Fjögur hús á meðalverði eru frambærileg, öll í miðbænum í Reykjavík. Tvö þeirra hafa hefðbundna íslenzka matreiðslu, Þrír Frakkar og Potturinn og pannan, eitt er alþjóðlegt, 101 hótel og eitt er indverskt, Austur-Indíafélagið. Skammt á eftir er Ítalía, eini skammlausi staðurinn af því tagi í þessum verðflokki. Þríréttuð máltíð kostar 4000-5000 krónur á mann á þessum stöðum.
Topphúsið Þrír frakkar við Óðinsgötu hefur lengi verið notalegasta veitingahús okkar. Þar er ferskur fiskur hæfilega matreiddur, ólíkt því sem er á mörgum nýklassískum okurstöðum borgarinnar, þar sem jafnvel er boðinn nánast óætur freðfiskur. Gallinn við staðinn er þung rjóma- og ostasósa, sem flæðir undir ýmsum nöfnum yfir flesta rétti, nema yndislegan plokkfisk og saltfisk.
Potturinn og pannan við Nóatún er sómastaður, ekki eins góður og Þrír frakkar, en minna gegnsósa og býður tærar súpur og grænmetisborð, svo að maturinn er hollari en víðast hvar. Hann hefur hins vegar ekki eins góða nærveru, þrátt fyrir glaðbeitta þjónustu, ber svip af hagkvæmni fyrir sparsama ferðamenn og innlend hjónakorn, sem kaupa góðfisk dagsins, súpu og salat fyrir aðeins 2000 krónur.
101 hótel í Ingólfsstræti er merkilegur salur í helzta tízkuhóteli borgarinnar, ódýr og frumlegur í senn, eins konar “fusion” stílgrautur undir nýfrönskum áhrifum, sem sækir þó mest frá Indlandi. Fínleg matreiðsla á fiski er nýfrönsk, réttir úr fjarlægum kryddblöndum frá löndunum við Indlandshaf er eins konar flétta úr vestrænu og austrænu. Því miður er skerpt er á réttunum í örbylgjuofni, sem klessir grænmetisskreytingar.
Austur-Indíafélagið við Hverfisgötu, er sá austræni matstaður hér á landi, sem gælir ekki við íslenzka matarhefð, ekki einu sinni fisk, heldur býður hreinræktaða matreiðslu frá framandi landi. Boðið er upp á indverska einkennisrétti. Snarkandi tandúri kjúklingur er ekki lengur þurr. Auk einkennisréttanna er fjölbreytt úrval rétta frá landi, sem í rauninni er heil heimsálfa í matargerðarlist.
Jónas Kristjánsson
DV