Jakkalaus kerfisflokkur.

Greinar

Guðfaðir núverandi forustu Alþýðubandalagsins er Lúðvík Jósepsson. Hann er kunnastur fyrir að bera manna mest ábyrgð á offjölgun togara og þar með á þeim erfiðleikum, sem leiddu til kvótakerfisins í sjávarútvegi. Margir sjávarútvegsráðherrar áttu þátt í þessu, en Lúðvík langmestan.

Löngu eftir að allir aðrir og jafnvel sjávarútvegsráðherrar voru búnir að sjá þennan vanda, hélt Lúðvík áfram að prédika stækkun togaraflotans. Hann er vafalaust enn sömu skoðunar, svo að heppilegt er fyrir Alþýðubandalagið, að hann er hættur að tjá sig um stjórnmál.

Lúðvik kemur nú helzt fram á opinberum vettvangi, þegar hann þarf að verja bankastjóra fyrir gagnrýni vegna sérkennilegra fríðinda þeirra. Og svo, þegar óvart eru teknar myndir af honum í laxveiði með bankastjórum. Enginn efast um, að Lúðvík er einn kerfiskarlanna.

Krónprinsar hans í Alþýðubandalaginu hafa meira eða minna farið með völd í þjóðfélaginu á undanförnum áratug. Fólk er orðið vant Svavari Gestssyni í ráðherrafötunum og man enn, að Ragnar Arnalds var einn af helztu forvígismönnum hinnar eftirminnilegu Kröfluvirkjunar.

Fólk ypptir bara öxlum, þegar kerfiskarlinn Svavar Gestason er kominn á skyrtuna og talar í sjónvarp af heilagri vandlætingu um hina voðalegu stjórn, sem nú sé á landinu. Menn efast um, að hann meini það í alvöru að vera þrútinn af bræði út af framgöngu ríkisstjórnarinnar.

Hitt andlit Alþýðubandalagsins er Þjóðviljinn. Þar birtast nálega daglega hneykslisfréttir af ríkisstjórn eða borgarstjórn. Þess á milli fjalla fimmdálkarnir um kísilgúrinn og aðra vonda aðila. Þetta er hið daglega svartnætti Þjóðviljans, daglega neyðarópið.

Reikna má með, að venjuleg ríkisstjórn geri mistök í svo sem annað hvert skipti. Léleg ríkisstjórn kemst ef til vill upp í tvö sinni af hverjum þremur. En fráleitt er, að allt sé alvont eins og halda mætti af síbylju fjölmiðils og formanns Alþýðubandalagsins.

Annað einkenni þessara aðila er að taka undir allt væl, sem heyrist úti í bæ, jafnvel þótt það stangist á. Annan daginn felst hneykslið í of lélegum kjörum fiskvinnslufólks. Hinn daginn er fiskvinnslan að fara á hausinn. Og allt er þetta ríkisstjórninni að kenna.

Í augum almennings er Alþýðubandalagið að verða að fyrirbæri, sem fer úr jakkanum, þegar það er ekki í ríkisstjórn og reynir að rækta hverja öfund, sem finnst, og hvert væl, sem heyrist. Ábyrgðarleysið lekur af síðum fjölmiðilsins og reiðisvip formannsins.

Þess vegna er ekki undarlegt, að Alþýðubandalagið sé í kreppu og höfði ekki lengur til unga fólksins. Vandinn felst ekki aðeins í, að formaðurinn sé einræðishneigður og vilji ekki ræða ágreiningsefnin. Ekki heldur eingöngu í sífelldum árásum Þjóðviljans og órólegu deildarinnar á verkalýðsforingja flokksins.

Vandinn felst ekki heldur bara í, að þeir séu sniðgengnir, sem komu í flokkinn á áttunda áratugnum og höfðu ekki verið í Sósíalistaflokknum gamla. Það er að vísu dýrt að bola Ólafi Ragnari Grímssyni af þingi og missa hvern breiðlínumanninn á fætur öðrum úr flokknum.

Auðvitað er hreinlína órólegu deildarinnar flokknum óhagstæð, því að hún er frá nítjándu öldinni. Hitt vegur jafnþungt, að meðal kjósenda er ekki til nógu mikil öfund og nógu mikið væl til að halda uppi fylgi kerfiskarlaflokksins.

Jónas Kristjánsson.

DV