Treglega gengur að sannfæra símanotendur um ágæti nýrra tegunda gemsa, sem taka ljósmyndir og/eða sjá um tölvupóst. Fróðleg grein um símaþróun eftir Jennifer L. Schenker er í International Herald Tribune. Gemsar með tölvupósti hafa selzt vel í Japan, minna í Taívan, lítið í Evrópu og ekkert í Bandaríkjunum. Í Evrópu felst fyrirstaðan meðal annars í, að margir símnotendur hafa vanið sig á SMS-skilaboð. Þeim finnst tölvupósturinn ekki bæta miklu við þau, enda erfitt að skrifa og lesa langan tölvupóst í svo litlu tæki, sem gemsinn er. Erfitt er að spá um framtíðina á þessu sviði, því reynslan sýnir, að notendur geta tekið við sér löngu eftir tæknibreytinguna. Ljóst er, að framleiðendur eru spenntir fyrir notendavænum leiðum til að sameina gemsann, myndavélina og fistölvuna.