Kaupmaðurinn í snörunni

Greinar

Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna er efnislega úr sögunni. Hún getur ekki framar ályktað um mannréttindabrot, þar sem hún féll á Kínaprófinu. Engir harðstjórar þriðja heimsins þurfa að taka mark á stofnun, sem engar viðmiðunarreglur notar í ályktunum sínum.

Hlutverk mannréttindanefndar á að felast í að fylgjast með, hvort ríkisstjórnir fari eftir undirrituðum mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Engum blöðum er um það að fletta, að Kínastjórn hefur brotið sáttmálann kruss og þvers og hyggst áfram brjóta hann.

Kínastjórn hefur löngum beitt viðskiptalegum hótunum og gylliboðum til að hafa sitt fram á alþjóðlegum stjórnmálavettvangi. Íslenzka valdastéttin hefur ekki farið varhluta af þessum óviðurkvæmilegu vinnubrögðum. Hún hefur látið múta sér með glæstum ferðalögum.

Frönsk og þýzk stjórnvöld og mörg önnur evrópsk stjórnvöld fylltu ömurlegan flokk þeirra, sem töldu ekki taka því að álykta um mannréttindabrot kínverskra stjórnvalda. Sú stefna stafar af þrýstingi fyrirtækja, sem telja sig geta makað krókinn á viðskiptum við Kína.

Hlutskipti þessara stjórnvalda er hið sama og kaupmannsins, er selur snöruna, sem á að hengja hann í. Kínastjórn fyrirlítur Vesturlönd samkvæmt aldagamalli hefð og lætur ófriðlega við nánast öll nágrannaríki sín, þar á meðal Víetnam, Japan og Filippseyjar.

Markmið Kínastjórnar er að taka við af Sovétríkjunum sem annað heimsveldið andspænis Bandaríkjunum. Hún vill sveigja stjórnvöld um allan heim til hlýðni við hagsmuni sína. Hún beitir skipulega viðskiptalegum og efnahagslegum þrýstingi og freistingum í því skyni.

Kínastjórn er núna að reyna að hefna sín á dönskum stjórnvöldum fyrir að hafa frumkvæði að tillögunni, sem ekki náði fram að ganga í mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna. Meðal annars hefur hún ákveðið að fresta öllum samskiptum við Danmörk um óákveðinn tíma.

Mikilvægt er, að þau ríki, sem stóðu með Danmörku að tillögunni, láti núna eitt yfir alla ganga. Þeim ber að svara með að fresta sínum samskiptum við Kína. Í þessum hópi eru íslenzk stjórnvöld, sem hingað til hafa slefað af hamingju yfir ferðamolum af borði Kínastjórnar.

Hér í blaðinu hefur oft verið varað við óhóflegum Kínaferðum stjórnmálamanna og ekki síður við tilraunum íslenzkra aðila til að græða á viðskiptum við Kína. Reynslan sýnir, að í Kína eru útlend fyrirtæki arðrænd að geðþótta stjórnvalda, sem fara ekki að neinum lögum.

Lakkrísverksmiðja vina Halldórs Blöndal fór auðvitað á hausinn og þannig mun fara fyrir fleirum. Aðrir munu halda sjó með því að gerast flutningsmenn sjónarmiða kínverskra stjórnvalda gagnvart íslenzkum stjórnvöldum, svo sem við sjáum af dæmum frá öðrum löndum.

Ýmis bandarísk fyrirtæki eru í svo erfiðum málum í Kína og eiga svo mikilla hagsmuna að gæta, að Bandaríkjastjórn er undir stöðugum þrýstingi að hætta að amast við brotum Kínastjórnar á fjölþjóðlegum samningum, svo sem umræddum mannréttindasáttmála.

Með því að stunda viðskipti við stjórnina eða aðra aðila í Kína eru menn að leggja sitt lóð á vogarskál aukinna vandræða í heiminum í kjölfar aukinnar uppivöðslusemi kínverskra stjórnvalda; á vogarskál aukins vígbúnaðar til að hafa hemil á þessum stjórnvöldum.

Hrakfarir Vesturlanda í mannréttindanefndinni sýna vestræn stjórnvöld í hlutverki skammsýna kaupmannsins, er verður hengdur í snörunni, sem hann seldi.

Jónas Kristjánsson

DV