Játvarður

Veitingar

Lifnað hefur yfir matargerð á Akureyri meðan Reykjavík hefur árum saman staðið í stað. Fiðlarinn hefur batnað og kominn er til sögunar Játvarður á horni Strandgötu og Glerárgötu, skemmtilega hannaður staður með fínlegri matreiðslu, ef sneitt er hjá fiski, svo og elskulegri þjónustu, sem getur svarað spurningum um matinn.

Játvarður er þrauthannaður niður í smáatriði á borð við stílhreinan matseðil og framsetningu rétta á diski. Fallegur vínrekkur blasir við anddyri. Veitingasalurinn er allur á mjóddina til beggja hliða, skiptur að endilöngu með súlnaröð og svörtum skermum. Grófar flísar í gólfi og fínleg örljós í lofti falla að smekkvísi heildarinnar.

Hér er milliverð á matseðli, aðalréttir á 1.610 krónur að meðaltali og þríréttað með kaffi á 3.150 krónur. Undir sefandi tónum Frankie Boy og Bing Crosby gátum við því sætt okkur við glerplötu, óbrjótanleg vatnsglös og pappírsþurrkur ofan á dúklögðu borði.

Fagrir og fínir forréttir nutu sín vel á kryddlegnum grænmetisþráðum. Pönnusteiktur humar og skötuselur rann á tungu með fínlega kryddaðri hvítlaukssósu þunnri. Sama var að segja um ristaða hörpuskel með sterkri sojasósu og eldsteikta snigla með bragðmildri hvítlauks- og engifersósu.

Lárperu og fetaost skorti að mestu í jöklasalat, sem kallað var ferskt sumarsalat, en þurrkaðir tómatar og hæfileg edikolía björguðu réttinum næstum fyrir horn. Lakasti rétturinn var harðsteiktur karfi í smjöri, borinn fram með mildri mandarínusósu og langsteiktum kartöflum. Raunar er ekki auðvelt að fá góðan fisk utan Reykjavíkur.

Aðra og betri sögu er að segja af kjötréttunum. Afar gott var ofnbakað og mjúkt kálfainnanlæri með mildri salvíusósu og milt hvítvínsoðnu grænmeti. Sama var að segja um feitar og safaríkar lambahryggsneiðar með þunnri og sterkri rósmarínsósu. Léttsteiktar og rósrauðar svartfuglsbringur voru í svipðum gæðaflokki, með þunnri og bragðmildri sólberjasósu.

Ostadiskur var ómerkilegur eftirréttur. Góður var hins vegar léttur súkkulaðifroðuturn með skógarberjasósu og og góð var sæt konfektterta með ferskum ávöxtum og ástríðualdinsósu. Kaffi var gott.

Játvarður er í steyptri jarðhæð, sem varð til við að tékka upp tvílyft timburhús. Hann er upplyfting í bókstaflegri merkingu eins og í menningu og matargerð.

Jónas Kristjánsson

DV