Kaffivagninn

Veitingar

Kaffivagninn er greinilega sjávarréttastaður erlendra ferðamanna í Reykjavík. Við prófun DV í miðjum júní voru þeir í miklum meirihluta meðal gesta og létu sér matinn vel líka. Þar voru einnig nokkrir erlendir kaupsýslumenn, greinilega á flótta frá dýru stöðunum til einhvers, sem þeir gætu talið “ekta”.

Rétta umhverfið

Að vísu er Kaffivagninn nokkru lakari og mun dýrari sjávarréttastaður en Potturinn og pannan og Laugaás, en hann er mun betur settur en þeir. Í fyrsta lagi er hann í næsta nágrenni gamla miðbæjarins. En í öðru og mikilvægara lagi hefur hann hið rétta umhverfi, sjálfa fiskibátahöfnina.

Út um stóra glugga Kaffivagnsins er hið fegursta útsýni í sólskini yfir mastraskóga og skæra liti smárra og stórra fiskibáta. Ryðguð skip í slipp trufla ekki stemmninguna, heldur gefa henni raunhæfan svip eiginlegrar hafnar, rétt eins og verbúðaröðin á Grandagarði.

Útlendingar eru yfirleitt hrifnari af íslenzkum sjávarréttum en öðrum íslenzkum réttum, að lambakjöti meðtöldu. Álit þeirra á íslenzkum sjávarréttum stafar einkum af því, að hráefnið er hér ferskara og betra en þeir þekkja frá stórborgunum, þar sem þeir búa.

Matreiðsla sjávarrétta er hins vegar ekki merkilegri hér á landi en annars staðar, nema í vissum undantekningartilvikum. Þau er einkum að finna hjá hinum dýrari veitingahúsum í Reykjavík og í sérvizkustað eins og á Hótel Búðum. En Kaffivagninn er ekki eitt af þessum undantekningartilvikum.

Eins og yfirleitt tíðkast hér á landi hefur Kaffivagninn tilhneigingu til að bjóða upp á ofeldaða sjávarrétti. Þeir eru svo sem góðir, en ekki eins góðir og þeir gætu verið og ekki eins góðir og þeir eru í sumum ódýrari veitingahúsum Reykjavíkur. Einnig er óþægilegt, að þeir koma í sumum tilvikum ekki nógu heitir á borð.

Kaffivagninn er einfaldur og látlaus staður, opinn og þétt skipaður tréborðum og hversdagslegum plaststólum. Á gólfi eru flísar. Í lofti eru bæði olíulugtarlegir lampar og gamallegar ljósakrónur. Á veggjum eru lampar í stíl við ljósakrónurnar og við glugga eru tjöld í stíl við borðdúkana. Fersk blóm voru á borðum, þegar staðurinn var prófaður, svo og handþurrkur úr pappír.

Einkum fiskur

Á matseðli Kaffivagnsins eru aðeins tveir kjötréttir og var aðeins annar þeirra á boðstólum við þetta tækifæri. Það var kjúklingaréttur í miklu magni af ágætri, sérrílagaðri rjómasósu með örlitlu af sveppum. Kjúklingabitarnir voru fremur þurrir, en aðallega bragðlausir. Með fylgdu brenndar og harðar franskar kartöflur, svo og einfalt og gott hrásalat.

Fyrir utan svonefnda rússneska súpu var boðið upp á rjómalagaða spínatsúpu með mildu spínatbragði, hæfilega kryddaða, ágæta súpu. Forréttirnir eru einnig tveir, soðnar úthafsrækjur og blandaðir sjávarréttir.

Rækjurnar voru bornar fram í skelinni, rauðar, stórar og fallegar, góðar á bragðið. Með fylgdi dálítið sæt og köld tómatídýfa með paprikubitum, svo og blaðsalat og ristað brauð með smjöri. Þetta var bezti matur prófunarinnar.

Blönduðu sjávarréttirnir voru þurr smálúða, meyrar rækjur og meyr kræklingur ásamt papriku, allt innbakað í ostasósu. Með fylgdu smjördeigshorn og sítrónubátur. Gæðin voru nákvæmlega í því frambærilega meðallagi, sem maður býst við í veitingahúsum borgarinnar.

Smálúðuflök í kampavínssósu voru fyllt með rjómablandaðri þorskalifrarkæfu, sem gaf réttinum skemmtilega tilbreytni. Hinir þynnri hlutar lúðuflaksins voru of þurrir. Með fylgdi töluvert af ágætum rækjum og kræklingi, svo og smjördeigshorn og sítrónubátur.

Silungur, heilsteiktur í smjöri, var hæfilega snöggt eldaður, en hins vegar of mikið saltaður og pipraður. Skorpan var vel heppnuð. Með fylgdu rækjur og sýrðar gúrkusneiðar, svo og salatskreyting og hvítar kartöflur með steinselju. Rjómasósan fannst mér í rauninni vera eggjasósa.

Soðnar laxasneiðar með bráðnu smjöri, hvítum kartöflum og sýrðum gúrkusneiðum voru heldur lakari en við má búast hér á landi. Laxinn var of lengi eldaður og einkum þó of kaldur, þegar hann kom á borð. Með honum fylgdi ristað brauð og smjör.

Sérgrein á undanhaldi

Sérgrein hússins, Fiskisúpa Kaffivagnsins, kom ekki heit á borð. Hún var full af ágætum sjávarréttum, svo sem humarhölum, stórum rækjum og smáum, kræklingi og smálúðubitum. Humarinn og úthafsrækjurnar voru í skelinni, sem í hvorugu tilvikinu höfðu verið skornar eða sagaðar til að auðvelda gestum snæðinginn.

Við slíkar aðstæður er betra að hafa súpuna tæra, svo að fingur verði ekki of sullugir, enda eru fiskisúpur oftar tærar en hitt. Þessi var hins vegar rjómuð og það mikið rjómuð. Hún var góð á bragðið, en uppfyllti ekki fyllilega vonir mínar til sérgreinarinnar. Súpan var fyrrum betri en þetta.

Þjónusta ungra stúlkna var vinsamleg og ákveðin. Strax og kaffið kom á borð, var tekið fram, að heita ábót mætti fá eftir þörfum.

Miðjuverð á tveimur súpum var 68 krónur, tveimur forréttum 150 krónur, átta fiskréttum 305 krónur, tveimur kjötréttum 320 krónur og þremur eftirréttum 92 krónur. Kaffið kostaði 30 krónur. Ekkert vín er veitt. Miðjuverð tveggja rétta máltíðar er 422 krónur, miðlungsverð á íslenzku veitingahúsi.

Í hádeginu er svo hægt að fá mötuneytismat úr heitum dunkum, tvo fiskrétti og tvo kjötrétti. Með súpu dagsins og kaffi er miðjuverð máltíðarinnar þá 190 krónur. Fyrir það fé færi ég heldur í Laugaás eða Pottinn og pönnuna í almennilegan mat.

Segja má, að á kvöldin hafi Kaffivagninn mjög risið til vegs og virðingar í heiminum, þegar þar heyrast óma ýmis tungumál frá vel stæðu ferðafólki. Og sem auglýsing fyrir íslenzka sjávarrétti handa miðlungi kröfuhörðum ferðamönnum er Kaffivagninn hin þarfasta stofnun. En hvað er orðið af sjómönnunum á kvöldin.

Jónas Kristjánsson

DV