Við söfnum sjálf til elliáranna hér á landi, ólíkt flestum öðrum þjóðum, sem annað hvort búa við ótryggt ævikvöld eða treysta meira eða minna á gegnumstreymi lífeyris á vegum opinberra aðila. Unga fólkið á Íslandi er ekki lengur að safna lífeyri fyrir gamla fólkið.
Málin hafa fallið hratt í þennan farveg, síðan farið var að miða lífeyrisgreiðslur við raunverulegar tekjur, en ekki strípaða taxta; síðan lífeyrisprósentan var hækkuð um 2,2 stig; og síðan farið var að bæta séreignasjóðum og séreignadeildum ofan á eldra sameignarkerfi.
Gegnumstreymi er algengt lífeyriskerfi á Vesturlöndum. Tekið er af þeim, sem eru á atvinnualdri, til að greiða þeim, sem eru hættir að vinna. Þetta gengur vel, þegar aldursskipting þjóðar er þannig, að hlutfall eftirlaunafólks af heildarmannfjölda er fremur lágt.
Eftir því sem þjóðir eldast, svo sem gerzt hefur hratt á Vesturlöndum, minnka líkur á, að starfandi fólk geti staðið undir eftirlaunum aldraðra. Opinbera lífeyriskerfið sligast að lokum hreinlega undir þunga gegnumstreymis, sem virtist svo ódýrt og þægilegt í fyrstu.
Hollendingar og Bretar hafa gengið þjóða lengst í að reka lífeyriskerfið á raunverulegum sparnaði liðins tíma. Við komum í þriðja sæti, næst á undan Svíum og Írum. Þetta eru þær þjóðir, er búa við traustan lífeyri, sem mun standast ágjöf breyttrar aldursskiptingar.
Mikill og raunverulegur lífeyrissparnaður að okkar hætti safnar enn fremur lausu og dreifðu fjármagni í öfluga sjóði, sem taka þátt í að efla atvinnulífið. Íslenzki hlutabréfamarkaðurinn hefur á síðustu árum einkennzt af mikilli og öflugri þátttöku lífeyrissjóða.
Mikilvægt er þó, að lífeyrissjóðir gangi ekki of langt í eltingaleik við skammtímahagsmuni. Samkeppni um arðsemi má ekki leiða til áhættusamra fjárfestinga, sem stríða beinlínis gegn þeirri grundvallarforsendu lífeyrissjóða að skila höfuðstólnum langt inn í framtíðina.
Við uppsöfnunarkerfi lífeyrismála okkar bætist svo, að fyrir löngu var hætt að niðurgreiða byggingalán. Fólk getur ekki lengur reist sér húsnæði fyrir lánsfé, sem brennur upp. Við erum fyrir löngu hætt að velta vandamálum neikvæðra vaxta inn í framtíðina.
Uppsöfnun lífeyris og jákvæðir húsnæðisvextir stuðla beint og óbeint að jafnvægi milli kynslóða á mælikvarða svokallaðra kynslóðareikninga. Við erum nokkurn veginn hætt að senda ungu fólki og ófæddum börnum reikninginn fyrir að lifa sjálf um efni fram.
Árið 1995 hefðu skattar okkar þurft að vera 5% hærri til að núverandi kynslóðir standi sjálfar undir opinberum rekstri. Talan hefur síðan lækkað og er líklega í núlli um þessar mundir. Það þýðir, að við erum hætt að senda reikninga til ófæddra barna og barnabarna.
Fáar þjóðir hafa borið gæfu til að draga úr þessu gegnumstreymi skatta milli kynslóða. Írar, Bretar og Danir, Nýsjálendingar, Ástralir og Kanadamenn eru í álíka góðum málum og við í opinberum rekstri, nálægt hinu eftirsóknarverða núlli í kostnaðarjafnvægi kynslóðanna.
Hér eftir verður erfiðara fyrir skammtímasinnaða stjórnmálamenn að sukka í samneyzlu og opinberum fjárfestingum eins og tíðkaðist fyrr á áratugum. Við erum orðin meðvituð um, að halli á ríkisbúskapnum jafngildir álögum á ófædda afkomendur okkar.
Í fornöld seldi fólk börn sín í ánauð til að afla brauðs. Við mætum hins vegar nýrri öld með hreinu borði. Við erum hætt að hlaða byrðum á afkomendur okkar.
Jónas Kristjánsson
DV