Kaupmannahöfn verzlun

Ferðir

Við lítum í búðir, þegar við komum til Kaupmannahafnar. Ekki til að verzla ódýrt, því að verðlag er þar hærra en víðast annars staðar í heiminum. Við förum í búðir til að skoða og handleika hagnýta listmuni, sem Danir eru frægari fyrir en flestar aðrar þjóðir.

Verzlanir Kaupmannahafnar eru sannkallað ævintýraland fágaðrar smekkvísi og rótgróins handverks. Engin verzlunargata heims jafnast á við Strikið í samþjappaðri fegurð og einfeldni nytjahluta. Á 15 mínútna gönguleið er verzlun við verzlun, fullar ævintýra til að njóta.

Búðaráp er einfaldast að stunda á Strikinu og göngugötunum út frá því. Þar standa þéttast þær verzlanir, er hafa á boðstólum vörur, sem ferðamenn hafa áhuga á að skoða og handleika og kannski kaupa. Þar eru einkennisvörur Dana seldar.

Í framhaldi af Strikinu til beggja enda eru líka vinsælar verzlunargötur. Handan Kóngsins Nýjatorgs er Stóra Kóngsinsgata, þétt skipuð verzlunum, og handan Ráðhústorgs er Vesterbrogade, þar sem enn er búð, sem lengi var kunnasta verzlun Danmerkur, Den Permanente.
Mesta samþjöppun frægðarbúða er við austanvert Strikið, frá Heilagsandakirkju að Kóngsins Nýjatorgi. Við förum í stutta göngu þessa leið, um Amákurtorg og Austurgötu.

Hans Hansen

Á horninu við Heilagsandakirkju, þar sem mætast Amákurtorg og Hemmingsensgade, er bezta silfurbúðin, Hans Hansen, sem við tökum fram yfir keppinautinn og nágrannann Georg Jensen við Austurgötu 40 á Strikinu, af því að frægð hins síðarnefnda hefur stigið honum, ef ekki til höfuðs, þá til verðlagningar. Og Hansen býður líka nútímalegri vörur.

Þarna sáum við mjög fallegt og einfalt silfurarmband á DKK 1300. Sérgrein hússins er annars silfurlagt palisander í rúmlega 50 mismunandi hlutum. Einkenni hönnunar eigandans, Karl Gustav Hansen, er strangt og kantað form, sem líklega verður enn í gildi á 21. öld.

(Hans Hansens Sølv, Amagertorv 16, C3)

Illums Bolighus

Aðeins austar með götunni, sömu megin hennar, er Illums Bolighus, draumabúðin okkar í Kaupmannahöfn, án efa ein bezta og merkilegasta húsbúnaðarverzlun heimsins. Þetta er fjögurra hæða ævintýraheimur, þar sem enginn hlutur er hversdagslegur.

Margir helztu húsmunahönnuðir Dana eigi gripi þarna, mest þó Bjørn Wiinblad, sem er sennilega frægasti og mikilvirkasti nytjalistamaður veraldar. Og sumir gripa hans eru meira að segja ódýrir, þótt það sé auðvitað undantekningin, sem sannar regluna.

Á þessum stað grípur okkur sú tilfinning, að allir okkar húsmunir séu þess eins virði að setja um þá smáauglýsingu í DV og að nauðsynlegt sé að fá svo sem einn skipsgám af hinum listrænu, vönduðu og tæknilegu munum frá Illums Bolighus.

Í einni heimsókn okkar beindist athyglin að einföldum lampaskermum með innfelldum, þurrkuðum jurtum. Þeir voru ódýrir og fallegir í senn. Það eina, sem hindraði okkur í að kaupa einn, var hið venjulega takmarkaða töskupláss ferðafólks.

Schultz verzlunarstjóri fór með okkur um húsið og sagði sögu þess, hvernig miðsalurinn var upphaflega húsagarður með mörgum háum og mjóum húsum í kring og hvernig verzlunin hefur smám saman vaxið utan um portið og húsin.

