Kapteinninn var fiskifæla

Greinar

Alþýðuflokkurinn fékk tiltölulega fáa þorska í veiðikeppni flokkanna að þessu sinni. Þyngst vegur á metunum, að formaðurinn hagaði málum á þann veg, að unnt var að kljúfa flokkinn. Samkvæmt kenningu sama formanns á að skipta um kapteina á bátum, sem ekki fiska.

Á síðasta kjörtímabili fékk Alþýðuflokkurinn á sig réttmætt spillingarorð. Það lýsti sér einkum í óeðlilega eindreginni áherzlu á að útvega flokksmönnum gögn og gæði af almannafé. Þessi ímynd flokksins olli því, að klofningsframboð Þjóðvaka fékk töluverðan stuðning.

Þegar varaformaður flokksins varð að segja af sér ráðherraembætti, fylgdi því alls engin iðrun. Þvert á móti var hann staffírugur og sagði vonda flokksbræður og fjölmiðla hafa búið til fár, sem ylli flokknum óþægindum og kallaði á fórn, þótt málsefni væru engin.

Þótt varaformaðurinn væri að mestu leyti hafður í felum í kosningabaráttunni, hefur flokkurinn enga tilraun gert til að gera upp spillta fortíð sína á kjörtímabilinu. Flokkurinn gekk óhreinsaður og illa lyktandi til kosninga, þannig að enn er feimnismál að vera krati.

Í kosningabaráttunni hafði flokkurinn þá sérstöðu, að vera í andstöðu við sínar eigin gerðir í ríkisstjórnum. Eftir langvinna valdaaðstöðu sína bauð flokkurinn upp á aukna Evrópuaðild og jöfnun kosningaréttar, fráhvarf frá kvótum í sjávarútvegi og ríkisrekstri landbúnaðar.

Tæpast getur talizt traustvekjandi að byggja kosningabaráttu á loforðum um að breyta og bæta á nokkrum sviðum án þess að hafa getað notað langvinna stjórnarsetu til að þoka málum áleiðis á sömu sviðum. Slík þversögn gefur kosningabaráttu óraunverulegan svip.

Hins vegar er rangt, að þessi mál hafi verið flokknum fjötur um fót. Þau fara saman við skoðanir fjölmenns minnihluta þjóðarinnar. Til dæmis vilja fjórir af hverjum tíu reyna aukna aðild að Evrópu og sama hlutfall vill umtalsverða minnkun á ríkisrekstri landbúnaðar.

Stjórnmálaflokkur, sem hefur aðeins 10-20% fylgi, getur leyft sér að styðja minnihlutaskoðanir, sem hafa 40% fylgi kjósenda. Ef allir aðrir flokkar eru að fiska í meirihlutanum, eiga að vera miklir möguleikar fyrir lítinn flokk að afla sér fylgis á bilinu frá 10-20% í 40%.

Það er rangt hjá fallkandidat flokksins á Austfjörðum, að sérmál Alþýðuflokksins sem slík hafi verið honum fjötur um fót. Fremur má telja, að kjósendur hafi af fyrri reynslu ekki treyst flokknum í þessum málum og talið ekki henta langvinnum valdhafa að lofa öllu fögru.

Þannig ber flokkurinn ímynd óvenjulega mikillar spillingar og óvenjulega mikils misræmis milli orðs og borðs. Við þetta bætist, að fráfarandi ráðherrar flokksins, að Rannveigu Guðmundsdóttur undanskilinni, eru í hópi þeirra stjórnmálamanna, sem liðugastan hafa talanda.

Þannig er enn ein ímynd flokksins af ráðherrum, sem geta blaðrað endalaust og eru alltaf tilbúnir til burtreiða, en geta ekki látið verkin tala; af ráðherrum, sem framleiða mikinn hávaða og skrautlegt fjaðrafok, en hafa reynzt litlu hafa breytt, þegar moldviðrinu linnir.

Formaður flokksins ber að sjálfsögðu ábyrgð á þessum ímyndum, sem samanlagt valda því, að flokkurinn er tæpast talinn marktækur. Formaðurinn hefur haft mikinn tíma til að móta flokkinn eftir sínu höfði. Þar á ofan ber hann hálfa ábyrgð á klofningi flokksins í vetur.

Svo vel vill til, að þessi sami formaður hefur fyrir löngu sjálfur upplýst, hvaða gera eigi við kapteina, sem ekki fiska. Nú þarf útgerðin að meta stöðu fiskifælunnar.

Jónas Kristjánsson

DV