Skoðanakannanir á miðju kjörtímabili hafa lítið forspárgildi um úrslit næstu kosninga. Eftir endasprett kosningabaráttu reynast úrslitin yfirleitt fela í sér minni sveiflu en lesa hafði mátt úr skoðanakönnunum. Þannig hefur Framsókn síðustu áratugina fengið meira fylgi í kosningum en könnunum.
Hins vegar segja skoðanakannanir okkur, hverjir eigi við vanda að glíma þá stundina og hverjir ríði öldufaldinn. Sagan segir okkur líka, að flokkar, sem hafa farið illa út úr könnunum, fá sjaldnast góða kosningu. Þeir tapa fylgi, en ekki eins miklu fylgi og kannanir höfðu áður gefið í skyn.
Þetta er kallað varnarsigur. Margir ruglast á varnarsigri og hefðbundnum sigri. En orðið varnarsigur gefur flokki með slæma útkomnu færi á að túlka niðurstöðuna jákvætt fyrir sig. Þannig hefur Framsókn borið úrslit saman við kannanir og reynt að bera höfuðið hátt á pólitísku undanhaldi sínu.
Samkvæmt könnunum fer Framsóknarflokkurinn verr út úr bulluskap og kennitölusvindli formanns Sjálfstæðisflokkurinn en höfundur vandans. Það byggist væntanlega á, að kjósendur Framsóknar eru viðkvæmari fyrir pólitísku braski og brellum en foringjadýrkandi kjósendur Sjálfstæðisflokksins.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf líkst ítölsku fasistunum í gamla daga og flokki Berlusconis á Ítalíu nú á tímum. Slagorðin voru og eru hin sömu Stétt með stétt í gamla daga og Áfram Ísland í dag. Mikið af kjósendum flokksins vill hafa sinn Mussolini, sinn Berlusconi, sína pólitísku bullu.
Þessa dagana hafa margir kjósendur þungar áhyggjur af ferli stjórnmálanna út í geðþótta, sífelldar hótanir, æðisköst og kennitöluskipti á lögum gegn frjálsri fjölmiðlun. Þessi staða nagar fylgi af Sjálfstæðisflokknum og sópar því burt af Framsóknarflokknum, sem enn er úti að aka í þessum leik.
Menn sjá, að formaður Framsóknarflokksins er fangi löngunnar sinnar í embætti forsætisráðherra. Hann þorir ekki að æmta eða skræmta af ótta við stjórnarslit og kosningar, sem kæmu í veg fyrir framavonir hans. Hann þorir ekki að standa gegn bulluskapnum, sem er meginstefna Sjálfstæðisflokksins.
Kennitölusvindl fjölmiðlalaganna stafar af, að flokkar ríkisstjórnarinnar óttast útreiðina, sem þau mundu fá í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þeir vilja ekki hleypa kjósendum að fyrr en eftir þrjú ár, þegar gömul mál frá árinu 2004 verða mörgum gleymnum kjósendum orðin dauð og grafin sagnfræði.
Eftir þrjú ár verða fjölmiðlalögin jafn gleymd og virkjanir á hálendinu eru núna. Þá tapa bullurnar litlu og Framsókn meiru. Nema kjósendur séu loks að ákveða, að nóg sé komið.
Jónas Kristjánsson
DV