Kaupin á eyrinni

Greinar

Nú er komin niðurstaða úr átökum Alþýðubandalagsins um skipan framboðslista þess í Reykjavík. Hinn svokallaði verkalýðsarmur þess getur nú, eftir fremur dapurlega niðurstöðu, snúið sér að minni háttar málum á borð við gerð nýrra kjarasamninga.

Um leið er líklegt, að réni taugaveiklun þeirra leiðtoga, sem voru fyrir löngu búnir að semja um, hver yrði líkleg niðurstaða samninganna. Litlu skiptir, hvort það er kallað leynisamkomulag eða eitthvað annað. Aðalatriðið er, að málsaðilar eru á réttum nótum.

25.000 króna lágmarkslaun þýða í framkvæmd 27.600 króna laun. Það er lægri tala en þær 30.000 eða 36.000 krónur, er veifað hefur verið að undanförnu sem sanngjörnum lágmarkslaunum. En 27.600 krónur eru þó umtalsverð breyting á núverandi ófremdarástandi.

Augljóst er, að siðað þjóðfélag getur ekki boðið lágmarkslaun, sem eru innan við framfærslukostnað einnar manneskju, hvað þá ef hún er einstæð móðir með börn á framfæri sínu. Ásmundur þarf ekki að skammast sín fyrir að bæta kjör hennar á kostnað annarra.

Hitt er svo jafnaugljóst, að uppmælingaraðall og aðrar yfirstéttir verkalýðshreyfingarinnar eru ekki sátt við niðurstöðu, sem felur í sér, að þeirra fólk verði að fórna einhverju fyrir hinar raunverulegu lágstéttir þjóðfélagsins, einstæðar mæður á taxtakaupi.

Nú er komið í ljós, að fulltrúi Dagsbrúnar og sambands byggingamanna hefur farið mun verr út úr forvali Alþýðubandalagsins heldur en leynisamningaforseti Alþýðusambandsins. Því er minni ástæða en áður fyrir hinn síðarnefnda að hlusta á hinn fyrrnefnda.

Aðalatriði málsins var, að ekki er hægt að semja um kjör á þessu landi, meðan Alþýðubandalagið í Reykjavík stendur í forvali. Nú er þeim burtreiðum lokið, og menn geta aftur setzt niður við að ganga frá því samkomulagi, sem þeir eru fyrir löngu búnir að gera.

Ef einhver efast enn um, að búið hafi verið að ná samkomulagi, má spyrja hann, hvers vegna Dagsbrún taldi sér nauðsynlegt í upphafi viðræðna að mótmæla þessu samkomulagi, hvers vegna Dagsbrún taldi sér nauðsynlegt að sprengja hið ónefnanlega samkomulag.

Sennilega verða það menn Dagsbrúnar, sem bíða ósigur í þessum skærum. Þeir hafa verið staðnir að því að reyna að eyðileggja samkomulag, sem miðaði að því að færa lífskjör frá uppmælingaraðli til einstæðra mæðra á taxtakaupi.

Við slíkar aðstæður getur hentað Dagsbrún að hafa í forsvari véfréttamann, sem talar út og suður, gengur úr samfloti og heldur samfloti áfram í senn. Við slíkar aðstæður er sniðugt, að formaður Dagsbrúnar og Verkamannasambandsins er einn og sami maðurinn.

Úr því að uppákoman hefur gerzt, er ekki hægt að undirrita áður gert samkomulag. Hugsanlegt er, að samningsaðilar verði að þrúkka í tvo mánuði um einstök atriði, svo sem að samningurinn gildi ekki í heilt ár, heldur átta til tíu mánuði.

Uppmælingaraðallinn, sem Guðmundur J. Guðmundsson ber fyrir brjósti, fær sín 2,5% um þessi mánaðamót. Þjóðfélagið stendur ekki eða fellur með því fráviki frá þegar gerðu samkomulagi. Einstæðu mæðurnar borga það eins og svo margt annað.

Þjóðin hefur enn einu sinni orðið vitni að því, hvernig kaupin gerast á eyrinni. Þau kaup eru merk, en undir engum kringumstæðum má kalla þau leynisamkomulag.

Jónas Kristjánsson

DV