Ítalía

Veitingar

Um daginn fékk ég bezta heilagfiski, sem ég hef fengið á ævinni. Það var betra en ég hef fengið það bezt heima hjá mér. Það var ekki þurrt og seigt eins og þessi feiti fiskur er oft í veitingahúsum, vegna þess að hann er of lengi eldaður. Þetta var hins vegar undurmeyr fiskur og bragðljúfur, greinilega rétt eldaður upp á sekúndu, frábær réttur. Enda er kokkurinn ítalskur.

Gerólíkt erlendum
stælingum

Þar sem einu sinni var sæluríkið og kjaftabúlan Laugavegur 11 og síðan hafa verið fleiri veitingahús en hægt er að rekja, er nú komið skemmtilega ítalskt veitingahús, sem heitir einfaldlega Ítalía. Það er með beztu veitingahúsum borgarinnar, gerólíkt þeim stælingum útlendra veitingahúsa, einkum austrænna, sem í nokkur ár hafa verið í tízku á höfuðborgarsvæðinu.

Ítalskur matur ber eins og gull af eiri af öðrum mat Miðjarðarhafslanda. Má raunar telja furðulegt, að Grikkir og Spánverjar skuli ekki hafa komið sér upp matargerðarlist, sem geti att kappi við hina ítölsku. Ítölum er eins og Frökkum eðlilegt að elda góðan mat og við höfum dæmi um það í þessari matarholu neðst við Laugaveginn.

Oftast er þétt setinn bekkurinn á Ítalíu. Þótt staðurinn sé lítill, komast um 60 manns í sæti. Staðurinn hefur vel heppnað ítalskt útlit. Hann er langur og mjór, hvítmálaður, þröngur og suðrænn. Veggur í axlarhæð skiptir honum eftir endilöngu og annar slíkur skilur að skot við gluggann úti að götunni. Þar úti við glugga er gott að drepa tímann við að horfa á vegfarendur, þegar veður er gott og þeir ekki of þjáningarlegir á svipin, svo sem Íslendingum er títt.

Gamall ítalskur ísvagn er til skrauts frammi við dyr. Innst hanga ítalskar vínflöskur í bastklæðum. Þar er pizzuofn mikill og eldhús staðarins. Á veggum er margvíslegt skraut, e

Grana-ostur
á borðum

Smíðajárnsfætur eru undir dúklögðum spónaplötum með glerplötu ofan á. Kerti eru á borðum, þykkar diskamottur og grana-ostur í skondnum reiðhjólaskálum. Grana-ostur er það, sem Ítalir setja út á allan mat og sumir Íslendingar kannast við sem “parmesan”. Það er enskt orð, sem kemur frá þekktri tegund af grana-osti, sem heitir “parmigiano”.

Einkennilegt var, að ekki voru ekta rauðvínsglös á borðum, heldur vel þekkt þýzk hvítvínsglös með lituðum fæti. Það fannst mér dálítið út úr kortinu.

Þjónusta staðarins er elskuleg og fumlaus. Í bakgrunni heyrist traustvekjandi rödd kokksins, sem kallar á íslenzku með sönglandi ítölskum hreim. Smjör er borið fram mjúkt í kúlum, en ekki frosið í álpappír, sem orðinn er einkennistákn íslenzkra veitingahúsa.

Á vínlistanum eru sennilega öll ítölsk vín, sem fást í Ríkinu, nema Barbaresco, og ýmis frá öðrum löndum að auki. Miðað við aðstæður er þetta frambærilegur listi, hvað rauðvín snertir. Því miður er Barolo-vínið frá Fontanafredda, sem er stórframleiðandi á daufum og hlutlausum vínum, sem standa ekki undir nafninu Barolo. En Santa Cristina og Riserva Ducale eru ágæt Chianti-vín, sem standa undir nafni. Þá eru á listanum ítalskir vermútar og bitterar í löngum bunum, svo og líkjörar og versta brennivín í heimi, Grappa, sem ítalskur barþjónn svældi í mig með veðmáli við Canal Grande endur fyrir löngu.

Óvenjulega gott
Tortellini

Súpa dagsins var nokkuð gott grænmetisseyði, sem batnaði við að stráð var dálitlu af Grana út í. Hvítlauksristaður hörpufiskur í olíu-tómat-hvítlaukssósu var meyr og góður, léttari undir tönn en stundum bregður fyrir í veitingahúsum landsins. Sniglar í kássu voru líka meyrir og góðir. Bragð þeirra kom vel í gegn, þótt sósan væri sterk, sama sósan og með hörpufiskinum.

Af pastaréttum prófaði ég Lasagna Bolognese með gráðosti, heitan og góðan rétt. Ennfremur Tortellini með skinu, sveppum og hvítlauki í rjómasósu. Tortellini eru örlitlir hveitisekkir, fylltir með kjöti, svo sem skinku, og öðru góðgæti, svo sem Grana. Þeir voru óvenjulega góðir á bragðið og gáfu ekki eftir því bezta, sem fæst á Ítalíu af því tagi. Loks prófaði ég skeldýra-spaghetti, þar sem boðið var upp á rækjur, hörpufisk og krækling. Þetta var fremur gott pasta.

Pizzusérfræðingar mínir segja, að pizzur staðarins hafi það helzt fram yfir aðrar pizzur bæjarins að vera stórar og matarmiklar, án þess að vera dýrari en annars staðar. Það er vel af sér vikið, því að Ítalía er fremur dýr staður að öðru leyti. Pizzubrauðið var hæfilega þunnt, en alls ekki of hart.

Þótt maturinn væri allur góður og Tortellini mjög gott, bar heilagfiskið svo af, að því verður seint gleymt. Ég þori ekki að panta það aftur af ótta við að verða fyrir vonbrigðum. Það var borið fram með þunnri og hlutlausri sósu, hveitilausri.

Ítalía er frægasta rjómaísland í heimi. Ísinn í veitingahúsinu Ítalíu sveik heldur ekki, mjög rétt blanda af ís og ýmsum söxuðum ávöxtum.

Loks má ekki gleyma espresso-kaffi staðarins. Í eitt skiptið varð ég fyrir vonbrigðum með það, en annars var það gott.

Fremur dýrt
veitingahús

Ítalía er fremur dýr staður, ef frá eru taldar pizzur, pöstur og réttur dagsins. Miðjuverð fjögura súpa er 493 krónur, fjögurra forrétta 750 krónur, átta pastarétta 895 krónur, sextán pitsa 870 krónur, þriggja fiskrétta 810 krónur, fimm kjötrétta 1550 krónur og þriggja eftirrétta 495 krónur. Súpa dagsins var á 310 krónur og fiskur dagsins á 895 krónur. Expresso-kaffi kostaði 160 krónur. Miðjuverð þriggja rétta veizlu með kaffi var 2.600 krónur, en auðvitað má komast af með miklu minna.

Ítalía er ein af undantekningunum frá þeirri reglu höfuðborgarsvæðisins, að veitingahús, sem kenna sig við fjarlæg lönd, séu fölnuð stæling á raunveruleikanum. Ítalía er gott veitingahús, sem býður góðar pöstur og beztu lúðu, sem ég hef fengið.

Jónas Kristjánsson

DV