Jöfnun og minnkun

Greinar

Þótt stuðningur ríkisvaldsins við sauðfjárrækt hafi lengi skorið í augu, er hann orðinn minni en stuðningurinn við ýmsar búgreinar, sem ekki búa við eins þrautskipulagt verðlagningar- og sölukerfi af hálfu ríkisins, svo sem svína- og kjúklingarækt og eggjaframleiðsla.

Fólk tekur betur eftir stuðningnum við sauðfjárrækt, af því að augljós er ríkisrekstur hennar á vegum svonefndra sex og sjö manna nefnda; af því að upp hleðst kjötfjall; og af því að þessi stuðningur hefur áratugum saman verið fyrirferðarmikill á fjárlögum ríkisins.

Fyrir fjórum árum nam stuðningur ríkisins við sauðfjárrækt 92% af tekjum hennar. Nú er stuðningurinn kominn niður í 62% og fer minnkandi. Hann er kominn niður fyrir 78% stuðning við svínarækt, 85% stuðning við kjúklingarækt og 78% stuðning við eggjaframleiðslu.

Þetta stafar af, að innflutningsvernd hinna greinanna vegur þyngra á metunum en ríkisrekstur sauðfjárræktar. Það gefur betri tekjur að hafa ekki samkeppni frá útlöndum en að njóta ríkisrekstrar í verðlagninu og sölu. Þessar nýju upplýsingar hafa komið mörgum á óvart.

Það er efnahagsframfarastofnunin OECD, sem hefur reiknað þetta út til að bera saman opinberan stuðning við landbúnað í aðildarríkjum stofnunarinnar. Enginn hefur vefengt prósentutölurnar, en Hagfræðistofnun Háskólans telur þó, að þær séu í lægri kantinum.

Stóra málið er eftir sem áður, að stuðningur ríkisins við landbúnað er meiri hér á landi en í nærri öllum ríkjum heims og að hann er meiri en þjóðfélagið getur staðið undir. Það sjáum við af vangetu íslenzka ríkisins til að halda dampi í heilbrigðis- og menntamálum landsins.

Í framhaldi af skýrslu OECD er þó rétt að staldra við og kanna, hvort ekki liggi meira á að beina sparnaðarspjótum ríkisins að þeim greinum, sem njóta meiri stuðnings en sauðfjárrækt heldur en að þrengja eins hratt að henni og gert hefur verið á undanförnum árum.

Tvennt þarf að hafa í huga, þegar reynt er að létta róður sauðfjárbænda. Í fyrsta lagi þarf þjóðin að losna við sífellda endurnýjun kjötfjallsins. Það gerist aðeins á þann hátt, að framleiðslan minnki, því að innanlandsmarkaðurinn fer minnkandi og sá erlendi er verðlaus.

Í öðru lagi valda svín og kjúklingar ekki sama álagi á gróður landsins og sauðféð gerir í sumum landshlutum. Afar brýnt er að stöðva beit á viðkvæmum afréttum móbergssvæðisins, svo sem afréttum Mývetninga, alveg óháð því, hvort hægt er að selja þaðan dilkakjöt.

Af þessum tveim ástæðum þarf ríkið í senn að beina stærri hluta af 62% stuðningnum vð sauðfjárrækt til að kaupa upp framleiðslurétt og gera sauðfjárbændum á viðkvæmustu stöðunum þar að auki sérstakt tilboð, sem leiði til þess, að sauðfjárrækt verði lögð þar niður.

En þessar aðgerðir þurfa að vera meira en kák, ef þær eiga að hafa þau áhrif, að sauðfjárbændur, sem búa við hagstæð skilyrði og kunna vel til verka, geti aukið framleiðsluna og haft af henni meiri tekjur en þeir hafa nú. Fækkun búa þarf að vera mun meiri en stækkun búa.

Um leið er orðið tímabært, að fólk átti sig á, að vandamál landbúnaðarins eru almenns eðlis og fylgja ekki bara hinum hefðbundnu greinum sauðfjár- og nautgriparæktar. Taka þarf mið af, að innflutningshöft eru afdrifaríkari aðgerð en annar markaðsstuðningur ríkisins.

Með prósentutölum OECD eru komin mælitæki, sem eiga að gera ríkinu kleift að setja sér markmið um jöfnun stuðningsins og minnkun hans í skilgreindum áföngum.

Jónas Kristjánsson

DV