Kannanir eru bara fréttir

Greinar

Stundum er kvartað um, að skoðanakannanir hafi áhrif á niðurstöður kosninga. Kosningastjórar segja oft, að niðurstaða í könnun hafi ýtt af stað fylgissveiflu, svo sem í átt til þeirra, er virðast í könnuninni standa tæpt og þá frá þeim, er virðast öruggir um gott fylgi.

Kosningastjórar segja líka oft, að könnun hafi ýtt af stað fylgissveiflu í átt til þeirra, sem virðast vera á sigurbraut og magni sigur þeirra. Þar sem þessi skoðun gengur þvert á hina fyrri, er ekki gott að sjá af orðum kosningastjóra, hvers konar áhrif kannanir hafa í rauninni.

Sameiginlegt er með hinum ýmsu skoðunum á þessu, að þær koma frá kosningastjórum og öðrum forustumönnum stjórnmálaafla og að þeir eru að reyna að útskýra, hvers vegna þeirra framboði gekk illa í kosningum. Þeir grípa í hálmstráið að kenna könnunum um.

Sumir magna þetta svo fyrir sér, að þeir byrja að muldra um, að banna þurfi skoðanakannanir, að minnsta kosti í einhvern tíma fyrir kosningar og að ennfremur þurfi hið alvitra og alsjáandi opinbera að setja reglur um, hvernig slíkar kannanir skuli fara fram.

Tvímælalaust hafa skoðanakannanir áhrif á gang mála. Þau áhrif eru hins vegar ekki skipulögð eða einhliða. Þær geta stundum hjálpað manni inn, stundum magnað sigur, stundum minnkað sigur og stundum allt þetta og annað til í einum og sömu kosningunum.

Margt fleira hefur áhrif á kosningaúrslit. Fréttir hafa án efa áhrif. Af hverju þá ekki banna fréttir í ákveðinn tíma fyrir kosningar, til dæmis í eina viku? Af hverju ekki setja opinberar reglur um fréttir af stjórnmálum, til dæmis síðasta mánuðinn fyrir kosningar?

Birting á niðurstöðu skoðanakönnunar er bara frétt eins og aðrar fréttir. Ef menn halda fram, að ríkið eigi að banna eða skipuleggja þessar kannanafréttir, geta menn alveg eins haldið fram, að ríkið eigi að banna eða skipuleggja aðrar fréttir, sem snerta stjórnmálin.

Kveinstafir kosningastjóra og annarra forustumanna stafa af, að fréttir af könnunum gera þeim nánast ókleift að halda fram fáránlegum fullyrðingum um, hvernig fylgið sé að færast til fyrir kosningar. Fyrir tíð skoðanakannana flögguðu þeir gjarna slíku rugli.

Innreið skoðanakannana í stjórnmálafréttir hefur einfaldlega þýtt, að fréttir af fylgissveiflum flokka og lista milli kosninga eru áreiðanlegri en áður, þegar kosninga-stjórar og aðrir forustumenn framboða þóttust sjálfir vera sérfræðingar í að reikna út fylgissveiflur.

Tillögum um, að hið opinbera setji reglur um, hvernig skoðanakannanir skuli gerðar, hefur oftast fylgt, að Háskólinn, og þá væntanlega félagsvísindastofnun hans, verði eins konar eftirlitsaðili. Samt er félagsvísindastofnunin einn nokkurra samkeppnisaðila á þessu sviði.

Fyrr á árum hélt félagsvísindastofnunin því fram, að sínar kannanir væru vísindalegri en annarra. Reynslan er hins vegar sú, að síðustu kannanir hennar fyrir kosningar hafa að meðaltali ekki reynzt eins nálægt kosningaúrslitum og kannanir DV, þótt þær séu líka nálægar.

Í tímans rás hefur komið í ljós, að kenningar um, að úrtak úr þjóðskrá sé betra en úrtak úr símaskrá, hafa ekki fengið stuðning af kosningaúrslitum. Hið sama má segja um kenningar um, að heppilegt sé að falsa niðurstöður með því að vigta þær á ýmsan hátt.

Rangt væri að fela þeim, sem lakar hefur gengið, að efla nákvæmni hinna, sem betur hefur gengið. Og bezt er að láta kannanir í friði, eins og aðrar fréttir.

Jónas Kristjánsson

DV