Kapalhnútur í maga

Greinar

Að fenginni reynslu af fjárfestingu hins opinbera í fyrirtækjum og af fyrirgreiðslu hins opinbera er full ástæða til að hafa áhyggjur af ráðagerðum um eignaraðild að raforkusæstreng til útlanda og stofnun kapalverksmiðju í Reykjavík til framleiðslu á sæstrengnum.

Í þessum dæmum eru ráðamenn að gamna sér við tölur, sem nema hundruðum milljarða króna. Þótt ekki væri nema um tugi milljarða að ræða, væri ástæða til að staldra við og hugleiða, hvort áhætta af þessu tagi sé eitt af hlutverkum hins opinbera í þjóðfélaginu.

Allir eru sammála um, að hið opinbera hafi það hlutverk að gæta landamæra ríkisins og að halda uppi lögum og reglum innan landamæranna. Deilt hefur verið um allt, sem er umfram þetta næturvarðarhlutverk, en flestir eru þó sammála um þjónustuhlutverk hins opinbera.

Fólk skipar sér í stjórnmálaflokka eftir afstöðu til þess, hve mikil þessi opinbera þjónusta eigi að vera. Flestir vilja, að opinberir eða hálfopinberir aðilar útvegi vatn og hita, rafmagn og samgöngumannvirki, en meira er deilt um þjónustu á borð við póst og síma.

Flestir eru sammála um, að opinberir aðilar reki skóla og heilsugæzlu, svo og margvísleg atriði, sem varða velferð fólks. Menn greinir þó á um, hversu mikinn kostnað notendur velferðarinnar eigi að bera af þjónustunni, sem hið opinbera veitir á þessum sviðum.

Á Vesturlöndum hefur skapazt hefð fyrir því, að hið opinbera efli efnahagslífið með ýmsum hætti, svo sem með því að taka þátt í kostnaði við rannsóknir og þjálfun fólks og með því að styrkja stofnun fyrirtækja með niðurgreiðslu á húsnæði og afslætti af sköttum.

Við höfum bitra reynslu af framtaki hins opinbera við eflingu efnahagslífsins. Með erlendu lánsfé hafa verið settir á stofn opinberir sjóðir, sem hafa grýtt milljörðum í gæfulítið framtak í fiskeldi og loðdýrarækt ofan á fyrra fjárfestingarrugl í hefðbundnum landbúnaði.

Stundum leiðast opinberir aðilar út í framtak af þessu tagi til að efla atvinnu á erfiðum tímum. Við val á atvinnubótavinnu er reynt að komast af með sem minnstan fjárfestingarkostnað, svo að sem flestir fái vinnu með sem minnstum kostnaði og minnstri skuldsetningu.

Engin leið er fráleitari til atvinnuaukningar en þátttaka í stóriðju. Í þeirri grein er stofnkostnaður á hvert atvinnutækifæri margfalt hærri en á öðrum sviðum efnahagslífsins. Það kostar margfalt fleiri krónur að búa til atvinnu með stóriðju en á nokkurn annan hátt.

Við höfum líka bitra reynslu af samkrulli hins opinbera með auðugum fyrirtækjum í útlöndum. Á Grundartanga hefur ríkið lent í þeirri ógæfu að vera í senn eignaraðili að seljanda og kaupanda raforku og þurfa að sæta fjárkúgun í orkuverði og hlutafjárgreiðslum.

Ríkið hefur að undanförnu verið að peðra 50 milljónum á mánuði í járnblendiverksmiðjuna og þarf að leggja 600 milljónir til viðbótar, af því að það er að mati iðnaðarráðherra ódýrara en að loka henni. Jafnframt er orkutaxta til hennar haldið neðan við allt velsæmi.

Tilhugsunin um margfaldan Grundartanga í formi sæstrengs og sæstrengsvers veldur hnúti í maga. Við höfum langa reynslu af því, að núverandi höfuðsmenn orku og stóriðju eru glæframenn, sem hafa ekki hugmynd um, hvað eru milljarðar og skuldsetningar.

Draumóramenn hins opinbera mega ekki láta forvígismenn erlendra stórfyrirtækja dáleiða sig til að sökkva skuldsettum afkomendum okkar í enn dýpra skuldafen.

Jónas Kristjánsson

DV