(Illums Bolighus, Amagertorv 10, C3)

Bing & Grøndahl

Við hlið Illums á Amákurtorgi standa hinir fyrri keppinautar, Bing & Grøndahl og Den Kongelige Porcelainsfabrik, sem nú hafa verið sameinaðir. Þeir eru frægir fyrir jólaplatta og postulínshunda, mæðradagsplatta og máfastell.

Okkur líkar betur við Bing & Grøndahl, enda eru þeir ekki eins gamaldags og nágranninn. Að vísu er postulín þess eðlis, að það hlýtur alltaf að vera gamaldags í nútíma, sem hafnar postulíni fyrir leir og keramik.

Bing & Grøndahl urðu fyrstir fyrir 90 árum til að skreyta postulín undir húðun. Fyrst réðu þeir við bláa litinn, sem síðan hefur orðið einkennislitur þeirra. Frægastur er hann af máfastelli og empire-borðbúnaði.

Síðan náðu þeir tökum á svarta litnum og seldu “fallandi lauf” um allan heim. Þeir urðu fyrstir til að gefa út jólaplatta 1895 og mæðradagsplatta 1969. Mótin af þeim eru jafnan eyðilögð, svo að þeir eru einu hlutirnir, sem ekki er alltaf hægt að panta inn í.

Þarna gefur að líta hundrað mismunandi tegundir borðbúnaðar, svífandi fugla, syndandi fiska, brosandi börn, styttur, lampa, vasa og öskubakka, svo og tólf skemmtilega Kaupmannahafnarplatta. Margt af þessu hefur sérstæða, fíngerða töfra.

(Bing & Grøndahl, Amagertorv 4, C3)

Larsen

Handan við torgið er helzta pípu- og tóbaksbúð Dana, W. O. Larsen, 125 ára gömul, í eign sömu fjölskyldu í fimm ættliði. Til hægri við innganginn er lítið safn um sögu tóbaksreykinga. Þar eru til sýnis alls kyns pípur, allt frá indjánskri friðarpípu yfir í krítar- og postulínspípur.

Búðin sjálf er vinstra megin, löng og mjó. Þar er hægt að kaupa fágætar pípur, fágætt píputóbak og fágætt neftóbak, svo og fínustu vindla heims, Davidoff-vindlana frá Kúbu.

(W. O. Larsen, Amagertorv 9, C3)

Dansk Kunsthåndværk

Rétt hjá Larsen, á horni Amákurtorgs og Højbro Plads, er Dansk Kunsthåndværk, þar sem sextíu handverksmenn selja margs konar nytjalist úr gleri, leir, vefnaði, prjóni, gulli og silfri. Þetta er ein nýjasta stjarnan á skærum listiðnahimni Kaupmannahafnar, kjörinn heimsóknarstaður þeirra, sem héldu, að þeir þekktu borgina út og inn.

(Dansk Kunsthåndværk, Amagertorv 1, C3)

Købmagergade

Hér liggur göngugatan Kjötmangarinn eða Købmagergade til norðurs frá Strikinu. Við götuna eru þrjár kunnar sælkeraverzlanir, næstum í hnapp. Vinstra megin eru hlið við hlið Melhede kjötbúðin og J. Chr. Andersen´s Efterfölgere ostabúðin, á númer 30 og 32. Þar má renna augum yfir tugi tegunda af bjúgum og sennilega yfir hundrað tegundir af ostum, frönskum jafnt sem dönskum. Af hinum dönsku eru kunnastir hinir bláu Danablu og Mycella, hinir linu Havarti og Esrom, hinir þéttu Samso, Danbo, Fynbo og Maribo, og loks hinir hörðu Hingino og Svenbo.

Handan götunnar, á númer 19, er Marstrand bakarí, sem ilmar af glóðvolgum Vínarbrauðum, Napóleonskökum og öllu því góðgæti, sem fær Dani til að gleyma matarkúrum og öðrum góðum áformum.

