Kamfýlumenn eitra enn

Greinar

Staðreyndir kamfýlumálsins eru ljósar. Veikindasprenging hefur orðið í þjóðfélaginu, einkum af völdum framleiðslukeðju Ásmundarstaða, Reykjagarðs og Holtakjúklings og af völdum varnarhrings, sem heilbrigðisyfirvöld Suðurlands hafa slegið um sóðana.

Um 3.000 manns hafa veikzt á þessu ári, margfalt fleiri en áður. Á laugardaginn var viðtal í DV við ungan mann, sem varð ósjálfbjarga, lá í sjö vikur og hefur ekki öðlazt fullan mátt enn. Hann er einn þeirra, sem íhuga samstarf um málaferli gegn kjúklingasóðum Suðurlands.

Aðgerðir hins opinbera í málinu eru líka einfaldar og ljósar. Eftirlitsmönnunum, sem sömdu skýrsluna um sóðahring Ásmundarstaða, Reykjagarðs og Holtakjúklings, hefur verið vikið frá þessu eftirliti og kallaðir til yfirheyrslu hjá lögreglu og umhverfisráðuneyti.

Formaður heilbrigðisnefndar Suðurlands stjórnar ofsóknum gegn eftirlitsmönnum. Hann er sveitarstjóri á Hellu og stjórnarformaður Gámastöðvarinnar. Með honum í hagsmunagæzlu fyrir Suðurlandssóðana eru héraðslæknir og héraðsdýralæknir svæðisins.

Hvað eftir annað hefur komið í ljós, að sýktir eru 80% kjúklinga frá sóðakeðjunni Ásmundarstaðir, Reykjagarður og Holtakjúklingur. Yfirlæknir sóttvarna á Íslandi segir þetta hlutfall “ófært” og bendir á, að hættumörk séu í Noregi talin vera við 10% sýkingu.

Hér á landi eru engar reglur um, hversu mikil kamfýla megi vera við framleiðslu kjúklinga. Í þessu tilviki er hún áttföld á við það, sem væri í Noregi talin vera næg ástæða til að stöðva framleiðsluna um sinn, reka forstjórann, loka húsakynnum og sótthreinsa þau.

Hér á landi fá sóðar að halda áfram iðju sinni óáreittir, en neytendur eru hvattir til að forðast sýkingu með því að elda kjúklingana svo grimmdarlega, að þeir verða ólseigir. Þetta minnir á ráðleggingar til fólks, sem hefur orðið fyrir náttúruhamförum í Tyrklandi.

Starfsmenn heilbrigðiseftirlitsins á Suðurlandi hafa varað við kamfýlugerlinum frá Ásmundarstöðum, Reykjagarði og Holtakjúklingi síðan 1995. Í fjögur ár hafa ráðamenn heilbrigðismála í héraði daufheyrzt við ábendingunum og látið sem ekkert hafi í skorizt.

Svo langt hefur ruglið gengið á þessu árabili, að starfsmenn sóðakeðjunnar hafa hvað eftir annað orðið veikir af kamfýlu, án þess að það hafi orðið ráðamönnum heilbrigðismála í héraði tilefni til að reyna að koma vitinu fyrir þá, sem stjórna sóðaskapnum.

Þung er fjögurra ára ábyrgð formanns heilbrigðisnefndar Suðurlands, héraðsdýralæknis og héraðslæknis á Hellu, sem hafa sameinazt um að halda málinu leyndu og að ofsækja eftirlitsmennina, er þorðu að koma upp um sunnlenzka samsærið gegn neytendum.

Málið sýnir, að staðbundnum aðilum er ekki treystandi fyrir heilbrigðiseftirliti í þágu almannaheillar. Þeir eru saman í fínimannsklúbbum svæðisins, gæta hagsmuna hver annars í samskiptum þeirra við umheiminn og hylma meðal annars hver yfir öðrum.

Um leið er málið einn af mörgum áfellisdómum yfir umhverfisráðuneytinu, sem fer með þennan málaflokk. Það hefur ekki mótað reglur um meðferð kamfýlu og hefur tekið þátt í ofsóknum gegn eftirlitsmönnum, en hefur ekki lyft litla fingri til aðstoðar neytendum.

Málið sýnir einnig, að sóðaskapur er sumu fólki eðlislægur. Það sér ekkert athugavert við umgengni um matvæli, sem öðrum finnst forkastanleg.

Jónas Kristjánsson

DV