Ítalía

Veitingar

Við vorum komin hálfa leið til Ítalíu. Veitingamaðurinn á Laugavegi 11 stóð við skenkinn og vakti traust með því að kallast í síma á við birgjana, svo að ómaði um allan sal. Ítalska og íslenzka víxluðust á ýmsa vegu með hæfilegum úða af perfetto og ciao .

Eignarhaldið er ítalskt, kokkarnir eru ítalskir, gæðaþjónustan er hálfítölsk, vel valið vínið er að mestu ítalskt og tilviljanalegar veggskreytingar eru ítalskar. Það, sem tæpast hékk í ítölskunni, var matreiðslan, sem þætti í slöku meðallagi heima fyrir. Bakaðar kartöflur og amerískar pítsur eru raunar einkennistákn hennar.

Fullmikið elduð pöstu og hrísgrjón gátu ekki talizt stinn upp á ítölsku og bezt gæti ég trúað, að pastað væri úr pökkum. Hvort tveggja var þó gott á mælikvarða íslenzkrar hefðar. Pítsur staðarins voru gallalausar, jafnar og mjúkar, með hæfilega hörðum kanti.

Ítölsk matreiðsla er eðlisgóð, einföld og eðlileg, hættir sér ekki í franskar flækjur og ofgerir ekki. Íslenzk áhrif valda því hins vegar, að Ítalía við Laugaveginn víkur af sporinu með óhóflegum sósum og olíum, sem deyfa aðalbragðið og sjónmenga réttina.

Sjávarrétta-spaghetti leið fyrir þetta, flaut miður kræsilega í mildri tómatsósu, en var eigi að síður bragðgott. Betur tókst til með tómatsósulaust sjávarrétta-risotto, þar sem góða, steikta hrísgrjónabragðið náði fram að koma.

Yfirþyrmandi ostaþak á fiski dagsins skyggði á góða smálúðubragðið. Spínatgrunnurinn var hins vegar góður, átti vel við fiskinn og fól í sér hæfilegt meðlæti að ítölskum hætti. Bakaða kartaflan var utangátta.

Of mikið olíuvætt árstíðarsalat með blönduðum sjávarréttum var ofviða þunnum pappírsþurrkum. Blaðsalatið var þó ljómandi ferskt og sjávarréttirnir meyrir og bragðgóðir. Pönnusteiktu, hvítlaukskrydduðu og snarpheitu sveppirnir voru betri og einfaldari forréttur, en bornir fram með heilhveiti-geymslubrauði.

Annar bezti rétturinn var eldbökuð og mintukrydduð lambakóróna, bleik og mjúk, borin fram að bandarísk-íslenzkum hætti með hrásalati og gettu nú: Bakaðri kartöflu. Hinn bezti rétturinn var feneysk tiramisu, kaffi- og kakókrydduð ostakaka, hæfilega þurr, með þeyttum rjóma og vínberjum.

Súpur eru staðarsómi, indæl hvíld frá íslenzkum kremsúpum. Jafnvel linsubaunasúpa reyndist vera góð, matarleg og létt í senn, tómatlöguð grænmetissúpa. Súpa dagsins með aðalrétti dagsins fæst á góðu verði í hádeginu, 750 krónur. Annars er verðlagið fremur hátt, tæpar 3.800 krónur að meðaltali þríréttað með kaffi.

Ítalía hefur frá upphafi verið vinsæl meðal ungs sporgöngufólks og ferðamanna, sem sitja þröngt og sátt í gerviblómahafi og drekka vín úr eftirréttaskálum. Andrúmsloftið er fjörlegt og gott, en ég sakna Ítalíu.

Jónas Kristjánsson

DV