Jómfrúin

Veitingar

***
Fortíðarþráin

Á Jómfrúnni er gælt við fortíðina, danskan millistríðsmat, sem sums staðar var heimilismatur á Íslandi fram eftir síðustu öld. Eldamennskan er úrelt á nýrri öld, en fær eigi að síður þrjár stjörnur fyrir æskilega staðfestu á tímum óþarflega örra breytinga.

Menn elda rødspætte betur nú til dags, en á Jómfrúnni er hún þolanlega pönnusteikt í miklu raspi, borin fram með remúlaði, rækjum og sneið af reyktum laxi, 1200 krónur. Þingvallamurta með grænmeti, sýrðum rjóma og heslihnetusósu var hæfilega elduð og bragðgóð, 1370 krónur, bezti matur staðarins.

Mørbrad var furðanlega rósrautt og gott miðað við aðeins 1390 króna verð, borið fram með þykkri rjómasveppasósu, kartöflustöppu, grænmeti og sýrðu grænmeti. Ribbensteg með harðri pöru var hins vegar ekki merkilegur matur, sem skreytir afgreiðsluborðið dag hvern.

Betri eru brauðsneiðarnar, sérstaklega rækjupýramídinn, sem er byggður úr úthafsrækjum, borinn fram með sítrónu og þúsund eyja sósu. Gorgonzola með tómati, eggjarauðu og púrtvíni var líka einkar góður matur, ennfremur buff tartar, þótt kjötið væri hakkað, en ekki slitið. Heilar sneiðar kosta um 1330 krónur og hálfar kosta um 1000 krónur.

Eldamennskunni hefur hrakað lítillega á mörgum árum. Hveitisósur hafa til dæmis vikið kjötsoði til hliðar. Forstjórinn er lítið á ferðinni og staðurinn gengur svona eins og aðrir afturhvarfsstaðir, meira eða minna af gömlum vana og byggir tilveru sína á sannfærðum kúnnum.

Það er betra en hægt er að segja um marga staði, sem hafa risið í miðbænum á allra síðustu árum og vantar fasta pólinn, sem Jómfrúin hefur. Hún mun lifa, þótt margir yngri muni deyja, öllum gleymdir þegar í stað.

Hér fæst nefnilega biximad og ribbensteg, oksebryst og hakkebøf, frikadeller og leverpostej. Hins vegar hef ég árangurlaust leitað í fimm ár að rødgrød med fløde.

Jónas Kristjánsson

DV