Jól alvöruleysingja.

Greinar

Íslendingar eru sagðir trúaðastir manna, en gefum samt lítið fyrir Krist eða guð biblíunnar. Við erum sagðir manna hrifnastir af hjónabandinu, en erum samt sérstaklega afstæðir í viðhorfum til framhjáhalds. Við erum sagðir bera virðingu fyrir Alþingi, en vantreystum stjórnmálamönnum.

Íslendingar eru sagðir ekki trúa neinu, sem stendur í blöðunum, en eru samt manna ákafastir blaðalesendur. Við segjum okkur hamingjusamasta fólk í heimi, en getum þó viðrað fjárhagsvandræði okkar við spyrla frá virtum stofnunum, sem reyna að skyggnast inn í sálartötrið.

Þannig var nýlega búin til mynd af okkur. Hún sýnir einstaklega þrjózka þjóð, sem aldrei gefst upp. Hún sýnir heimsins mestu tækifærissinna, sem svara því, er hentar hverju sinni. Við virðumst laus við einlægnina, sem gerir slíkar kannanir kleifar úti í heimi.

Íslendingurinn er það, sem hann er. Eða það, sem hann þarf að vera. Eða það, sem hann ætti að vera. Altjend höfum við Gallup fyrir því, að við getum brugðið okkur í allra kvikinda líki eftir aðstæðum hverju sinni. Við þurfum ekki leikhús, af því að við erum leikhús.

Alvöruleysi okkar kemur fram í ótal myndum. Við veltum okkur til dæmis upp úr gamansögum um laxveiði landsbankastjóra, en gerum samt ekkert í því. Okkur þykir miður að þurfa að fjárfesta heilan milljarð í kúm og kindum á næsta ári, en gerum samt ekkert í því.

Við vitum, að framferði Sovétríkjanna í Afganistan og leppa þeirra í Eþiópíu er ekki tilviljun, heldur kerfislægur þáttur krabbameins, sem ógnar okkur. Samt sofum við á verðinum og veltum okkur upp úr alls kyns friðarrugli nytsamra sakleysingja á borð við þjóðkirkjuna.

Allt eru þetta þó smámunir í samanburði við tillitsleysi okkar gagnvart lítilmagnanum heima fyrir. Við veltum okkur í vellystingum praktuglega, en gleymum því, að til er fólk, sem ekki á hlutabréf í þeirri hamingju, sem mölur og ryð fá að vísu grandað.

Mikill meirihluti Íslendinga er ríkur. Við erum það ýmist vegna menntunar eða ábyrgðar, aðstöðu eða áhættu, yfirvinnu eða uppmælingar eða þá að hjónin vinna bæði úti. Með einhverjum slíkum hætti verðum við okkur úti um þau lífskjör, sem við teljum okkur þurfa.

Innan um þessa velsæld er fólk, sem hefur orðið útundan. Það hefur ekki menntun eða aðstöðu, ekki ábyrgð eða áhættu í starfi, ekki yfirvinnu eða uppmælingu. Fjölmennastar í þessum hópi eru einstæðar mæður og börn þeirra, einnig aldrað fólk og öryrkjar.

Jafnvel samtök launþega sinna ekki hagsmunum einstæðra mæðra. Þessi samtök hafa stundum hátt og stunda jafnvel hópefli í verkfallsvörzlu. En niðurstaðan er jafnan sú, að uppmælingarfólk og annar slíkur aðall fær hagnaðinn, en láglaunafólkið minna en ekki neitt.

Meðan nokkur þúsund íslenzk börn eru ekki þáttakendur í allsnægtum þjóðarinnar, getum við ekki sagt, að við séum stéttlaust þjóðfélag, þótt við séum sífellt að gorta af því. Við vitum, að okkur er skylt að búa til stéttlaust þjóðfélag, en gerum lítið í því.

Við okkur blasir langt jólafrí og væntanlega nægur tími til að hugsa málin. Við gætum notað hátíð kærleikans til að gera upp reikningana við tækifærishneigðina og alvöruleysið. Í von um það óskar DV öllum landsmönnum gleðilegra jóla.

Jónas Kristjánsson.

DV