Ítalía

Veitingar

Veitingahúsið Ítalía við Laugaveginn hefur ekki mætt aukinni samkeppni með auknum matargæðum, enda virðist það ekki þurfa á slíku að halda. Þar er fullt hús á kvöldin og jafnvel slæðingur í hádeginu, þótt staðurinn sé alls ekki með nein hádegistilboð í líkingu við það, sem víða tíðkast við Laugaveginn í kreppu líðandi stundar.

Fólk heldur áfram að þyrpast á Ítalíu, þótt risið hafi í nágrenninu annar ítalskur matstaður, sem býður betri mat á lægra verði. Nýi staðurinn hefur stækkað markaðinn í stað þess að taka frá Ítalíu. Svo er verið að tala um kreppu í þjóðfélaginu. Hún er afstæð eins og annað.

Mér sýnist matseðill Ítalíu hafa verið óbreytilegur um árabil, ef frá eru talin súpa og fiskur dagsins. Seðillinn byggist að mestu á pöstum á 990 krónur og pizzum á 980 krónur. Ef reiknað er með hefðbundnum réttum, kostar 3000 krónur að borða þríréttað, fyrir utan drykkjarföng. Það hlýtur að teljast í dýrari kanti veitingahúsa.

Betra pasta er fáanlegt

Þótt pasta Ítalíu sé nokkuð gott, nær það ekki jöfnuði við pastað á Pasta Basta, enda virðist það ekki vera gert á staðnum, heldur koma úr pökkum. Á þessu tvennu er töluverður gæðamunur, sem menn átta sig ef til vill ekki á, nema hafa setið góð veitingahús í upprunalandinu.

Pizzur eru raunar helzti sómi staðarins. Þær hafa undantekningarlaust reynzt mér góðar, rata rétta meðalveginn milli þykktar og þynndar, mýktar og hörku. Ég held líka, að þær séu það, sem laða flesta áhangendur að þessum notalega ranghala, hvítmálaða og Miðjarðarhafslega.

Gestir sitja í þröngum básum milli hárra skilrúma með hafi gerviblóma. Því sést lítið milli borða. Hver hópur er eins og eyja út af fyrir sig. Þrátt fyrir það og ef til vill þess vegna er góð stemmning hjá matargestum. Heppilegt er þó, að fólk sé ekki haldið innilokunarótta.

Eldamennskan er fremur góð á Ítalíu, þótt heldur hafi slaknað á gæðunum.Ítölsk fiskisúpa var hnausþykk og matarmikil, tómatrauð og bragðgóð. Sniglar í ragú voru meyrir og góðir, bornir fram með miklum tómatgraut. Kryddlegin nautatunga var einnig góð, með öflugu sítrónubragði, borin fram með fjölbreyttu grænmeti. Sjávarréttasalat var sítrónukryddað, fjölbreytt að efnisvali.

Smokkfiskur á feneyska vísu var meyr og fínn, hæfilega djúpsteiktur, með hrísgrjónum. Saltfiskur á vicenzka vísu var óvenjulega mildur, mjög góður út af fyrir sig, en beið lægri hlut fyrir yfirgnæfandi tómatbragði.

Ekki sparað magnið

Tiramisú, hinn frægi eftirréttur Feneyinga, er í óvenjulegri og góðri útgáfu á Ítalíu, með miklu sítrónufrauði og litlu súkkulaðikremi, borinn fram í stóru ísglasi. Eins og í mörgum öðrum réttum staðarins var ekki sparað magnið. Sú gestrisni stuðlar án efa að vinsældunum.

Enginn hugsar sér ítalskan stað án góðs kaffis. Ítalía er engin undantekning á því. Espresso kaffibollinn reyndist mér ein eftirminnilegasta nautn staðarins. Þá mundi ég loksins eftir, að, þrátt fyrir ýmsar athugasemdir mínar, er Ítalía enn hinn sómasamlegasti veitingastaður.

Jónas Kristjánsson

DV