Heimsfriðurinn hvílir nú á James Baker, sem var utanríkisráðherra George Bush hins eldra 1989-1992. Hann er formaður þverpólitískrar nefndar um mál Íraks, sem markar stefnubreytingu. Nefndin segir stríð og hernám ekki hafa skilað árangri og nú verði að fara aðra leið. Með ósigri George W. Bush forseta og repúblikana í kosningunum fyrir viku hefur þverpólitíska sáttin komist í sviðsljós ákvarðana. Repúblikanar hafa áttað sig á, að forsetinn hefur leitt þá í mestu ógöngur í manna minnum. Menn eru því aftur tilbúnir að hlusta á ráð fullorðinna manna.