Kaffivagninn á Grandagarði hefur verið lagfærður og snyrtur. Þar er líka farið að bjóða upp á óvenjulega og skemmtilega rétti. Árangurinn af þessu hvoru tveggja er sá, að nú er hægt að fara út að borða í Kaffivagninn.
Upplagður ferðamannastaður
Höfuðprýði staðarins er þó enn sem fyrr frábært útsýnið yfir litaskrúð fiskibátanna, sérlega lífleg sjón á mildu og fallegu vorkvöldi. Ég er illa svikinn, ef erlendir ferðamenn fá ekki töluverðan áhuga á að snæða hér.
Reykjavík er með Kaffivagninum hætt að vera í hópi borga eina fiskiplássið, sem ekki hafði neitt frambærilegt fiskréttahús niðri við höfn. Kaffivagninn á þó óneitanlega enn töluverða möguleika á að batna og gerir það vonandi.
Gaman er að sjá, hvað mannlífið er fjölbreytt í Kaffivagninum. Hinir hefðbundnu viðskiptavinir, sjómennirnir, halla sér að mötuneytismatnum, hinir nýju hvítflibbagestir að fiskinum og útlendingarnir að hinu kalda sjávarréttaborði.
Matseðillinn er skynsamlega stuttur, býður þrjá forrétti, tvær súpur, sjö fiskrétti, fimm kjötrétti, tvo eftirrétti og svo kalda borðið, sem áður var nefnt.
Sérstakt sjávarréttaborð
Bezti réttur matseðilsins er 90 króna fisksúpan, heill málsverður, sem hafði að geyma skötusel, smálúðu, ýsu, stóran humar, úthafsrækjur, kryddað með tarragon. Þetta var yfirleitt gott og sömuleiðis sjálf súpan, vel rjómuð. Með henni var borið fram ristað brauð og smjör. Þessi fyrirmyndarréttur gerir Kaffivagninn heimsóknar virði.
Hin sérgreinin er kalda sjávarréttaborðið, þar sem raunar er einnig boðið upp á heita rétti. Þar var bezt fiskikæfa með ákveðnu rækjubragði. Einnig var þar mjög góður reyktur rauðmagi og mildur og góður plokkfiskur, blandaður sveppum.
Skemmtilegir þættir borðsins voru heitur svartfugl, graflúða, þorskalifrarkæfa og murta, allt saman réttir, sem ekki sjást oft á veitingahúsum. Svo var þetta venjulega: Fiskrúllur, síldarsalöt, rækjusalat, hangikjöt, svið og hákarl.
Aðrir réttir prófaðir eru lítt í frásögur færandi. Pönnusteikt ýsa, með lauki, sveppum, smjöri, harðsoðnu eggi, kartöflu og sítrónu, var góð, þótt ofsöltuð væri. Soðin smálúða í hvítvínssósu var hins vegar fremur gróf, svo sem úr frysti væri.
Ég öfundaði manninn á þarnæsta borði, sem fékk nýja, heilsteikta rauðsprettu, þegar ég var búinn með lúðuna. Ég bölvaði sjálfum mér að hafa ekki haft vit á að spyrja húsráðendur, hvort ekki væri á boðstólum einhver ferskur flatfiskur utan seðils.
Ofnir dúkar á borðum
Kalda borðið kostaði 96 krónur og fisksúpan 90 krónur, hvort tveggja góð kaup. Meðalverð forrétta var 30 krónur, súpa 21 króna, fiskrétta 80 krónur, kjötrétta 77 krónur og eftirrétta 12 krónur.
Kaffivagninn er í lægri enda milliverðflokks veitingahús, svona mitt á milli Torfunnar annars vegar og Esjubergs hins vegar. Staðurinn veitir fulla þjónustu til borðs og hefur meira að segja vandaða, ofna dúka á borðum.
Matareinkunnin, ekki bara miðuð við fisksúpu og kalt borð, er sex, þjónustueinkunnin sjö og umhverfiseinkunnin átta. Með hefðbundinni útreikningsaðferð fær Kaffivagninn nákvæmlega 60 stig af 100 mögulegum og einkunnina sex.
Jónas Kristjánsson
Vikan