Jarðgöng í Reykjavík

Greinar

Umferðarræsi eiga heima niðri í jörðinni eins og önnur holræsi. Þau fækka umtalsvert vandamálunum, sem fylgja utanáliggjandi umferðarræsum á borð við Miklubraut, Kringlumýrarbraut og Reykjanesbraut, er mynda eins konar einskismannsland milli hverfa.

Aukin bortækni við jarðgöng hefur gert þau að fjárhagslega álitlegum kosti við skipulag umferðar í stórborgum. Nýjar hugmyndir skipulagsyfirvalda um að bora gat á Skólavörðuholt, Öskjuhlíð og Digranesháls eru í ánægjulegu samræmi við þessa tækniframför.

Með jarðgöngum undir Skólavörðuholt má tengja Sæbraut og Hringbraut. Með jarðgöngum undir Öskjuhlíð má tengja Hringbraut og Hafnarfjarðarveg. Með jarðgöngum undir Digranesháls má tengja Hafnarfjarðarveg og Reykjanesbraut. Allt væri þetta til þæginda.

Raunar má halda áfram á sömu braut. Væri ekki líka góður kostur að leggja Miklubraut gegnum Háaleitið til að losna við gatnamót Háaleitisbrautar? Og skipulagsyfirvöld eru raunar með ágæta hugmynd um að leggja Kringlumýrarbraut undir Miklubraut.

Umferðarholræsi eru efnahagsleg nauðsyn í stórborgum nútímans. Þau ein geta flutt mikinn fjölda fólks og mikinn varning milli borgarhverfa á skjótan og viðstöðulausan hátt. Þau draga líka úr menguninni, sem fylgir því að koma bílum úr kyrrstöðu við umferðarljós.

Umferðarræsi eru hins vegar rúmfrek á yfirborði jarðar. Slaufur við gatnamót taka mikið rými og draga úr hlýju í yfirbragði borgar. Mannvirkin þvælast fyrir gangandi fólki, sem þarf að bíða lengi við gangbrautarljós og fara yfir hverja reinina á fætur annarri.

Núverandi lausnir fyrir gangandi vegfarendur gera takmarkað gagn. Það kostar fólk fyrirhöfn að príla upp á göngubrýr, sem liggja yfir umferðarræsi. Og göngubrautir við mislæg gatnamót ná ekki til hættulegra hliðar-akreina, þar sem bílar eru oft á nokkurri ferð.

Með því að færa umferðarræsin niður í jörðina eru því margar flugur slegnar í einu höggi. Við náum kostum umferðarræsanna og losnum við þungbærustu galla þeirra. Yfirborð jarðar verður skipulagslega og fagurfræðilega betri heild. Borgin fær mýkra yfirbragð.

Fjármálin eru einföld. Jarðgöng höfuðborgarsvæðisins eiga að hafa forgang. Þau verða svo mikið notuð, að þau verða langsamlega arðbærasta vegagerð, sem hugsast getur í landinu, hundraðfalt arðbærari en önnur jarðgöng, sem nefnd hafa verið í fjölmiðlaumræðunni.

Jarðgöng undir Skólavörðuholt, Öskjuhlíð og Digranesháls mynda sameiginlega einn umferðarás, sem styttir ferðatímann milli Kvosar og Smára niður í lítinn hluta af því, sem hann er núna. Þetta skapar nýja möguleika í almenningssamgöngum höfuðborgarsvæðisins.

Stjórnarformaður Strætó hefur lagt til að flutt verði hingað erlend nýjung, sem leysir neðanjarðarlestir af hólmi á fjárhagslega hagkvæman hátt. Það eru litlir, sjálfvirkir rafbílar, sem ganga á gúmhjólum á eins konar teinum í göngunum og tengja saman hverfismiðstöðvar.

Þegar miðstöðvar helztu byggðakjarna svæðisins hafa verið tengdar með viðstöðulausum samgönguæðum, sem að töluverðu leyti eru neðanjarðar, verður orðið einkar fljótlegt og ódýrt að ferðast langar leiðir á svæðinu, hvort sem er í einkabílum eða almenningsvögnum.

Umferðarholræsi í jarðgöngum undir höfuðborgarsvæðinu eru ein skynsamasta hugmyndin í skipulagsmálum höfuðborgarsvæðisins um langan aldur.

Jónas Kristjánsson

DV