Boris Jeltsín Rússlandsforseti hefur beitt tilskipanavaldi sínu ótæpilega undanfarna daga. Hann gerði sig meðal annars um tíma að yfirmanni sovézka heraflans, þótt sjálfur gegni hann embætti á vegum Rússlands sem lýðveldis, en ekki Sovétríkjanna sem ríkjasambands.
Allar þessir gerðir hans kunna að hafa verið nauðsynlegar við hinar óvenjulegu aðstæður, sem myndast, þegar verjast þarf hallarbyltingarmönnum, sem eru á ólöglegan hátt að reyna að ná undirtökum í þjóðfélaginu. Árás þeirra þarf að svara með gagnárás lýðræðisinna.
Hitt er svo gömul saga, að allt vald spillir og gerræðisvald gerspillir. Einhvers staðar á þessu bili er hið ótæpilega tilskipanavald Jeltsíns. Vandinn er sá, að valdið breytir persónu þeirra, sem með það fara, og því miður sjaldnast til góðs, svo sem veraldarsagan sýnir.
Nýlegt dæmi er um ríki, sem upprunalega þótti til fyrirmyndar í sínum heimshluta, en lenti fyrir rúmum tveimur áratugum í þeirri óbeinu ógæfu að hafa betur í valdastreitu við nágrannanna. Það er Ísrael, sem smám saman hefur breyzt í ruddafengið útþensluríki.
Yfirvöld Rússlands hafa boðað, að þau áskilji sér allan rétt til landamæra gagnvart þeim ríkjum Sovétríkjanna, sem liggja að Rússlandi og hyggjast segja sig úr ríkjasambandinu eða hafa gert það. Þetta er vegna Rússa í þessum löndum, einkum í Úkraínu og Kazaskhstan.
Slæmt er, ef úr rústum Sovétríkjanna rís útþenslugjarnt Rússland, sem gerir landakröfur á hendur nágrönnum sínum og getur stutt þær mesta safni kjarnorkuvopna, sem til er í heiminum. Því er ljóst, að menn þurfa að vera vel á verði gagnvart Rússlandi Jeltsíns.
Yfirlýsing Rússa hefur strax í upphafi slæm áhrif á Serba og Júgóslavíuher, sem eru að reyna að ná undir Serbíu þeim hlutum Króatíu, sem eru byggðir Serbum. Yfirlýsingin styður Serba og Júgóslavíuher í þeirri trú, að ofbeldi þeirra þjóni sanngjörnum þjóðernismálstað.
Ekki er núna vitað, hvort Jeltsín muni ná tökum á tilskipanaáráttu sinni, þegar hættan af ofbeldi harðlínumanna er liðin. En ekki er tímabært að fullyrða, að alhvítt ljós hafi leyst kolsvart myrkur af hólmi austur í Garðaríki, þótt horfur séu óneitanlega mjög góðar.
Alveg eins og góðir hlutir geta falið í sér slæmar hættur, þá geta slæmir hlutir haft í för með sér góð hliðaráhrif. Það getur jafnvel verið ástæða til að fagna slæmum tíðindum, af því að þau muni kalla á nýja atburðarás, sem leiði til betra ástands en var í upphafi.
Meðan aðrir fjölmiðlar grétu hallarbyltingu harðlínumanna í Sovétríkjunum, var hér í leiðara lýst ánægju með, að hallarbyltingin setti andstæður Sovétríkjanna í skýrara ljós, hreinsaði þokuna og sýndi okkur, hverjir væru hinir raunverulegu ráðamenn þar eystra.
Hallarbyltingin hefur gert lýðræðissinnum kleift að finna þá, sem voru með landráð í hjarta. Hún gerir lýðræðissinnum nú kleift að hreinsa í einu vetfangi meirihluta yfirmanna í her, ríkislögreglu og leynilögreglu og vonandi einnig meirihluta yfirmanna hergagnaiðnaðar.
Illir atburðir breyttust í andhverfu sína, þegar nútímafólk náði undirtökum í vörninni gegn harðlínumönnum. Það góða, sem náðst hefur, er ekki varanlegt, fremur en hið illa, ef forustumenn lýðræðissinna láta ekki fljótlega af valdshyggju og útþenslustefnu.
Jeltsín fer með kjarnorkuvopn og tilskipanavald. Sagan sýnir, að slíkir menn verða oftast hættulegir, hversu góðir sem þeir virðast vera í upphafi leiks.
Jónas Kristjánsson
DV