Íslenzk stjórnmál munu nú leggjast í dvala, þegar nýja ríkisstjórnin hefur komið sér fyrir í hægum sessi. Hvorki stjórn né stjórnarandstaða er líkleg til átaka fyrr en í byrjun október, því að þreytan er mikil eftir kosningar vorsins og stjórnarmyndun sumarsins.
Ekki gekk þrautalítið hjá stjórnmálamönnum okkar að koma sér í laxveiðar og annað dútl við hæfi. Ríkisstjórnin fór afar illa af stað. Aðgerðir hennar komu út með afturfæturna á undan, svo að fyrsta aðgerð hennar reyndist verða sú að fresta fyrstu aðgerðum.
Úti í atvinnulífinu þætti auðvitað til skammar að vera vikum saman á svokölluðum rífandi gangi við að mynda stjórn, með þeim árangri, að útkoman verður slíkt rugl, að ekki er unnt að framkvæma það að sinni. En það er tæpast nýtt, að stjórnmálamenn klúðri málum.
Eðlilegt er, að kjósendur velti fyrir sér, hvort umboðsmenn þeirra gætu unnið fyrir sér í öðru starfi, til dæmis úti í atvinnulífinu. Líklega yrði það erfitt, því að stjórnmálin fjalla að verulegu leyti um annað en árangur. Þau fjalla um risnu og stóla, fé og ráðherrabíla.
Stjórnarandstaðan mun hafa hægt um sig til hausts. Alþýðubandalagið vék sér skynsamlega undan tilraunum til stjórnarmyndunar, enda mun það ekki hafa orku til annars næstu mánuði en að höggva á hnút ágreiningsins um, hver eigi að stjórna flokknum næstu árin.
Kvennalistinn var ekki eins heppinn. Eftir atrennu að stjórnarmyndun sat hann uppi sem sértrúarflokkur, er verður seint beðinn aftur um að taka þátt í ríkisstjórn. Hann kann ekki að sveigja málefni sín í farveg, sem hægt er að ná samkomulagi um að sigla eftir.
Fyrir neytendur var fróðlegt að heyra í síðustu viku, að Kvennalistinn vill lækka dilkakjötsfjallið með því að hætta að borða ýmsa innflutta neyzluvöru, væntanlega með valdboði. Þetta er miðaldaskoðun þess flokks, sem sennilega verður harðastur í stjórnarandstöðu.
Kvennalistinn mun halda áfram að rækta sértrú sína og sérstöðu með hinni grónu sjálfsvorkunn, að allir séu vondir við hann. Kvartað verður áfram um lítinn aðgang að fjölmiðlum, þótt listinn hafi í rauninni ekki nennt að nota sér hinn mikla aðgang, sem hann hefur.
Borgaraflokkurinn hefur svo gersamlega týnzt eftir kosningar, að erfitt er að trúa, að hann hafi sjö fulltrúa á þingi. Samanlögð er fyrirferð þeirra eins og tæplega einnar kvennalistakonu. Hugsanlegt er, að enginn nenni að auglýsa í haust eftir hinum týnda flokki.
Af stjórnarflokkunum er hlutur Alþýðuflokksins sýnu verstur. Allir virðast vera sammála um, að flokkurinn hefur einfaldlega gerzt þriðja hjólið undir gömlu stjórnarkerrunni. Flokkurinn fær engum stefnumálum framgengt að launum, ekki einu sinni kaupleiguruglinu.
Í stöðu Alþýðuflokksins sjáum við í hnotskurn hinn pólitíska raunveruleika. Flokkar virðast ekki vera mjög virk tæki til að koma stefnumálum fram, en geta við vissar aðstæður komið að gagni við að bæta kjör og aðstöðu þeirra flokksforingja, sem verða ráðherrar.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur fá og valdalítil embætti í ríkisstjórn, sem hann hefur þó tekið forustu fyrir. Næstum útilokað er, að flokkurinn geti notað ríkisstjórnina til að marka slík spor í þjóðlífið, að hann geti borið höfuðið hátt í næstu kosningabaráttu.
Ríkisstjórnin ekur í sumarleyfið í gamalli kerru, þar sem Jón Baldvin er viðgerðarmaðurinn, Þorsteinn vagnstjórinn og Steingrímur farþeginn, sem ræður ferðinni.
Jónas Kristjánsson
DV