Jeltsín er búinn að vera

Greinar

Tsjetsjenía er orðin að rússnesku Víetnam, myllusteini um háls Jeltsíns forseta og rússneska hersins. Forsetinn er búinn að missa tök á innrásinni í Tsjetsjen-íu og orðinn pólitískur fangi stórveldis-herforingja, sem hafa farið árangurslitlum hamförum í Tsjetsjeníu.

Jeltsín tókst hvorki að blekkja Rússa né umheiminn. Hann var staðinn að ósannindum í sjónvarpsávarpi, þar sem hann sagði loftárásum á íbúðahverfi verða hætt. Rússneskir fréttamenn og þingmenn hafa verið sjónarvottar atburða og sagt frá þeim í fjölmiðlum.

Þrotlaus lofthernaður Rússa varð stjórnlaus eftir ávarp forsetans. Ráðizt var skipulagslaust á hvað, sem fyrir varð, og meðal annars framleitt mengunarslys að írökskum hætti með loftárás á olíuvinnslustöð. Þungavopn voru notuð til að rústa höfuðborgina Grosní.

Mikið mannfall hefur verið í árásarliði Rússa og mikið af vígvélum þeirra hefur eyðilagzt. Árangur er lítill af þessum fórnum. Komið hefur í ljós, að heimsveldisherinn ræður ekki fremur við léttvopnaða andstæðinga í Tsjetsjeníu en annar slíkur réð fyrrum við Víetnama.

Álitshnekkir rússneska hersins magnar innri spennu hans, sem annaðhvort leiðir til aukinnar innhverfu, getuleysis og sinnuleysis hersins eða leitar útrásar í valdaránstilraun í Moskvu. Síðari kosturinn hefði skelfilegar afleiðingar í Rússlandi og í alþjóðasamskiptum.

Tómarúm hefur myndazt í valdakerfinu í Moskvu. Drykkjurúturinn á forsetastóli nýtur hvorki trausts þings né þjóðar. Hann velkist um í atburðarásinni og hallar sér að alræðisöflum innan og utan hersins. Þar finnur hann helzt hækjur til að styðjast við.

Jeltsín Rússlandsforseti er búinn að vera, hvort sem hann hverfur frá þeim litlu völdum, er hann hefur enn, eða lætur herinn halda sér á floti, rétt eins og blindur leiði haltan. Hann sækir ekki lengur áhrifavald til þjóðarinnar, er hefur afskrifað hann sem leiðtoga sinn.

Rússlandi hefur gengið illa að finna sig sem lýðræðisríki. Arfurinn frá Sovétríkjunum er yfirþyrmandi. Ríkið reynir að fjarstýra nágrannaríkjunum í samveldinu og hefta sjálfræði þjóða innan ríkisins. Þetta kostar mikið og hindrar samtvinnaða þróun lýðræðis og efnahags.

Rússland er ekki lengur ábyrgur samstarfsaðili vestrænna ríkja til viðhalds friðar og festu í heiminum. Það er orðið að friðarspilli, sem meðal annars reynir að vernda landvinninga Serba á Balkanskaga. Rússland er smám saman að breytast í nýtt Sovétríkja-skrímsli.

Vesturlönd geta lítið gert til að stöðva vítahring Rússlands. Ýmsir vestrænir ráðamenn hafa harmað klunnaskapinn gagnvart Tsjetsjenum, en lýst um leið stuðningi við fylliraftinn, sem ábyrgðina ber. Þar með eru þeir að samþykkja vinnubrögð Jeltsíns og herforingjanna.

Í rauninni eru þessir vestrænu ráðamenn að reyna að vera enn ein af hækjum forsetans. Þeir telja sig þannig stuðla að festu og öryggi. Viðbrögð þeirra nú byggjast á fyrri oftrú þeirra á vilja og getu Jeltsíns til að þróa Rússland í átt til vestræns þjóðskipulags og hagkerfis.

Löngu áður en forsetinn réðst á Tsjetsjeníu, var komið í ljós, að hann stóð ekki undir vestrænum væntingum. Hann var búinn að reka og hrekja frá sér flesta þá, sem líklegir voru til að vinna að umbótum í landinu, og í stað þeirra búinn að sanka að sér sovézkum kerfiskörlum.

Frá því er Jeltsín stóð á hátindi frægðar ofan á skriðdrekanum í Moskvu fyrir rúmlega þremur árum, hefur fall hans verið mikið, fyrst hægt og síðan hratt.

Jónas Kristjánsson

DV