Játning í sjálfshrósi

Greinar

Bankastjóri Landsbankans hrósar sér af að hafa lagt 3,6 milljarða á fjórum árum í afskriftasjóð bankans til að mæta töpuðum lánum. Um leið játar hann óbeint að hafa hagað lánum bankans á þann hátt, að nauðsynlegt sé að skattleggja skilamenn svona hastarlega.

Það eru viðskiptavinir bankans, sem borga 3,6 milljarðana. Það gera þeir í formi mismunar á innláns- og útlánsvöxtum, sem er helmingi meiri hér á landi en í nálægum löndum. Þessi aukagjaldheimta bankanna spillir samkeppnisaðstöðu íslenzkra fyrirtækja.

Auðvitað ber bönkum að leggja til hliðar fjárhæðir til að verja sig áföllum, þegar illa gengur í atvinnulífinu. Brýnasta skylda hvers banka er að fara ekki sjálfur á hausinn. En langbezt er að geta haft slíkar afskriftir í hófi með því að haga lánveitingum skynsamlega.

Íslenzkum bönkum hefur farið mikið fram á allra síðustu áratugum. Mjög hefur dregið úr pólitískum lánveitingum þeirra til gæludýra kerfisins, enda hefur atvinnumönnum í bankafræðum fjölgað á kostnað afdankaðra stjórnmálamanna í æðstu stöðum bankanna.

Pólitísk fyrirgreiðsla til gæludýra, einkum þeirra, sem geta flokkað sig undir byggðastefnu, hefur færzt til sérstakra sjóða, sem hafa það verkefni að ná peningum úr arðbærri umferð og brenna þeim í hóflitlum lánum til pólitískra bjartsýniskasta af ýmsu tagi.

Hluti af óeðlilega miklum vaxtamun í bönkum stafar einmitt af því, að þeir þurfa að leggja fé á 2% raunvöxtum inn í Seðlabankann, svo að sá banki geti þjónustað hluta af peningabrennslukerfi sjóðanna. Sú bindiskylda í Seðlabanka er úrelt leif af gamalli spillingu.

Þrátt fyrir framfarir bankakerfisins er ástandið engan veginn nógu gott. Svo virðist sem ekki sé enn komin næg samkeppni milli þeirra um skynsamlegar lánveitingar. Þess vegna þarf Landsbankinn að fórna milljarði á ári til að mæta lánum, sem ekki endurgreiðast.

Til mikilla bóta væri, ef erlendir bankar fengjust til að setja upp útibú hér á landi, svo sem þegar hefur gerzt í tryggingakerfinu. Innrás erlends tryggingafélags hefur þegar lækkað verð á bílatryggingum. Innrás erlendra banka mundi vafalítið minnka vaxtamun í bönkunum.

Svo virðist sem þrír bankar dugi ekki til að fella samkeppni í eðlilegan farveg. Talan þrír felur í sér fáokun, sem er betri en einokun, en samt langt frá samkeppnislögmálum markaðarins. Að þessu leyti minna bankarnir á olíufélögin og tryggingarfélögin í landinu.

Sem dæmi um erfiðleikana við að koma íslenzkum bönkum í faglegt nútímahorf er, að ríkisvald og sumir bankar töldu sig geta náð samstöðu um að nota vaxtalækkun sem hluta af útspili ríkisvaldsins til aðila vinnumarkaðarins til að auðvelda nýja kjarasamninga.

Búnaðarbankanum má segja til hróss, að hann neitaði að taka þátt í kjarapóker, sem kemur bönkunum ekki við. Hann lækkaði sína vexti um 2% fyrir hálfum öðrum mánuði, meðan aðrir bankar héldu að sér höndum til að leyfa ríkisstjórninni að spila á vextina.

Þegar bankar telja sig geta frestað sjálfsagðri vaxtalækkun til að gera ríkisstjórninni kleift að veifa gulrót framan í aðila vinnumarkaðarins, er bankarekstur greinilega enn ekki kominn á faglegt stig. Framboð og eftirpurn, en ekki kjarapóker, eiga að ráða vöxtum.

Samkeppni að utan er sennilega eina leiðin til að létta pólitískum herkostnaði bankanna af herðum skilamanna, svo að vextir og vaxtamunur verði hóflegir.

Jónas Kristjánsson

DV