Kamfýlan blómstrar

Greinar

Hollustuvernd ríkisins og heilbrigðisnefndir sveitarfélaga sátu nýlega á lokuðum fundi og úðuðu í sig Holtakjúklingi til að sýna þjóðinni fram á, að kamfýlugerlar væru ekki banvænir. Þótt 80% kjúklinganna væru sýkt, skyldi fólk halda ró sinni og sjóða vel og lengi.

Síðan hefur komið í ljós, að heimsmetið frá í vor hefur haldizt óbreytt fram á vetur. Af hálfu Hollustuverndar og heilbrigðisnefnda hefur alls ekkert verið gert til að draga úr kamfýlunni. Hinn íslenzki heimsmethafi er enn með 80% sýkingu á kjúklingum í verzlunum.

Svona rétt til samanburðar má benda á, að Norðmenn loka kjúklingavinnslu, ef kamfýla fer yfir 10%. Hér er hins vegar ekki lokað, þótt hún haldizt mánuðum saman í 80%. Það er eins og umhverfisráðherra og forstjóri Hollustuverndar lifi í heimi Lísu í Undralandi.

Forstjóri Hollustuverndar lýsti því raunar yfir á átfundinum fræga í haust, að hann liti á hlutverk sitt sem sáttasemjara. Hann hlýtur að hafa átt við, að hann ætlaði að sætta niðurstöður fræðimanna annars vegar og þrönga sérhagsmuni kjúklingabúa hins vegar.

Maður sér forstjórann fyrir sér fá inni í Karphúsinu hjá sáttasemjara ríkisins og hlaupa þar milli herbergja til að bera gagntilboð milli málsaðila. “Ég býð 50% sýkingu”, segir annar málsaðilinn. “Ég býð 20% snyrtingu á niðurstöðum rannsókna”, segir hinn.

Við vitum af mörgum öðrum málum, að nýi umhverfisráðherrann er verri en fyrirrennarar hennar. Aðgerðaleysi hennar kemur því ekki á óvart. Hins vegar er athyglisvert, að forstjóri risavaxinnar Hollustuverndar við Ármúla skuli líta á sig sem stjórnmálamann.

Hollustuvernd er til húsa á tveimur hæðum í stórhýsum við Ármúla. Þar verður ekki þverfótað fyrir starfsfólki. Skrímslið getur samt ekki séð til þess, að kamfýla fari niður fyrir 10% hjá þeim búum, sem mesta hafa sýkingu, eins og gert er í nágrannalöndunum.

Athyglisvert er, að í nýjustu kamfýlutalningu kemur í ljós, að Ísfugl hefur aðeins 5% sýkingu og Fossgerði hvorki meira né minna en 0% sýkingu. Samt er leitun að afurðum þessara búa í venjulegum stórmörkuðum, þar sem 80% sýktir kjúklingar eru í stórum stöflum.

Umhverfisráðherra og forstjóri Hollustuverndar geta því huggað sig við, að spámenn markaðskerfisins telja viðskiptavini sína hallast að kamfýlu, svo framarlega sem tilboðsverð sé á henni, og að íslenzkir neytendur staðfesta þessar spár með því að úða henni í sig.

Fátt er kannski við það að athuga, að neytendur fái alla þá ódýru kamfýlu, sem þeir vilja og að stórmarkaðir þjóni þeirri þörf. Í ljósi þess er í stíl, að Hollustuvernd ríkisins sé stikkfrí í málinu og að fræðimenn sleppi naumlega við að vera reknir fyrir að finna kamfýlu.

Nú hefur komið í ljós, að salmonella hefur aftur stungið sér niður á kjúklingabúum eftir meira en tveggja ára hlé. Tveimur kjúklingabúum var lokað á sínum tíma á kostnað ríkisins, en það virðist ekki hafa dugað, enda er greinilegt, að hreinlætishefðum er ábótavant.

Enn fremur hefur komið í ljós, að kamfýla takmarkast ekki eingöngu við kjúklinga. Hún er einnig hlaupin í aliendur og kalkúna, enda eru þær afurðir meðhöndlaðar í sýktu vinnslustöðvunum. Og það er sama sagan, menn yppta öxlum og segja fólki að sjóða bara lengur.

Allt þetta ferli er í samræmi við veruleikafirringu drottningarinnar í bókinni um Lísu í Undralandi og hentar vel þjóðfélagi, sem er sjálft veruleikafirrt.

Jónas Kristjánsson

DV