Frábær er hugmyndin um að reisa átta metra höggmynd af Kaldárhöfðasverðinu við Þjóðminjasafnið. Myndin í DV á miðvikudaginn af fyrirhuguðu sverði reknu á ská í Melatorg segir allt sem þarf. Höggmyndin yrði eitt helzta einkenni borgarinnar og einn vinsælasti viðkomustaður ferðamanna.
Betra væri þó að færa sverðið af torginu sjálfu yfir á kantinn Þjóðarbókhlöðumegin, þar sem gera má bílastæði, svo að ferðamenn leggi sig ekki í lífshættu við að mynda hver annan framan við sverðið. Það er nefnilega nauðsynlegt til frægðar mannvirkjum, að hægt sé að láta mynda sig við þau.
Reykjavík á tvo aðra staði af þessu tagi. Annar er styttan af Leifi Eiríkssyni framan við Hallgrímskirkju. Þar er auðvelt að leggja bílum og rútum og þar mynda ferðamenn í gríð og erg flesta daga ársins. Hvorki styttan né kirkjan eru merk listaverk, en eru sameiginlega afar myndvæn.
Síðara dæmið er Sólfar Jóns Gunnars Árnasonar við Sæbraut, sem Vesturbæjarsamtökin gáfu borginni. Þar er auðvelt að leggja bílum og rútum og þar er líka myndað alla daga ársins. Þetta ágæta listaverk stundar harða samkeppni við Leifsstyttuna sem megintákn borgarinnar í augum ferðafólks.
Kaldárhöfðasverðið eins og það lítur út á myndinni í DV yrði umsvifalaust þriðja einkenni borgarinnar frá sjónarhóli myndglaðra ferðamanna. Þetta er hugmynd, sem getur ekki mistekizt, minnir á Excalibur, frægt töfrasverð þjóðsögunnar um Alfreð Englandskonung og hringborðsriddara hans.
Reykjavík þarf að eiga nokkur einstæð útilistaverk, hvert með sínu sniði. Ágæt er hugmyndin um að setja risavaxna Helreið Ásmundar Sveinssonar klofvega yfir eitthvert þekkt stræti borgarinnar. Slík myndefni bjargar degi hvers myndatökumanns og gerir honum höfuðborgina minnisstæða.
Þjóðminjasafnið býr við sult og seyru áhugalítils ríkisvalds og hefur ekki ráð á að reisa Kaldárhöfðasverðið. Það leitar þjóðminjavinar, sem vill leggja fram þær sex milljónir króna, sem talið er, að mannvirkið muni kosta fullbúið.
Raunar stendur næst Reykjavíkurborg að leggja hönd á plóginn. Hún stóð hvorki fyrir Leifi Eiríkssyni né Sólfarinu, svo að tími er kominn til, að hún reisi sjálf eitt útilistaverkanna, sem einkenna hana og gera hana að ferðamannaborg, fjölmennri atvinnugrein til hagsældar.
Líkan Kaldárhöfðasverðsins vísar til tíu alda arfleifðar. Hún er myndræn vísun til safnsins handan götunnar. Hún endar á tugþúsundum geisladiska í eigu ferðamanna um allan heim.
Jónas Kristjánsson
DV