Hefðbundin keðjubréf mundu blómstra hér á landi, ef þau væru lögleg. Við þurfum þó ekki að sakna þeirra, því að þau blómstra í nýrri mynd hjá bönkum og verðbréfadeildum þeirra og hjá sjálfstæðum verðbréfafyrirtækjum, sem spila með væntingar síðbúinna fjárfesta.
Ýmsar slíkar stofnanir og ráðamenn þeirra benda á miklar hækkanir, sem orðið hafa á verðgildi ýmissa hlutabréfa. Í huganum framlengja síðbúnir fjárfestar hækkunarþróun fortíðarinnar inn í framtíðina og freistast til að taka þátt í keðjubréfafaraldri nútímans.
Seinheppnir fjárfestar hafa aðgang að varnaðarorðum þeirra, sem benda á, að verðmæti hlutabréfa sé í sumum tilvikum komið upp fyrir eðlilegar væntingar um arðgreiðslur á næstu árum. Seinheppnir þátttakendur keðjubréfa voru líka varaðir við á sínum tíma.
Happdrættisárátta fólks lætur ekki að sér hæða. Fólk hlustar ekki á úrtölur, heldur stekkur ósynt út í sjóinn til hákarlanna og væntir þess, að hlutabréfa-verðþróun næstu vikna, mánaða og ára verði alveg hin sama og hún var á síðustu vikum, mánuðum og árum.
Síðbúnir fjárfestar öfunda þá, sem sagðir eru hafa keypt hlutabréf í deCODE genetics fyrir tíu dögum og selt þau aftur með milljónahagnaði í gær. Þær upplýsingar falla í skuggann, að fyrirtækið þyrfti að vera rekið með tugmilljarðahagnaði til að standa undir væntingum.
Einn háskólakennari sagði í viðtali við DV á laugardaginn, að fyrirtækið, sem nú er rekið með miklu tapi, þurfi að skila 25 milljarða hagnaði á ári, ef það byrjar nú þegar að græða, og 150 milljarða hagnaði á ári, ef það byrjar ekki að græða fyrr en eftir 15 ár.
Þetta skiptir að vísu ekki öllu máli. Aðalatriðið er, að einhverjir fjárfestar séu enn síðbúnari en ég. Það sé að minnsta kosti ein umferð eftir í keðjubréfafaraldrinum. Á væntingum af því tagi byggist verðþróun hlutabréfa hér á landi sem annars staðar í heiminum.
Lykilstarfsmenn keðjubréfastofnana nútímans kynda undir faraldrinum, enda eiga þeir sjálfir hlutabréf í töfrafyrirtækjunum. Menn hafa velt vöngum yfir því á opinberum vettvangi, hvort slíkt sé löglegt, en siðferðilega minnir það á gömlu keðjubréfafyrirtækin.
Markaðslögmálin gera ráð fyrir, að menn sjái fótum sínum forráð. Við búum hins vegar við svo ungan og ófullkominn hlutabréfamarkað í þjóðfélagi langvinns góðæris og hagvaxtar, að menn eiga erfitt með að skilja, að sápukúlur geti sprungið, þegar sízt varir.
Reynslan sýnir, að ráðamenn fjármálastofnana halda sig sem mest á gráu svæðunum. Strangari lög um fjármálastofnanir og virkara eftirlit með þeim mundu því milda vaxtarverki hlutabréfamarkaðarins og halda aftur af keðjubréfakóngunum, sem þar ráða ríkjum.
Við sjáum þó frá Bandaríkjunum, að gamall og gróinn hlutabréfamarkaður hindrar ekki hátt gengi hlutabréfa í fyrirtækjum á borð við netbókaverzlunina Amazon, sem ætíð hefur verið rekin með miklu tapi og verður sennilega rekin með auknu tapi á næstu árum.
Í heimi tækifæranna hljóta að vera hættur við hvert fótmál. Opinberar aðgerðir geta ekki hindrað, að síðbúnir fjárfestar þurfi að fjármagna gróða keðjubréfastofnana og keðjubréfakónga nútímans. Peningar leita alltaf burt frá þeim, sem ekki kunna með þá að fara.
Aðalatriðið er, að einhverjir nenni að segja fólki, að bankar og verðbréfafyrirtæki nútímans verðskuldi svipað vantraust og keðjubréfafyrirtækin gömlu.
Jónas Kristjánsson
DV