Hálfu ári eftir hvellinn mikla lifa Flugleiðir notalegu lífi á ríkisjötunni og stefna að framhaldi útgerðar í vasa skattgreiðenda. Ekkert hefur verið lært og engu gleymt, þótt friðartímann hefði mátt nota til að skilja vandann.
Félagsstjórnin, sem keyrt hefur Flugleiðir út á barn gjaldþrots, hefur engum skynsömum ráðum né rökum tekið. Og ríkisstjórnin, sem hefur tekið á sig rekstrarábyrgðina fyrir hönd skattgreiðenda, hefur engum skynsömum ráðum né rökum tekið.
Báðar þessar stjórnir brenna peningum okkar til að bjarga Luxemborgarfluginu. Sú björgun felst í að greiða niður flutning óviðkomandi fólks milli Evrópu og Ameríku, meðan fargjöldum Íslendinga til útlanda er haldið óeðlilega háum.
Þrjú ár eru síðan ljóst mátti vera, að Loftleiðaævintýrinu var lokið. Þá höfðu Laker flugforstjóri og Carter Bandaríkjaforseti brotið á bak aftur hinn alþjóðlega einokunarhring flugfélaga, sem hélt uppi farmiðaverði yfir Norður-Atlantshafi.
Þremur árum síðar er enn ljósara, að hið nýja verðstríð þessarar leiðar er varanlegt og að tap flugfélaga á eftir að aukast, áður en það fer að minnka aftur. Þetta veit allur heimurinn. Nema stjórnir Flugleiða og íslenzka ríkisins.
Hér í blaðinu og annars staðar hefur verið hamrað á þeim augljósu staðreyndum að við höfum nærtækari verkefni í flugi en niðurgreiðslur til óviðkomandi manna. Stjórnir Flugleiða og ríkisins hafa ekki notað friðinn til að skilja þetta.
Við þurfum að tryggja okkur daglegar flugsamgöngur austur og vestur um haf árið um kring. Þetta öryggi höfum við ekki lengur, þótt við greiðum árlega milljarða gamalla króna og tugmilljónir nýrra til Flugleiða.
Skynsamlegra væri að nota þetta fé eða hluta þess til að greiða niður ferðir Íslendinga sjálfra til útlanda á þeim leiðum og árstímum, þar sem nú skortir mest á, að unnt sé að halda úti daglegu flugi með sæmilega fullar vélar.
Enn betra væri að nota þetta fé eða hluta þess til að reisa hér rúmlega fyrsta flokks aðstöðu til ráðstefnuhalds árið um kring, aðstöðu, sem ekki stæði að baki neinu því, sem bezt þekkist á öðrum stöðum í heiminum.
Með þeim hætti látum við gestkomandi útlendinga hjálpa okkur við að halda úti fullum flugvélum í daglegu flugi austur og vestur yfir hafið. Að auki fáum við hingað menn, sem verja margfalt meira fé en venjulegir ferðamenn gera.
Samtök og fyrirtæki eru mörg í vandræðum með að finna nýja og óvenjulega staði fyrir þing sín og ráðstefnur. Þau mundu flykkjast hingað, svo framarlega sem þægindi og önnur aðstaða væri í samkeppnishæfu ástandi.
Í þriðja lagi væri hægt að nota þetta fé eða hluta þess til að rækta upp nýja aðila í millilandaflugi, aðila, sem ekki þjást af kölkun á borð við Flugleiðir. Flugþekking Íslendinga þarfnast útrásar eftir nýjum brautum.
En hér gildir því miður sú regla Víðishúss og Þórshafnartogara, að stjórnvöld bíta sig því fastar í rangar ákvarðanir sem gagnrýnin er rökfastari og ábendingarnar réttmætari. Og það er meira að segja löngu eftir að hvellurinn er liðinn.
Fyrir bragðið sætum við því, að skattpeningum okkar er dreift í vasa óviðkomandi útlendinga, um leið og við höfum ekki efni á þörfum okkar sjálfra, daglegu flugi austur og vestur árið um kring.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið