Bankaráðsmenn Landsbankans hafa ekki tekið föstum tökum á óbeinum aðdróttunum um skjalafals og samsæri tveggja bankastjóra um að hafa af bankanum fé til greiðslu á pólitískum skuldum manna úti í bæ. Hefur þó verið fjallað um nokkra þætti málsins í fjölmiðlum.
Hér í blaðinu var á fimmtudaginn staðfest af viðkomandi aðilum, að skuld nokkurra starfsmanna Helgarpóstsins við bankann hafi verið greidd niður með reikningum frá auglýsingastofu fyrir skrif þeirra í tímarit á vegum Landsbankans og aðra vinnu fyrir bankann.
Einn þessara manna var þá sjálfur í bankaráði Landsbankans og gat haft áhrif á þessa afgreiðslu mála. Núverandi bankastjóri Alþýðuflokksins og aðstoðarbankastjóri hafa verið sakaðir um að láta búa til reikninga fyrir ímyndaða vinnu til að hafa greiðslurnar af bankanum.
Mál þetta hófst í fjölmiðlum, þegar athygli vakti, að tvær jólabækur fjölluðu um það, annars vegar bók Örnólfs Árnasonar um bankavaldið og hins vegar bók Guðmundar Árna Stefánssonar um aðdraganda þess, að hann sagði af sér sem ráðherra í síðasta mánuði.
Í bók Örnólfs er málinu lýst sem draumi, en ekki veruleika. Í bók Guðmundar Árna er fjallað um fyrsta hluta þess á svipaðan hátt og í bók Örnólfs. Þegar tvær heimildir eru eins um sama mál, öðlast þær meira vægi. Spurt var, hvort aðrir þættir málsins væru raunverulegir.
Hér í blaðinu á fimmtudaginn var svo upplýst, að annar þáttur málsins hefði einnig við rök að styðjast. Málsaðilar og aðstoðarbankastjóri Landsbankans hafa viðurkennt, að samið var um að greiða niður skuldina með reikningum á vegum auglýsingastofu.
Nokkrum spurningum er enn ósvarað um þetta mál. Hver var þáttur þess aðila, sem var bankaráðsmaður og skuldunautur í senn? Hver var nákvæmlega sú vinna, sem skuldunautar inntu af hendi? Og hvernig fór með skuld þeirra, sem vitað er, að ekki unnu upp í hana?
Vafasamt er, að málið skýrist, nema í ljós komi nokkur atriði í viðskiptum auglýsingastofunnar við Landsbankann. Hversu mikið fékk stofan greitt fyrir hvaða verkefni og voru þau áþreifanleg? Var það samningsbundið og í samræmi við markaðsaðstæður þess tíma?
Voru greiðslurnar til málsaðila ofan á þessar greiðslur til auglýsingastofunnar eða þáttur í greiðslum til hennar? Hver var vinna málsaðila í raun og hvert var markaðsverð hennar? Er annaðhvort auglýsingastofan eða Landsbankinn að gefa óviðkomandi mönnum peninga?
Bankaráð Landsbankans á tvo kosti í málinu. Annar er að fá botn í það. Það gerist bezt með því, að ráðið láti óháðan aðila skoða bókhaldsgögn bankans, sem varða málið, og afli sér á annan hátt upplýsinga um, hvort bókuð vinna var unnin og hvert var raunvirði hennar.
Þetta er eina leiðin fyrir bankaráðið til að komast að raun um, hvort bankastjórarnir tveir hafa unnið gegn hagsmunum bankans eða ekki í máli þessu. Þetta þarf ráðið að gera, af því að sagan er komin á prent, hlutar hennar hafa reynzt réttir og engir sannazt rangir.
Hin leiðin er gamalkunnug. Bankaráðið spyr þá bankastjórann og aðstoðarbankastjórann að því, hvort þeir hafi gert eitthvað af sér, og þeir krossa sig móðgaðir í bak og fyrir. Bankaráðið bergmálar síðan áfram afneitun stjóranna og lætur það koma í stað rannsóknar.
Í síðara tilvikinu verða tveir yfirmenn bankans auðvitað áfram grunaðir um að hafa ekki staðið eðlilega að málinu og bankinn mun þar af leiðandi rýrna í áliti.
Jónas Kristjánsson
DV