Íslenzkur sjarmör

Greinar

Norðurlandamenn hafa smám saman misst fyrri áhuga á Íslandi og því, sem þar kann að vera að gerast. Í bolta- og söngvakeppni heldur fólk með nágrönnum sínum, þar á meðal Íslendingum, þegar eigin þjóð sleppir, en gömlu Íslandsvinirnir safnast smám saman til feðra sinna.

Í staðinn hefur risið nýr hópur fólks, sem tengist Íslandi órjúfanlegum böndum. Það eru eigendur íslenzkra hesta, sem flykkjast hingað þúsundum saman á tveggja ára fresti til að fylgjast með landsmóti hestamanna og hittast hitt árið á heimsleikum íslenzkra hesta.

Margt af þessu fólki kemur sér fyrir í áhorfendabrekkunni með regngalla sína og teppi, kaffibrúsa og mótaskrá og er þar dag eftir dag frá morgni til kvölds í sex keppnisdaga samfleytt. Þetta er um fjórðungur fjöldans, sem við sjáum á myndum af áhorfendabrekkunni.

Áhugamenn um Íslandshesta gera margt fleira. Þeir kaupa reiðtygi og annan búnað í hestavöruverzlunum, þeir fara í reiðtúra og hestaferðir um byggðir og óbyggðir landsins, kaupa gúmmískó í kaupfélaginu og þeir leita að draumahestinum til að taka með sér heim.

Um allan heim, en mest í Evrópu, snýst líf tugþúsunda fjölskyldna um íslenzka hestinn. Hann er þungamiðjan í lífi þeirra, ræður frístundum þess og vinaböndum. Íslenzki hesturinn er áhugamál, sem heltekur fólk og ryður öllu öðru til hliðar. Íslenzki hesturinn er sjarmör.

Það er ekki nóg með, að hann hafi varðveitt fornan góðgang, sem horfinn er víðast annars staðar, heldur er hann mannelskur umfram aðra hesta, ljúfur og hlaupaglaður, svo sem bezt kemur fram í frjálsum rekstri um fjöll og firnindi, ósnortin víðerni þessa strjálbýla lands.

Þótt Íslendingar séu sjálfir aukahjól í þessu innilega sambandi, fer ekki hjá því, að sameiginlegt áhugamál framkalli vinabönd. Í frístundum ferðast sumir íslenzkir hrossabændur í góðu yfirlæti milli góðbúa vina sinna í útlöndum til að endurgjalda heimsóknir til Íslands.

Fjármagn og atvinna flæðir umhverfis þetta áhugamál. Þótt dæmi séu um, að hrossakaupin sjálf séu undir borðum, er meirihluti heildarviðskiptanna uppi á borði, verzlun með búnað og gögn, hestaflutningar innanlands og til útlanda, þjálfun og kennsla, ferðalög og gisting.

Hundruð ungra Íslendinga starfa tímabundið á þessu sviði í útlöndum, aðrir hafa komið sér þar fyrir og tugir þeirra hafa keypt sér þar jarðir. Hér á landi starfa hundr-uð erlendra ungmenna við þjálfun og umgengni við hesta. Samanlagt er gífurleg seðlavelta í greininni.

Stjórnvöld hafa fengið síðbúinn áhuga, mest að frumkvæði Guðna Ágústssonar landbúnaðarráðherra og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur borgarstjóra. Risið hefur frábært móts- og æfingasvæði í Víðidal við Elliðaár og sjóðir hafa verið stofnaðir til framgangs greininni.

Mesta landsmót sögunnar hefur verið haldið við beztu aðstæður í Víðidal og verður driffjöður enn frekari vinatengsla og viðskipta. Íslenzki hesturinn mun áfram auka kyn sitt og vinna ný lönd um allan heim, þar sem honum verður hvarvetna tekið sem heimilisvini.

Hvort sem hestarnir eru fæddir í útlöndum eða í víking frá Íslandi, þá bera þeir nánast undantekningarlaust íslenzk nöfn, enda er það eitt af markmiðum alþjóðasambands eigenda íslenzkra hesta. Sörlar og Blesar, Vanadísir og Freyjur eru að breiðast út um heim.

Íslenzki hesturinn heima og erlendis er sendiherra og sjarmör landsins, sívirk auglýsing íslenzkrar framleiðslu og þjónustu, verðmæt auðlind, sem ekki þverr.

Jónas Kristjánsson

DV