Jarðsambandið

Greinar

Byggðakosningarnar eru svo lítið mál fyrir helztu stjórnmálamenn landsins og aðra þingmenn, að þeir gátu setið á maraþonfundum á Alþingi fram í síðustu viku kosningabaráttunnar. Þeir töldu sín ekki þörf fyrr eða þá að heimamenn töldu ekki þörf fyrir þá fyrr.

Þetta sýnir, hve laus tengsli eru milli byggðamála og landsmála. Þótt fylgi flokka á hverjum stað endurspegli að nokkru stöðu flokksins í því kjördæmi eru yfirleitt sérstakar aðstæður á hverjum stað, sem rjúfa þetta mynztur. Sérhver byggð hefur pólitíska sérstöðu.

Nú er lítið um, að kjósendur líti á atkvæði sitt í byggðakosningum sem skilaboð til pólitíkusa á landsvísu. Þess hefur ekki orðið vart í könnunum að undanförnu, að kjósendur séu með annað í huga en byggðamál. Þeir taka ekki einu sinni mark á bombum.

Vafasamt er því að túlka byggðakosningarnar í dag sem létta æfingu fyrir þingkosningar að ári. Kjósendur eru í dag að kjósa fulltrúa, sem standa þeim nær en þingmenn, til að fjalla um mál, sem standa þeim nær en landsmál, svo sem skóla, götur og veitukerfi.

Samt er víðast hvar boðið fram undir merkjum hinna hefðbundnu stjórnmálaflokka eða samsteypna þeirra. Kosningavélarnar eru meira eða minna þær sömu og þær eru í alþingiskosningum. Þannig tengjast byggðakosningarnar landsmálapólitíkinni á beinan hátt.

Höfuðsérkenni þessara byggðakosninga er, að Alþýðuflokkurinn, Alþýðubandalag og Kvennalisti bjóða ekki fram hver gegn öðrum annars staðar en í Hafnarfirði. Um allt land standa þessir flokkar saman að framboði í ýmiss konar mynztrum, en elda hvergi grátt silfur.

Slíkt samstarf í grasrót byggðanna hlýtur út af fyrir sig að teljast vera létt æfing fyrir þingkosningarnar að ári. Ef samstarfsmönnum gengur sæmilega eða vel, verður það þeim hvatning að færa sig upp á skaftið og reyna að endurtaka leikinn í þingkosningunum.

Reykjavík hefur þá sérstöðu, að þar stendur Framsóknarflokkurinn með A-flokkunum að framboði og getur ekki annað, af því að segja má, að sagnfræðin hafi lagt öllum þessum flokkum þá skyldu að herðar að verja meirihlutann, sem þeir sóttu fyrir fjórum árum.

Víða er kosið í nýjum og stærri byggðum. Bylgja sameiningar hefur risið að undanförnu. Heilar sýslur eru orðnar að einni byggð. Þetta stafar beinlínis af nútímanum, sem leggur byggðum meiri byrðar á herðar en litlu hrepparnir ráða við. Nema kannski Skorradalur.

Í sameiningarbyggðunum er verið að móta ný mynztur, sem munu skipta máli fyrir framhaldið næstu árin. Þess vegna verður ekki síður áhugavert að skoða niðurstöður kosninganna almennt á slíkum stöðum en að skoða, hvernig A-flokkunum gengur sérstaklega.

Hafnarfjörður er svo heimur út af fyrr sig, sem seint mun samlagast umhverfi sínu, uppspretta rokufrétta. Þar eru flokkar klofnir og sameinaðir sitt á hvað. Þar eru sex listar í boði með alvörufylgi samkvæmt könnunum, en ekki þrír eða færri eins og annars staðar.

Íslenzkir kjósendur hafa löngum tekið mark á byggðakosningum með því að taka þátt í þeim. Kosningaþátttaka hefur sýnt, að fólk telur atkvæði sitt skipta máli. Svo verður vafalaust einnig í dag, því að kannanir benda til, að fólk hafi tekið afstöðu til framboðslista.

Meðan fólk lætur sig varða, hvernig málum sinnar byggðar er skipað, er samhengi milli grasrótar og valds og lýðræðið hlýtur að teljast vera starfhæft.

Jónas Kristjánsson

DV