Kjúklingur, jafnvel Holtakjúklingur, verður aldrei Coq au vin, Hani í víni. Til þess þarf að ala hanann í 9 vikur. Síðan er hann matreiddur í Búrgundarvíni í heilan sólarhring til að gera hann meyran og bragðmikinn. Eini staðurinn hér á landi, sem býður ekta Coq au Vin er Friðrik V, sem kaupir alla framleiðslu af hönum hjá Bjarna Eiríki Sigurðssyni á Torfastöðum, þeim fræga hestaferðamanni. Gott dæmi um, að „beint frá bónda“ er tilefni ótrúlegrar fjölbreytni matseðla þeirra veitingastaða, sem gæla við hráefni með skilgreindum uppruna. Þannig hafa ýmsir bændur orðið kunnir af frábærum sérleiðum í ræktun og húsdýrahaldi.