Játning í fjórða fylgiskjali.

Greinar

Fjárlagafrumvarpið, sem nú er til umræðu á Alþingi, er að einu leyti merkilegra en fyrri slík frumvörp. Ekki er það vegna neins. sem stendur í hinu eiginlega frumvarpi, heldur vegna fylgiskjals, Athugasemda númer fjögur, sem er í föruneyti frumvarpsins í fyrsta sinn.

“Ríkisfjármál samkvæmt skilgreiningu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins” er fyrirsögn þessa fylgiskjals. Í textanum er gerð tilraun til að raða fjárlagafrumvarpinu saman að alþjóðlegum hætti. Ennfremur eru þar settir inn liðir, sem hingað til hefur verið haldið leyndum.

Markmið þessarar uppsetningar á alþjóðlega vísu er auðvitað að gera kleift að bera saman fjárlög íslenzka ríkisins og fjárlög annarra ríkja. Slíkur samanburður er jafnan einkar gagnlegur, en er marklaus, nema borin séu saman atriði, sem raunverulega eru sambærileg.

Vonandi er fylgiskjal þetta vísir að nýrri framsetningu fjárlagafrumvarpa í náinni framtíð. Eins og er hljóta fjárlög að teljast marklítil gögn, einkum vegna þess að þau loka ekki fjárhagsáætlun ríkisins, heldur skilja eftir gat til ráðstöfunar í svokallaðri lánsfjáráætlun.

Ef miðað er við upprunalega útgáfu þessa fjárlagafrumvarps eru tekjur ríkisins vanmetnar um 2.296 milljónir króna og gjöldin um 5.002 milljónir. Þetta þýðir, samkvæmt skilgreiningu Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, að lántökur eru vanmetnar um 3.017 milljónir og hallinn um 2.706 milljónir.

Í ljósi þessara upplýsinga er óneitanlega dálítið fyndið, að miklum tíma skuli varið á Alþingi og rúmi í málgögnum stjórnmálaflokkanna um, hvort fjárlög eigi að vera greiðsluhallalaus eða hvort koma eigi hallanum úr tæpum 1.000 milljónum í einhverja lægri tölu.

Í leiðurum þessa blaðs hefur margoft verið bent á, að ekki sé heilbrigt að skilja eftir þann hluta fjárlaga, sem kalla mætti C-hluta, og afgreiða hann eftir áramót í svokallaðri lánsfjáráætlun. Með núverandi hætti eru niðurstöðutölur fjárlaga marklausar og ekki umræðuhæfar.

Ýmsar fleiri gagnlegar upplýsingar koma fram í þessu fjórða fylgiskjali. Samkvæmt alþjóðlegri skilgreiningu eru niðurgreiðslur landbúnaðarfurða færðar af reikningi viðskiptaráðuneytisins yfir á reikning landbúnaðarráðuneytisins, þar sem þær eiga heima.

Af töflu númer þrjú í fylgiskjalinu má sjá, að í ár tekur landbúnaðurinn til sín 7,4% af öllum útgjöldum ríkisins, meðan fiskveiðarnar taka ekki nema 0,2% og iðnaðurinn 0,8%. Slíkar tölur hafa oft verið nefndar hér í blaðinu, en aldrei áður í gögnum hins opinbera.

Þessar tölur og aðrar verður nú hægt að bera saman við tölur í fjárlögum annarra ríkja. Fróðlegt verður að vita, hvort önnur ríki verja meira eða minna en 21%, ríkisútgjalda til sjúkrahúsa og heilsugæzlustöðva, 12% til fræðslumála og 10% til greiðslu vaxta, svo sem virðist gert hér.

Fjármálaráðuneytið hefur gert vel í að koma á framfæri skilgreiningu Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, þótt ekki sé nema í formi fylgiskjals. Við fáum af skjalinu innsýn í, að fjárlagagatið er allt annað en það, sem nú er rifizt um, og að kostnaður málaflokka er allur annar.

Í rekstri jafn umfangsmikils fyrirtækis, sem ríkið er, hlýtur að teljast nauðsynlegt, að fjárlagafrumvörp og fjárlög séu lokuð og sambærileg dæmi, þar sem atriðin heita sínu rétta nafni. Meðan svo er ekki vita menn óhjákvæmilega lítið, um hvað þeir eru að tala.

Jónas Kristjánsson.

DV