Ítalir töpuðu

Greinar

Sigur auðjöfursins og fjölmiðlakóngsins Berlusconis í þingkosningunum var ósigur Ítala, sem sýndu, að þeir létu sér í léttu rúmi liggja þrjá dóma, sem á hann hafa fallið fyrir að svíkja undan skatti, múta stjórnmálaflokki og falsa skjöl, svo og ákæru fyrir að múta dómurum.

Þótt dómunum yfir Berlusconi hafi ekki verið framfylgt, eru þeir framarlega í flokki ótal vísbendinga um fjölbreytta spillingu hans, sem urðu til þess, að tímaritið Economist og nokkur af virðulegustu dagblöðum Evrópu sögðu hann óhæfan til að vera forsætisráðherra.

Maður af tagi Berlusconis gæti aldrei unnið kosningar í neinu ríki Vestur-Evrópu, ekki einu sinni í hinum Miðjarðarhafsríkjunum, Spáni og Grikklandi. Fyrirbærið er sérstakt fyrir Ítalíu, þar sem menn segja enn, að menn “neyðist” oft að brjóta lög til að koma sínu fram.

Því dýpra sem saksóknarar hafa kafað í spillinguna, þeim mun betur hefur komið í ljós, hvernig hún gegnsýrir samskipti í stóru og smáu. Vitneskja um útbreiðslu spillingar hefur ekki hvatt Ítali til gagnaðgerða, heldur gert marga þeirra ónæma fyrir vitneskjunni.

Raunar má víða sjá leifar eins konar lénsskipulags miðalda á Ítalíu. Í stað þess að treysta þjóðfélaginu og stofnunum þess leita menn verndar hjá lénsherra og gerast fylgismenn hans í stóru og smáu. Af þessari orsök hafa mafíur víða orðið ríki í ríkinu á Ítalíu.

Fyrirbærið hefur verið ítarlega kannað af ítölskum félagsfræðingum. Öfugt við lýðræðissinna mynda lénsveldissinnar lítil og léleg félagstengsl í láréttum fleti jafningja, en þeim mun öflugri lóðrétt tengsl yfirmanna og undirmanna, milli lénsherra og lénsmanna.

Berlusconi er einn af “sterku mönnunum”, sem víða hafa komizt til valda í þriðja heiminum, meðal annars vegna þess að kjósendur ímynda sér, að ríkidæmi þeirra smitist yfir í þjóðfélagið. Allir þessir sterku menn hafa orðið þjóðum sínum til ógæfu og fjárhagstjóns.

Andrúmsloftið er annað á Ítalíu en í Vestur-Evrópu almennt. Fjöldi Ítala yppti öxlum, þegar hneykslisferill Berlusconis var tekinn fyrir í erlendum fjölmiðlum og hann sagður óhæfur til stjórnmála. Þeir telja útlendinga ekki skilja svonefndar sérstakar aðstæður á Ítalíu.

Ítalir láta sér margir hverjir líka fátt um finnast, þótt maður, sem hefur mikil áhrif vegna ríkidæmis síns og fjölmiðla sinna, bæti við pólitískum völdum. Þeir skilja ekki, að markviss dreifing valdsins í þjóðfélaginu er einn af mikilvægustu hornsteinum vestræns lýðræðis.

Nú versnar staða Ítalíu í samfélagi þjóðanna. Menn grafa upp gamlar áhyggjur af, að Ítalía sé ekki tækt í myntbandalag evrunnar, af því að Ítalir beiti ekki sömu leikreglum og aðrar þjóðir Vestur-Evrópu. Traust umheimsins á Ítalíu beið hnekki í þingkosningunum.

Ekki er víst, að Berlusconi verði forsætisráðherra og ekki verða nein ragnarök á Ítalíu, þótt svo yrði. Svigrúmið til rannsókna á spillingu minnkar nokkuð og ríkiskerfið verður meira notað til að þjóna peningalegum sérhagsmunum. Þetta er áfall, en lýðræðiskerfið lifir það af.

Mestu máli skiptir, að Ítalía er grunnmúruð í Evrópusambandinu, sem setur mestu spillingunni stólinn fyrir dyrnar og sér um, að heilbrigðum vinnubrögðum að vestrænum hætti verði beitt á mörgum mikilvægum sviðum í embættisrekstri og stjórnmálum á Ítalíu.

Ekki má heldur gleyma, að helmingur Ítala er saklaus af að hafa stutt Berlusconi. Baráttan milli gildismats lýðræðis og lénsveldis mun halda áfram á Ítalíu.

Jónas Kristjánsson

DV