KEA

Veitingar

Akureyringar fara ekki út að borða á Hótel KEA, þótt matsalurinn á annarri hæð hótelsins, það er að segja ekki Súlnaberg, sé sennilega hinn bezti í bænum. Sölumennirnir að sunnan sitja við borðaröðina Kaupvangsstrætismegin, svo og ferðafólk á sumrin. Að öðru leyti er 120 manna salurinn auður, nema þegar böll eru haldin um helgar.

Stílhreinni en áður

Veitingastofan er stílhreinni en áður. Horfinn er þreytusvipurinn á innréttingum. Áklæði er upp í venjulega panilhæð á veggjum. Þar fyrir ofan eru sundurleit málverk á ljósum veggjum. Borðdúkar og teppi eru rauð. Þykk flauelstjöld eru fyrir gluggum. En til að gera staðinn notalegri, þyrfti að stúka hann sundur með rennihurð, þegar fátt er gesta.

Á KEA er reynt að halda til jafns við reykvísk hótel í fagmannslegri og formlegri þjónustu. Það tekst raunar svo vel, að þjónar vita um stöðu mála í eldhúsi og geta veitt nothæfar upplýsingar og marktæk ráð. Þeir ónáða ekki gesti að óþörfu, en sjá þeim fyrir ísvatni og víni á hljóðlátan hátt.

Hinn hefðbundni bragur kemur bezt í ljós í framreiðslu matarins. Hann er allur borinn inn á fötum og færður upp á diska við borð gesta. Þetta er orðið sjaldgæft, ekki síður á fínum stöðum. Eitt andartak finnst okkur, að við séum horfin til gamals tíma, þegar Akureyri var hálfdanskur bær og stundaðir voru mannasiðir þess tíma. En því miður eru sölumennirnir við borðin að sunnan og bera ekki einu sinni hálshnýti.

Lítið um góðan fisk

Á Akureyri er ekki auðvelt að fá góðan fisk, enda eru gerðir þaðan út togarar, en ekki bátar. Veitingastaðirnir bera þess merki. Þeir sérhæfa sig í lamba- og nautakjöti og gefa sig lítt að réttum úr hafinu.

Sjávarréttir í osthjúp, bornir fram í hörpuskel, voru dæmi um þetta á Hótel KEA. Hörpufiskurinn var að vísu meyr og góður, en bæði lúðan og laxinn voru þurr. Fiskur er viðkvæmt hráefni, sem þolir illa upphitun í ofni eftir að hafa verið eldaður áður. Þess vegna er svokölluð “gratinering” sjávarrétta hálfgert hættuspil hjá íslenzkum kokkum.

Hins vegar var mjög góður gufusoðni eldislaxinn úr Lóni. Hann var ekki bragðmikill, en sérlega vægt eldaður og meyr, greinilega ekki úr frysti, heldur ferskur. Með honum voru grásleppuhrogn og volg vínber, sem áttu vel við fiskinn.

Þurrt sérrí fyrir matinn fékkst ekki á KEA, en hálfþurrt Dry Sack bætti nokkuð úr skák. Í prófuninni var súpa dagsins kremsúpa Espagnole með grænmeti, ágætis súpa. Af fastaseðli var reynd lauksúpa með osthjúp, sérstaklega bragðgóð.

Eitt dæmið um hefðbundinn stíl staðarins er, að gestir fá ekki hver sinn disk með hrásalati, heldur sameiginlega salatskál, svona eins og með semingi, því að hrásalat var ekki til siðs í Danmörku í gamla daga. Grænmetið var ágætt og borið fram með olíusósu í skál, svo sem vera ber.

Úrbeinaður lambahryggur, sítrónukryddaður og ofnbakaður, var léttsteiktur og bragðgóður. Með honum var borið fram soðið blómkál og svissneskt kartöflurasp, svokallað rösti, lítils virði, svo og ýmislegt annað meðlæti, sem betur fer ekkert úr dós.

Heilsteiktar nautalundir voru blóðrauðar, meyrar og bragðgóðar. Með þeim var þjóðarrétturinn béarnaise-sósa, sem þjónar yfirstéttinni eins og annar þjóðarréttur, kokkteilsósa, þjónar undirstéttinni. Einnig fylgdu ferskir sveppir, ristaðir. Nokkrum dögum síðar reyndist piparsteik vera í sama, háa gæðaflokknum.

Sérpantaður grillkjúklingur með frönskum kartöflum reyndist vera mildilega eldaður, meyr og bragðgóður, sennilega einn hinn bezti á landinu.

Sósur staðarins voru upp og ofan. Béarnaise-sósan með nautakjötinu var mild og góð. Kjötseyðissósan með lambakjötinu var bragðlaus hveitisósa. Og eggjasósan með laxinum var skorpin, ekki árennileg.

Ís og kaffi bragðaðist vel og kaffið var endurnýjað án sérstakra tilmæla. Gamla konfektið með kaffinu var hins vegar miður gott.

Vínlistinn í Hótel KEA er ekki merkilegur. Af hvítvínum er frambærilegt Chablis frá Thorin og af rauðvínum Chateauneuf-du-Pape, Geisweiler Reserve, Chianti Antinori og Trakia.

Hagstætt verðlag

Á fastaseðli eru þrjár súpur, fimm forréttir, sex sjávarréttir, tíu kjötréttir og fimm eftirréttir. Miðjuverð súpa er 95 krónur, forrétta 211 krónur, sjávarrétta 300 krónur, kjötrétta 420 krónur og eftirrétta 130 krónur. Þríréttuð veizla af fastaseðli með kaffi og hálfflösku af víni á mann ætti að kosta um 807 krónur á mann.

Á seðli dagsins voru þrír réttir, súpa og eftirréttur. Miðjuverð súpu og aðalrétta var 430 krónur að kvöldi og 304 krónur í hádegi. Þriggja rétta veizla af dagseðli með kaffi og hálfflösku af víni ætti að kosta 683 krónur á kvöldin og 598 krónur í hádeginu. Þetta verðlag er yfirleitt hagstætt í samanburði við hliðstæða hótelsali í Reykjavík.

Sem hefðbundinn matsalur utan við strauma nútímans er Hótel KEA staður tiltölulega vandaðrar matreiðslu og mjög vandaðrar þjónustu, sem mætti gjarna nýtast norðanmönnum og ekki eingöngu sölumönnum að sunnan eða ferðamönnum utan úr heimi.

Jónas Kristjánsson

DV