Jan Mayen fyrir saltkjöt?

Greinar

Leiddar hafa verið líkur að því, að hagsmunir íslenzks landbúnaðar hafi komið í veg fyrir, að framsóknarstjórn Tryggva Þórhallssonar ítrekaði árið 1929 fyrirvara íhaldsstjórnar Jóns Þorlákssonar frá 1927 gegn norsku landnámi á Jan Mayen.

Norskir þjóðréttarfræðingar leggja áherzlu á, að fyrirvarar Jóns Þorlákssonar hafi beinzt að þáverandi landnámi Veðurstofu Noregs á Jan Mayen. Þá fyrirvara hefði átt að ítreka, þegar norska ríkið sem slíkt nam eyna tveimur árum síðar.

Sigurður Líndal prófessor er þessu ósammála: “Norska Stórþinginu var kunnugt um alla fyrirvara Íslendinga … Þeim hafði ekki verið andmælt, né heldur gerðar við þá aðrar athugasemdir. Hefur því verið eðlilegt að álíta 1929, að fyrirvararnir frá 1927 nægðu, enda skammt síðan þeir hefðu verið gerðir og því óþarfi að ítreka þá.”

Hinu er samt ekki að leyna, að staða Íslands væri nú sterkari gagnvart Noregi út af Jan Mayen, ef Tryggvi Þórhallsson hefði ítrekað fyrirvara Jóns Þorlákssonar. Þá gætu norskir þjóðréttarfræðingar ekki haldið uppi hártogunum á mismun landnáms af hálfu stofnunar og ríkis.

Í tilvitnaðri greinargerð Sigurðar Líndal um afskipti Íslendinga af Jan Mayen er gerð tilraun til að útskýra, hvaða hagsmunir ollu því, að íslenzk stjórnvöld voru miklu varfærnari gagnvart Norðmönnum árið 1929 en 1927.

Frá aldamótum hafði helzti saltkjötsmarkaður Íslendinga verið í Noregi, þrír fimmtu hlutar alls kjötútflutningsins. Þessi markaður lokaðist árið 1922 vegna stórhækkunar tolls í Noregi. Árið 1924 sömdu Norðmenn og Íslendingar síðan um lækkun þessa tolls gegn ívilnun til norskra fiskveiða við Ísland og norskrar fiskvinnslu á Íslandi.

Norskir bændur voru mjög óánægðir með þennan samning og vildu sitja einir að norskum kjötmarkaði. Íslendingar töldu því liggja í loftinu, að kjöttollssamningnum yrði sagt upp. Og það gerðist einmitt árið 1932. Um þetta tímabil segir Sigurður:

“Þegar þetta er haft í huga, sýnist sú skýring nærtæk, að íslenzka ríkisstjórnin, sem einkum studdist við fylgi bænda og taldi sig eiga undir högg að sækja hjá Norðmönnum um brýnt hagsmunamál bændastéttarinnar, hafi talið óráðlegt að hætta á deilur við Norðmenn um réttindi við Jan Mayen, sem skiptu litlu máli eins og á stóð miðað við þá miklu viðskiptahagsmuni, sem í húfi voru.

Má hér minna á, að í umræðum um kjöttollssamninginn (síðari (innsk. DB)) á alþingi 1933 féllu þung orð um þann ágang, sem nokkrir þingmenn töldu Íslendinga hafa orðið að þola af hendi Norðmanna vegna síldveiða þeirra víð Ísland. Var jafnvel látið að því liggja, að Norðmenn hefðu hug á að ná tangarhaldi á Íslandi, enda í samræmi við landvinningastefnu þeirra í norðurhöfum.

Árið 1929 hefur því aðstaða Íslendinga til að hreyfa athugasemdum við innlimum Jan Mayen og minna á rétt sinn þar verið ákaflega erfið.”

Það er því ekki ný bóla, að íslenzkur landbúnaður sé okkur þungur í skauti. Líklega hafa menn ekki haft hinar rosalegu útflutningsuppbætur framtíðarinnar í huga, þegar þeir “gáfu” Jan Mayen fyrir saltkjöt!

Við verðum að horfast í augu við, að árið 1980 nota norskir þjóðréttarfræðingar sér erfiðleika íslenzks landbúnaðar og framsóknarstjórnar árið 1929, þegar saltkjötsmarkaður virtist merkilegri en Jan Mayen. Árið 1929 voru engir fyrirvarar, segja þeir.

En íslenzku gagnrökin eru sterk. Fyrirvararnir frá 1927 voru nýlegir og Norðmenn höfðu ekki andmælt þeim.

Jónas Kristjánsson.

Dagblaðið