Jöklar bráðna hraðar

Punktar

>Duncan Steel hjá Guardian er einn þeirra, sem segja, að hægfara hækkun hitans á jörðinni sé bara hið bezta mál. Að minnsta kosti er notalegt að hafa 5-8 stiga hita í Reykjavík í desember, ef við teljum, að hvassviðrið sé ekki sömu ættar. Samkvæmt Steel fáum við góðan undirbúning við að flytja okkur upp í Tungur og Hreppa, þegar sjórinn gengur á land í Reykjavík og öðrum sjávarplássum, því að þetta sé ferli, sem taki áratugi. Hitt er annað mál, hvort skil heita og kalda sjávarins verði lengur við Ísland, þegar íshettan er farin af norðurhöfum, og hvort þorskurinn kunni þá ekki betur við sig á öðrum slóðum en hér við land. New York Times segir, að minnkun jökla um allan heim sé hraðari en áður hefur verið talið og sé þegar farin sums staðar að hafa alvarleg áhrif á vatnsbúskap landbúnaðar, stórborga og ekki sízt vatnsaflsvirkjana. Sennilega þurfum við að afskrifa stofnkostnað Kárahnjúka nokkuð hratt, þegar Vatnajökull fer að gefa sig.