Pistolstræde

Ef við höldum áfram eftir Strikinu, komum við brátt að sundi, sem heitir Pistolstræde. Það er skemmtilegasta verzlunargata borgarinnar, lítið göngusund, sem liggur frá Strikinu, þar sem það heitir Austurgata 24, næstum andspænis Holmegård. Þar göngum við inn í átjándu og nítjándu öldina, að vísu gerilsneydda og lyktarlausa.

Birger Christensen feldskeri vann um árabil að því með oddi og egg að endurreisa þessa gömlu götu, sem komin var á grafarbakkann. Við það naut hann hæfileika Eriks Møller arkitekts, sem gerði upp gömlu bindingshúsin í götunni.

Við innganginn er vinstra megin verzlunin Bee Cee, sem er eins konar útibú frá Birger Christensen fyrir ungar konur. Hægra megin er svo Saint Laurent, sem er ekta Parísarverzlun með sama háa verðinu og þar.

Þegar við göngum inn sundið, verður fyrst fyrir okkur á hægri hönd hádegisverðarstofan Bee Cee í kjallara, þar sem glaðlegar myndir Jean Dewasne lífga hvíta veggina. Hinum megin, einnig í kjallara, er Court Gallery, alþjóðlegur sýningarsalur, þar sem Sam Kaner er í aldarfjórðung búinn að sýna abstrakt list, allt frá Miro yfir í Cobra-hópinn, sem hér varð frægur.

Við förum framhjá Chanel og More & More vinstra megin og hægra megin framhjá bakdyrum Skandinavisk Glas og Duzaine Hansen, sem snúa aðaldyrum út í Nýju Austurgötu. Skandinavisk Glas selur gler frá öllum Norðurlöndum, þar á meðal Orrefors og Kosta.

Ting & Sager

Síðan beygir Pistolstræde í vinkil. Þar er mikið af blómum, borðum og sólhlífum, sem tilheyra veitingahúsinu l´Alsace. Við blasa fallegustu hús götunnar með gulum tilbrigðum í bindingsverki, reist á átjándu öld.

Þar er Cranks Grönne Buffet í húsi frá 1728, helzta matstofa grænmetissinna í borginni. Í næsta húsi, frá 1750, er tuskubúðin Ting & Sager. Þar er þröngt um alls konar ólíklegustu hluti, eldhúsáhöld, blússur, pils og teppi, allt hið skemmtilegasta. Inn í búðina og matstofuna er gengið úr hinni áttinni, frá Grønnegade.

Þar sem Pistolstræde mætir Ny Østergade er sniðug peysubúð, sem heitir Les Tricots Caroll, svo og Bogbinder Henning Jensen.

Bjørn Wiinblad´s Hus

Hér á vinstri hönd, í Nýju Austurgötu, er Björn Wiinblad´s Hus, sem Birger Christensen hefur gert að blöndu safns og verzlunar, þar sem allir gripir eru eftir hinn mikilvirka hönnuð.
Þetta átjándu aldar hús með gosbrunni í lokuðum innigarði er orðið að álfaheimi Þúsund og einnar nætur. Þar eru heimsfræg verk Wiinblads, svo sem keramikplattar, stór hringborð, skrítnir pósterar, endurprentanir af skissum hans fyrir ballet og leikrit, rúmföt og skartgripir. Handbragð hans er auðþekkjanlegt, öðruvísi en annarra.

Ef við beygjum svo enn til vinstri, komum við að inngangi Ting & Sager og Cranks Grønne Buffet.

Holmegård

Við snúum til baka að Strikinu, annað hvort eftir Pistolstræde eða Ny Østergade. Handan Striksins er glervörubúðin Holmegård, sem meðal annars framleiðir hin sérstaklega fallegu President vínglös, er við höfum mikla ágirnd á, ekki vegna nafnsins, heldur formsins.

Aðalhönnuður Holmegård er Per Lütken, sem einna frægastur er fyrir “skipasettið” af glösum. Annar er Michael Bang, sem hefur hannað Globetrotter glösin. Svo eru auðvitað seld þarna margvísleg önnur glerílát en glös, sem Henning Lundsgård verzlunarstjóri mun án efa útskýra af sérstakri lipurð.

