Kaleikur Alþingis

Greinar

Við afgreiðslu fjárlaga ber Alþingi að hafna tillögu ríkisstjórnarinnar um að fresta gildistöku nýlegra laga frá því í vor um greiðslur bóta til þolenda afbrota. Þessi tillaga er í senn ósiðleg og sýnir Alþingi um leið óvirðingu, því að bótagreiðslurnar eru nýkomnar í lög.

Með tillögunni lætur ríkisstjórnin eins og Alþingi sé eins konar bjálfastofnun, sem viti ekki, hvað hún geri, heldur samþykki eitthvað út í loftið, sem síðan verði að draga til baka hálfu ári síðar. Með því að samþykkja frestunina væri Alþingi að staðfesta þetta niðrandi álit.

Vel kann að vera, að Alþingi sé skipað bjálfum. En lögin frá því í vor um greiðslur bóta til þolenda afbrota eru alls ekki dæmi um það. Þvert á móti eru þetta afar brýn lög, sem kosta lítið og eru í samræmi við tilfinningu þjóðarinnar fyrir því, hvað sé rétt og rangt.

Fjárlagafrumvarpið er að venju fullt af óþörfum og jafnvel hættulegum útgjöldum, sem Alþingi getur skorið brott, áður en röðin kemur að jafn sjálfsögðum þætti eðlilegs velferðarkerfis og þessar bótagreiðslur eru. Þær munu fela í sér 40-50 milljóna króna kostnað á ári.

Ofbeldismenn, sem skaða fólk líkamlega eða andlega, eru yfirleitt ekki borgunarmenn fyrir skaðabótum, sem þeir eru dæmdir til að greiða fórnardýrum sínum. Reynslan sýnir, að þeir geta ekki eða vilja ekki greiða þessa peninga og komast yfirleitt upp með það.

Ríkisvaldið hefur tekið sér hlutverk öryggisvarðarins í þjóðfélaginu. Fyrsta hlutverk ríkisins og raunar helzta afsökunin fyrir tilveru þess er, að það gæti öryggis borgaranna inn á við og út á við. Það er til dæmis brýnna hlutverk en fræðsla, samgöngur og heilsugæzla.

Þegar ríkið bregzt í hlutverki öryggisvarðarins, ber það að nokkru leyti ábyrgð á tjóni, sem fólk verður fyrir. Þetta öryggisnet er að vísu að umtalsverðu leyti framkvæmt með gagnkvæmum skyldutryggingum, en að öðru leyti er það réttilega á vegum opinberra aðila.

Ekki er eðlilegt, að þolendur afbrota njóti ekki sama aðgangs að öryggiskerfinu og aðrir. Það er tilgangslítið að dæma ofbeldismenn til greiðslu bóta, sem þeir munu aldrei greiða. Þess vegna á ríkið að greiða þessar bætur sjálft og endurkrefja síðan afbrotamennina.

Oft hafa þolendur afbrota skerta getu til að reyna að innheimta slíkar skaðabætur af ofbeldismönnum, hafa til dæmis ekki ráð á að borga innheimtustofu fyrir vonlitlar fjárheimtutilraunir. Ríkið hefur hins vegar burði til að stunda slíkar innheimtur af hörku.

Upphæðirnar eru ekki háar á mælikvarða sameiginlegs sjóðs landsmanna. Samkvæmt lögunum eru hámarksbætur fyrir líkamstjón fimm milljónir króna og hámarks miskabætur ein milljón króna. Fyrir missi framfæranda eru hámarksbætur þrjár milljónir.

Með því að samþykkja lög um siðræna meðferð slíkra mála gaf Alþingi í vor fórnardýrum ofbeldismanna von um, að byrjað yrði að greiða bætur í sumar sem leið. Siðlítið dómsmálaráðuneyti Þorsteins Pálssonar fann sér króka til að fresta framkvæmdinni til áramóta.

Siðlítil ríkisstjórn hyggst nú fá Alþingi til að bíta höfuðið af skömminni með því að fresta framkvæmd laganna um ár í viðbót hið minnsta. Alþingi ber skýlaus siðferðisskylda til að neita að taka við þessum kaleik. Alþingi á að láta lögin gilda eins og önnur lög í landinu.

Alþingi rís að öðrum kosti ekki undir samanburði á þessum 50 milljóna króna útgjöldum og ýmsum hærri fjárlagaliðum, sem byggja á minni þörf og minna réttlæti.

Jónas Kristjánsson

DV