Kanada vísar veginn

Greinar

Af erlendum fjölmiðlum er ljóst, að Kanada hefur unnið alþjóðlega áróðursstríðið gegn Spáni og Evrópusambandinu í deilunni um fiskveiðar utan 200 mílna lögsögunnar við Nýfundnaland. Kanadamenn eru almennt taldir góðu karlarnir og Spánverjar vondu karlarnir.

Efnisatriði málsins eru ekki svona einföld. Báðir aðilar hafa framið lögbrot. Kanadamenn hafa farið út fyrir valdsvið sitt sem strandþjóð, en brot þeirra eru talin afsakanleg, af því að þeir eru að reyna að koma í veg fyrir rányrkju á fiskimiðum rétt utan lögsögunnar.

Sums staðar kemur fram, að Kanadamenn séu að feta í fótspor Íslendinga, sem hafi unnið þorskastríð sín við Breta á svipaðan hátt, með því að vera í hlutverki smælingjans, sem er að reyna að vernda lifibrauð sitt fyrir ásókn sjóræningja, og auglýsa það hlutverk af kappi.

Kanadíski sjávarútvegsráðherrann hefur haldið sönnunargögnum á lofti, þéttriðnum og klæddum netum, smáfiskum og leynihólfum í sjóræningjaskipi. Ljósmyndir af sönnunargögnunum hafa birzt um allan heim og sýnt Spánverja í ljósi skeytingarlausra villimanna.

Og það er bara rétta ljósið. Spánverjar eru fyrir löngu orðnir illræmdir fyrir algert tillitsleysi í umgengni við verðmæti hafsins og við hagsmuni mannkyns af viðhaldi fiskveiða. Framkomu Spánverja og spánskra stjórnvalda verður bezt lýst sem villimannlegri græðgi og frekju.

Í þessu vandsæmdarmáli er einna athyglisverðast eins og í öllum slíkum málum, að Evrópusambandið tekur upp hanzkann fyrir aðildarríkið gegn utangarðsríki. Enginn málstaður er nógu fáránlegur til þess, að Evrópusambandið hafni því að láta beita sér fyrir hann.

Framganga og málflutningur Evrópusambandsmanna í fiskveiðideilunni er langt handan við heilbrigða skynsemi. Það er eins og þeir lifi í einkaheimi, þar sem hvorki skiptir máli innihald né ímynd. Eins og páfagaukar þylja þeir bara ruglið upp úr spánskum stjórnvöldum.

Þeir, sem fylgjast vel með, vita líka, að Evrópusambandið hefur eindregið stuðlað að ofveiði á öllum miðum, bæði við Evrópu og annars staðar, með því að veita stjarnfræðilegar upphæðir til styrktar smíðum og kaupum og rekstri fiskiskipa í aðildarríkjunum.

Í Evrópusambandinu er litið á fiskveiðar sem eina grein landbúnaðar. Þess vegna er auðvelt fyrir byggðastefnumenn að afla styrkja til stuðnings atvinnurekstri í sjávarplássum. Ofveiði af hálfu Evrópusambandsins er bara hluti af geigvænlegum landbúnaðarvanda þess.

Utan deiluríkjanna sér fólk myndina í skýru ljósi. Það veit, að fiskstofnar eru ofveiddir og vill, að þeir séu verndaðir strax, en ekki seinna, þegar þeir eru uppurnir. Það veit, að alþjóðareglur duga alls ekki til að vernda fiskinn fyrir Spánverjum og öðrum sjóræningjum.

Allt er þetta lærdómsríkt fyrir Íslendinga. Sérstaklega er mikilvægt að taka eftir því, að Kanada hefur gersigrað í áróðursstríðinu. Það bendir til, að auðveldara verði fyrir okkur að ná tangarhaldi á mikilvægum miðum rétt utan við 200 mílna lögsöguna heldur en fjarri henni.

Við munum aldrei fá neinn stuðning við veiðar í Smugunni. Og þær munu spilla fyrir tilraunum okkar til að vernda eigin smugur. Nálægar smugur ættu þó að vera okkur mikilvægari en fjarlægar, af því að þær tengjast meira framtíðarhagsmunum okkar sem fiskveiðiþjóðar.

Okkur gekk vel, þegar við vorum í hlutverki strandríkis gegn úthafsríkjum. Tilraunir okkar til að leika úthafsríki hafa gefið skjótan arð, en munu hefna sín um síðir.

Jónas Kristjánsson

DV