Jerúsalem er alþjóðleg

Greinar

Evrópusambandið gaf í þessari viku út tímamótayfirlýsingu um, að Austur-Jerúsalem tilheyri ekki Ísrael. Þetta er fyrsta skipulega andstaðan af vestrænni hálfu gegn tilraunum Ísraels til að eigna sér heimsins mikilvægustu helgistaði kristinnar og íslamskrar trúar.

Fyrir síðustu styrjöld milli Ísraels og stuðningsríkja Palestínu var Austur-Jerúsalem öll Palestínumegin landamæranna. Þar með er talinn gamli bærinn innan borgarmúranna og hæðirnar tvær sunnan og austan miðbæjarins, sem einnig hafa trúarsögulegt gildi.

Í þrjá áratugi hefur Ísrael haft hernámsvöld á þessum slóðum. Þetta hernám hefur ekki verið viðurkennt af vestrænum ríkjum frekar en hernám þeirra á vesturbakka Jórdan-ár, Gólan-hæðum og Gaza-strönd. Allt þetta hernám er á dagskrá svonefnds friðarferils.

Í þungamiðju friðarferilsins hefur jafnan verið tilraunin til að semja um skipti á landi og friði, þannig að Ísrael gefi eftir hernumin landsvæði gegn varanlegum friði við nágrannaríkin, sem yrði tryggður með aðild stórvelda og alþjóðasamtaka að friðarsamningnum.

Þessi friðarferill var kominn nokkuð áleiðis, þegar gengið var til kosninga í Ísrael og valdir til forustu nýir menn, sem hafa hleypt öllu í bál og brand. Þeir hafa neitað að standa við áður gerða samninga um þróun friðarferilsins og segjast meðal annars eiga Jerúsalem.

Þetta gera þeir í skjóli bandarískra peninga og bandarískra vopna. Það eru þau tæki, sem þeir hafa áratugum saman notað til að kúga nágranna sína. Án bandarískra peninga og bandarískra vopna væri Ísrael ekki orðið að stórfelldu vandamáli í fjölþjóðlegum samskiptum.

Nú hefur Ísrael loksins siglt í frekju og yfirgangi fram af hengifluginu og vakið Evrópusambandið til vitundar um hættuna. Ósennilegt er þó, að það hafi fljótt mikil áhrif vestanhafs, þar sem stuðningsmenn Ísraels hafa tögl og hagldir í fjölmiðlun og almenningsáliti.

Mikilvægt er, að Evrópuríkin efli samstöðuna í máli þessu. Ástæðulaust er að láta frekjuríki standa í vegi eðlilegrar þróunar í samskiptum kristinna og íslamskra ríkja. Spennuna milli þessara menningarheima þarf að minnka. Og auðvelt á að vera að minnka hana.

Það er einkum hinn vestræni stuðningur við Ísrael, sem magnar íslamska andstöðu gegn Vesturlöndum. Ekkert í menningarsögu Vestur- og Austurlanda hindrar þjóðir tveggja hinna yngstu af þekktustu trúarbrögðum heimsins í að ná friðsamlegri sambúð en nú er.

Jerúsalem getur verið tákn friðsamlegrar sambúðar þriggja trúarbragða. Þar eru mikilvægustu helgidómar þeirra á einum og sama stað. Það er út í hött, að Vesturlönd leyfi Bandaríkjunum að komast upp með að láta þessa helgidóma varanlega í hendur Ísraels.

Palestínumenn eru áreiðanlega til viðtals um, að gamli bærinn í Jerúsalem og hæðirnar tvær austan hans og sunnan verði alþjóðlegt land, er stjórnað verði sameiginlega af aðilum, sem komi fram fyrir hönd þeirra þriggja trúarbragða, er aðild eiga að sögu Jerúsalem.

Brýnt er, að Vesturlönd tefli málum í þann farveg, að þetta verði niðurstaðan. Frumkvæði Evrópusambandsins er tímamótaskref í þá átt. Fyrr eða síðar komast í Bandaríkjunum til valda menn, sem eru lausir úr álögum Ísraels og sjá gagnkvæma hagsmuni vesturs og íslams.

Evrópusambandið getur nú fylgt fyrsta skrefi sínu eftir með samtökum um pólitískan, peningalegan, viðskiptalegan og efnahagslegan þrýsting á Ísrael.

Jónas Kristjánsson

DV