennisetningu Hitlers. Það var fyrir tæpum tíu árum. Þá stofnuðu þeir innheimtu, sem sendi sjúkrahúsum einhliða verðskrár. Ef læknir var kallaður út, var litið svo á, að verðskráin væri staðfest.

Ráðamenn sjúkrahúsa stóðu andspænis þeim vanda, að kalla þurfti sérfræðinga til aðstoðar. Þá var um að velja að gera það alls ekki eða fallast óbeint á einhliða verðskrá lækna. Þannig urðu til þau rosalaun fyrir sérfræðiþjónustu, sem vakið hafa deilur að undanförnu.

Rangt kann að vera að nudda læknum upp úr vinnubrögðum þeirra fyrir tíu árum. Um þessar mundir kvarta þeir sáran yfir orðbragði fjármálaráðherra. Ekki má þó gleyma, að undirrót vandans er vel útfærð aðferð lækna við að beita Póllandskenningu Hitlers.

Stéttarfélag verzlunarmanna hefur verið dæmt til að greiða skaðabætur til flugfarþega, sem varð fyrir óþægindum vegna verkfallsaðgerða verzlunarmanna. Engum datt í hug, að flugfélagið væri skaðabótaskylt. Spurning er, hvort ekki sé hægt að túlka dóminn víðar.

Ef nemandi færi í skaðabótamál út af töpuðum námstíma, mundi hann beina málinu að samtökum kennara en ekki að ríkinu. Æskilegt væri að reyna á þetta í næsta kennaraverkfalli til að leggja áherzlu á, að ábyrgð á vandræðum þriðja aðila liggur einhvers staðar.

Fólk þarf að gera sér grein fyrir, að kennarar í verkfalli bera ábyrgð á tjóni nemenda, en ekki ríkisvaldið, sem tregðast við að borga meira fé. Ennfremur, að læknar í taxtastríði bera ábyrgð á tjóni sjúklinga, en ekki ríkisvaldið, sem tregðast við að borga meira fé.

Þetta er svipaðs eðlis og, að það var Hitler, en ekki einhver Pólverji, sem bar ábyrgð á afleiðingum innrásarinnar í Póllandi. Ábyrgðin er á gerandanum.

Jónas Kristjánsson

DV