KEA

Veitingar

Virðing og reisn

Veitingasalurinn á annarri hæð hótels KEA á Akureyri hefur virðingu og reisn, sem sæmir hóteli í mjög svo hefðbundnum meginlandsstíl. Enn er þetta bezti matstaður Akureyrar og heldur nokkurn veginn sínu í samanburði við beztu hótelsali Reykjavíkur.

Ekki er hægt að segja, að innréttingar séu frumlegar á KEA. En salurinn hefur ákveðinn gamaldags- og þreytulegan hótelsjarma, sem veldur því, að umhverfið veldur engum veizluspjöllum. Og svo hefur verið lífgað upp á einn vegg með einu málverki Kára.

Hér var strax komið ísvatn á borð, án þess að um væri beðið. Þá sjaldan, sem ég sé slíkt tillit tekið til gesta, anda ég jafnan léttar og þykist þess fullviss, að góð máltíð muni fylgja í kjölfarið.

Vínlistinn á KEA er ekki merkilegur, enda hefur hann ekkert breytzt síðan í fyrra. Af drykkjarhæfum vínum eru þar Chateauneuf-du-Pape, Chianti Classico og Bernkasteler Schlossberg.

Ekkert þurrt sérrí var að hafa fyrir mat. Og spaugilegt var að sjá á listanum Oppenheimer Krötenbrunnen og Thörnicher Engass, sem auðvitað eru ekki til, enda ekki fengizt í Ríkinu síðan ég komst til ára.

Gufusoðin þorskflök

Í síðustu heimsókn hét blómkálssúpan Dubarry, sem fylgdi réttum dagsins, vel rjómuð og góð og einkum þó blessunarlega lítið jöfnuð með hveiti.

Mesta reisn sýndi KEA með því að bjóða upp á gufusoðin þorskflök sem annan rétt dagsins. Ég man satt að segja ekki eftir, að nokkurt annað veitingahús hafi þorað að bjóða upp á slíkan hversdagsmat og herramannsmat.

Gufusoðnu þorskflökin voru borin fram með ítalskættaðri, mildri tómatsósu, gersamlega óskyldri hinni andstyggilegu ketchup, sem allir úða í sig. Þetta var verulega góður matur, sem fær hér hreina tíu í einkunn.

Á seðli dagsins voru einnig mjög meyrar lambakótilettur, einnig bornar fram með tómatættaðri sósu, en ekki hinni sömu og áður var nefnd. Annað meðlæti voru franskar kartöflur og ferskt, soðið brokkál, en -takið eftir- ekkert dósagrænmeti.

Chateaubriand Choron nautalundir voru rétt steiktar, en samt ekki blóðugar og ekki eins bragðmiklar og turnbautinn í Smiðjunni. Með þeim var allt of mikið gums, rósakál, maís, belgbaunir, sveppir og franskar.

Kjúklingur Malakka, ofnsteiktur, borinn fram með steiktum ananas, hrísgrjónum og karrísósu, var meyr og fínn matur. Ísar voru góðir og fallega upp settir.

Engin stöðlun

KEA er ekki staðlaður matstaður, þar sem sama meðlæti fylgir nokkurn veginn óbreytt öllum réttum. Þá eru matreiðslumennirnir varfærnari í notkun dósahnífa en margir starfsbræður þeirra syðra. Og loks gæta þeir sín á að sulla ekki af handahófi hveiti í sósur og súpur.

Þjónustan á KEA var í stíl við matreiðsluna, traust og formföst, allt frá ísvatninu fyrir mat til mintuslegnu tannstönglanna eftir mat. Í heild má segja, að veitingasalurinn á annarri hæð KEA sé jafngóður og kjallarasalur sama hótels er [óprenthæft].

Réttur dagsins með súpu kostnaði að meðaltali 107 krónur á KEA. Meðalverð forrétta á fastaseðli var 55 krónur, súpa 19 krónur, fiskrétta 99 krónur, kjötrétta 114 krónur og sæturétta 23 krónur.

Meðalverð þriggja rétta máltíðar með víni og kaffi var 205 krónur eða svipað og á fínu stöðunum syðra. Virðist það tiltölulega sanngjarnt eða að minnsta kosti í stíl.

Matareinkunn KEA var átta, vínlistaeinkunn sex, þjónustueinkunn átta og umhverfiseinkunn sex. Ef matareinkunn er margfölduð með fimm, þjónustu- og umhverfiseinkunnir með tveimur, koma út 74 stig af 100 mögulegum. Það gera 7,5 í einkunn.

Jónas Kristjánsson

Vikan