Jaðarbyggðir láta undan síga

Greinar

Á Hornströndum má víða sjá, hvar fólk hefur búið fyrr á öldum í einangrun undir fjalli og við opnu hafi. Annað jarðnæði var ofsetið og fólk varð að bjarga sér sem bezt það gat. Þegar tækifæri efldust, einkum á tuttugustu öldinni, fóru þessar jaðarbyggðir í eyði.

Jaðarbyggðir hafa alla þessa velmegunaröld verið á undanhaldi. Það hefur einkum komið niður á dreifbýli til sveita, en síður á sjávarplássum. Nokkurn veginn samfelld gróska í sjávarútvegi hefur haldið verndarhendi yfir annars tæpum jaðarbyggðum sjávarsíðunnar.

Ýmislegt hefur verið gert til að treysta varnir sjávarplássa. Áhrifamest er byltingin í samgöngum á landi og í lofti. Vegir eru víðast færir árið um kring, flug er víða reglubundið og sums staðar eru jarðgöng farin að tengja saman byggðir og styrkja þær sameiginlega.

Annað hefur orðið til að grafa undan byggðunum. Fiskveiðar eru í auknum mæli stundaðar um borð í frystitogurum, sem geta landað afla sínum hvar sem er. Þá hefur fyrirkomulag kvótakerfisins leitt til stórfelldra flutninga á fiskveiðiréttindum milli sjávarplássa.

Sjávarútvegurinn er raunar smám saman að verða óháður sjávarplássunum. Ekkert er til dæmis því til fyrirstöðu, að kvótar og frystitogarar safnist til Reykjavíkur og Akureyrar, ef sjávarútvegsfyrirtækin á þeim stöðum eru betur rekin en önnur slík fyrirtæki.

Þetta hefur ekki enn komið niður á atvinnu í jaðarbyggðum við sjávarsíðuna, svo að ótímabært er að kenna kerfisbreytingum í sjávarútvegi um fólksflóttann. Slíkar breytingar eru hins vegar yfirvofandi og hafa áhrif á væntingar fólks, sem hugsar sér til hreyfings.

Fyrst og fremst eru það félagsleg og hugarfarsleg atriði, sem valda því, að fólk flytzt nú tugum saman frá sumum sjávarplássum Vestfjarða. Fólk yfirgefur mikla atvinnu, af því að það sækist eftir betri félagslegum aðstæðum og meira öryggi fyrir náttúruöflunum.

Engin vafi er á, að snjóflóðin á Vestfjörðum hafa markað þáttaskil. Fólk er allt í einu sinni farið að átta sig á, að íbúðir þess eru á hættusvæðum. Það hættir skyndilega að loka augunum fyrir hættunni og ákveður í staðinn að taka á henni í eitt skipti fyrir öll.

Flestir eru sammála um, að skólar hafi mikið að segja. Vitað er, að í jaðarbyggðum, til dæmis á Vestfjörðum, eru skólar lakari en landsmeðaltalið. Auk þess er dýrt að gera út námsmenn í aðrar byggðir. Foreldrar flytja sig hreinlega þangað sem börnin sækja skóla.

Sjaldan er þó talað um sterkasta áhrifavaldinn. Það er sjálfur nútíminn, sem breytir hugarfari og væntingum. Í Reykjavík er ógrynni af kaffihúsum og börum, þar er úrval kvikmyndahúsa og tónleika. Þar er ilmurinn af hinni stóru og víðu veröld nútímans úr sjónvarpinu.

Varnarbarátta jaðarbyggðanna endar vafalaust á því að flestir Íslendingar búa innan klukkutíma fjarlægðar frá Austurvelli. Þessi þróun jafngildir eins konar náttúruafli. Hún hefur malað hægt og örugglega alla þessa öld. Hún eyddi sveitum og mun eyða sjávarplássum.

Félagslegu miðsóknarafli fylgir jafnan líka miðflóttaafl, þótt í veikara mæli sé. Meðan hinir mörgu sækja í Reykjavíkurglauminn munu hinir fáu sækja í fásinnið í jaðarbyggðunum, þar sem fólk “fer heim til sín í hádeginu”, eins og auglýst var í blaði um daginn.

Stóra spurningin er svo, hvort Reykjavík verði ætíð endastöð sóknar fólks út í hina stóru og víðu veröld eða hvort það tekur upp á því að sækja enn lengra.

Jónas Kristjánsson

DV