Jeltsín syrgir óháða fjölmiðla

Greinar

Jeltsín Rússlandsforseti sagði á fundi í Moskvu í fyrri viku með ritstjórum fjölmiðla frá mörgum löndum, að fjármálafurstar hefðu þar í landi að nokkru tekið við fyrra ritskoðunarhlutverki stjórnvalda á sovéttímanum. Taldi hann þetta einnig vera vestrænan vanda.

Austurrískur talsmaður viðstaddra tók að nokkru undir sjónarmið Jeltsíns. Sumir fjölmiðlar á Vesturlöndum eru smám saman að breytast úr fjölskyldufyrirtækjum í opin fjölmiðlunarfélög og síðan að renna inn í fjölgreinasamsteypur, jafnvel á alþjóðavettvangi.

Kunnugt er, að fjölmiðlar í eigu fjármálafurstans Rupert Murdoch, þar á meðal Times, eiga erfitt með að fjalla á málefnalegan hátt um Kína, af því að það kynni að setja hagsmuni hans í Kína í hættu. Er þó veldi hans enn sem komið er takmarkað við fjölmiðlun eina.

Atburðarás fjölmiðlunar hefur verið hröð í Rússlandi á þessum áratug. Stýring stjórnvalda hrundi snögglega og tugþúsundir fjölmiðla blómstruðu. Á sama tíma náðu fjármálafurstar tökum á framleiðslutækjum ríkisvaldsins, mynduðu samsteypur og keyptu fjölmiðla.

Rússnesku samsteypurnar eiga banka, olíufélög, fjölmiðla og margt annað. Víðtækir hagsmunir þeirra á ýmsum sviðum atvinnulífsins hafa mikil áhrifa á innihald fjölmiðla, svo sem fram hefur komið í aðdraganda kosninga. Þær eru orðnar ríki í ríkinu.

Eðlilegt er, að spurt sé, hvort Rússland sé á einum áratug að stökkva yfir tímabil, sem hefur staðið nokkra áratugi á Íslandi og nokkrar aldir í Bandaríkjunum, þar sem það hefur staðið lengst á Vesturlöndum. Þetta er tímabil óháðra fjölmiðla, tímabil Washington Post.

Tiltekin dæmi sýna, að hætta er á ferðum, þegar annað hvort gerist, að áður óháðir fjölmiðlar renna inn í samsteypur á öðrum sviðum atvinnulífsins eins og hefur gerzt í Rússlandi eða þenjast út fyrir landamæri einstakra ríkja, svo sem hjá Murdoch fjármálafursta.

Til skamms tíma var talið, að lesendur, hlustendur og áhorfendur mundu sjá um, að þetta gerðist ekki. Fjölmiðlar mundu glata trausti notenda sinna, ef þeir færu að þjóna öðrum hagsmunum en þeirra. Nú eru margir farnir að efast um, að notendur axli þetta hlutverk.

Misnotkun Murdochs á Times hefur ekki skaðað blaðið að ráði í samkeppninni við önnur blöð. Misnotkun rússneskra fjármálafursta á sjónvarpsstöðvum þar í landi hefur lítil áhrif haft á notkun stöðvanna. Notendur virðast ekki vilja taka að sér eftirlitshlutverkið.

Þetta er mikilvæg orsök ferilsins, sem felst í, að minnkandi gengi ríkisvaldsins í lýðræðisríkjum leiðir ekki til vaxandi gengis kjósenda, heldur hagsmunaaðila, ekki bara fjármálafursta, heldur einnig samtaka og stofnana af ýmsu tagi, sumpart utan og ofan landamæra.

Eins og Davíð er Jeltsín að reyna að sveigja fréttaflutning sjónvarpsstöðva að pólitískum hagsmunum, svo sem fram hefur komið í tengslum við verkfallsaðgerðir námumanna. Komið hefur í ljós, að báðir hafa þeir misst tökin, Jeltsín í hendur fjármála- og mafíufursta.

Í Rússlandi og sums staðar á Vesturlöndum eru að mótast nýjar og áður óþekktar aðstæður í fjölmiðlun, sem kalla á ný form og nýjar leikreglur. Hver verður hlutur notenda, þegar furstar stjórnmála, fjármála og glæpa taka saman höndum um að villa fólki sýn?

Hitt er svo ljóst, að almenningur getur sjálfum sér einum um kennt, sé farið að síga á efri hluta Washington Post tímabils vestrænnar og óháðrar fjölmiðlunar.

Jónas Kristjánsson

DV