(Holmegård, Østergade 15, C3)

Birger Christensen

Hinum megin götunnar er höfuðverzlun áðurnefnds Birger Christensen, frægasta pelsabúð heims, nútímalegri en nágranninn A.C. Bang við Austurgötu 27, sem einnig er víðkunnur. Fróðir menn segja, að hvergi séu til meiri birgðir og meira úrval pelsa en einmitt hjá Birger Christensen.

Þarna er hver pels sérstakur, fallega og einfaldlega hannaður. Þetta er eitt fárra fyrirtækja í heiminum, sem lætur eingöngu starfsmenn sína hanna og sauma alla sína pelsa. Og þetta er eitt fárra tízkuhúsa, sem koma með nýja línu tvisvar á ári.

Við getum valið um pelsa frá DKK 6000 upp í DKK 200000. Sérgrein hússins er Saga-minkurinn, sem tekizt hefur að rækta í tuttugu litbrigðum. Þeir, sem fá jólavinninginn í happdrættinu, ættu endilega að heimsækja þessa merkilegu búð.

(Birger Christensen, Østergade 38, C3)

Bang & Olufsen

Dönsk hönnun kemur skýrt fram í hljómtækjum Bang & Olufsen, sem hafa aðalverzlun sína hér, nánast á enda Striksins, við Austurgötu 3. Allir þekkja hinn þokkafulla og flata stíl umgerðarinnar um ýmis tæknileg undur, sem við kunnum ekki að nefna.

(Bang & Olufsen, Østergade 3, D3)

Østergades Vinhandel

Allt úir og grúir af vínbúðum í Kaupmannahöfn, enda ríkir þar frjáls vínverzlun, þótt ríkið taki sinn toll eins og hér. Þess vegna er úrvalið hundraðfalt á við það, sem Íslendingar þekkja.

Ein þekktasta vínverzlun borgarinnar er hin krambúðarlega Østergades Vinhandel á enda Striksins, þar sem það mætir Kóngsins Nýjatorgi. Þar er gott að skjótast inn til að kaupa gjöf, þegar gestrisnir Danir hafa boðið okkur heim til sín.

(Østergades Vinhandel, Østergade 1, D3)

Couronne de Lierre

Hina gjöfina, blómin, er líka hægt að kaupa hér við Kóngsins Nýjatorg. Ef við göngum til vinstri meðfram hótelinu Angleterre, komum við handan þess að einni merkustu blómabúð heims, Couronne de Lierre, sem felur sig rækilega í höll Stóra Norræna við torgið.

Þar eru falleg blóm og sum hver sjaldgæf. Tage Andersen er snillingur í að búa til sérkennilega blómvendi. Búðin hans er heimsóknar virði.

(Couronne de Lierre, Kongens Nytorv, D3)

Magasin du Nord

Ef við beygjum í hina áttina frá enda Striksins, komum við fljótt að stærstu stórverzlun Norðurlanda, Magasin du Nord. Verzlunin er heill heimur, sem rétt er að heilsa upp á, þegar tíminn er naumur, því að hluturinn hlýtur að fást þar, þar á meðal vörur flestra þeirra sérverzlana, sem sagt hefur verið frá í þessum kafla.

(Magasin du Nord, Kongens Nytorv 13, D3)

Israels Plads

Engin borg er án útimarkaðar. Kaupmannahafnarbúar hafa sinn miðbæjarmarkað á Israels Plads, rétt utan við Nørreport brautarstöðina. Þetta er svo sem ekki stór markaður á alþjóðlega vísu, en býður ótrúlega fjölbreytt úrval grænmetis, ávaxta og blóma. Verðið er svona helmingur af því, sem það er í búðum, og auðvitað ekki nema þriðjungur af því, sem það er á Íslandi. Þessi staður er lærdómsríkur fyrir Íslendinga, sem lítt þekkja til slíkra markaða (B2).

1981, 1989

Jónas Kristjánsson