Keflavíkurundrin.

Greinar

Ef stjórnarslit verða út af Keflavíkurundrum síðustu daga, er brotin hin pólitíska hefð, að Alþýðubandalagið hlaupi úr ríkisstjórnum á öllum öðrum forsendum en ágreiningi um herinn og Atlantshafsbandalagið.

Ekki er líklegt, að frá hefðinni verði vikið að þessu sinni, þrátt fyrir töluverðan hávaða í félagsmálaráðherra flokksins og nokkurn í formanni þingflokksins. Þeir bölva að vísu upphátt, en geta raunar aðeins bitið á jaxlinn.

Utanríkisráðherra hefur þrætt yztu nöf stjórnarsamstarfsins í Keflavíkurundrunum. Hann segist hafa tekið tillit til sjónarmiða Alþýðubandalagsins og segist jafnframt bara vera að gera það, sem honum hafi verið falið.

Ólafur Jóhannesson hefur löngum verið talinn klókur maður. Þess vegna mætti ætla, að einhver torskilin klókindi fælust í að haga þannig meðferð mála, að ekki aðeins Alþýðubandalagið fari á hvolf, heldur einnig sveitarstjórnir syðra.

Hingað til hefur verið efnt til varnarliðsframkvæmda í góðum sáttum við sveitarstjórnir nágrennisins, enda hafa þær haft tilhneigingu til að meta atvinnuástand sem mikilvægasta þáttinn í svokölluðu varnarsamstarfi.

Að þessu sinni er urgur í bæjarstjórnum Keflavíkur og Njarðvíkur út af staðsetningu flugskýla og í sveitarstjórnum Garðs og Sandgerðis út af staðsetningu olíugeyma. Hvort tveggja var óþarfi, ef betur hefði verið á málum haldið.

Flugskýlin hefði mátt reisa annars staðar, þar sem minni líkur eru á flugtaki yfir þéttbýli. Fullyrðingar um annað eru bara tilraun til að breiða yfir alvarleg mistök í skipulagsmálum á athafnasvæði hersins.

Að því er varðar olíugeymana er staðsetningin ekki vandamálið, heldur skorturinn á samráðum við Garðinn og Sandgerði. Með heldur meiri lipurð hefði utanríkisráðherra sparað sér mótmæli annarra en Alþýðubandalagsins.

Kannski er Ólafi Jóhannessyni bara alveg sama. Ef til vill þykir honum ágætt að fá sem mestan hávaða út af málum þessum, svo að síðara undanhald Alþýðubandalagsins verði þeim mun meira áberandi. Hann kann að vera að hefna sín.

Þegar litið er yfir feril þessarar ríkisstjórnar, má sjá, að innri friður hefur verið með bezta móti, að öðru leyti en því, að Alþýðubandalagið hefur stundum verið að agnúast út í meðferð Ólafs á varnarmálum.

Hvað sem hann hugsar undir niðri, þá hefur hann gætt þess að halda sig innan hins óskrifaða ramma, að herinn megi efla, þegar Alþýðubandalagið er utan stjórnar, en máttur hans eigi að standa í stað, meðan það er í ríkisstjórn.

Ef Alþýðubandalagið ætlaði nú úr stjórn vegna rangrar staðsetningar á flugskýlum eða tilfærslu olíugeyma án stækkunar þeirra, væri það sjálft að fara úr hinum óskrifaða ramma, sem hefur gert það að samstarfshæfum flokki í ríkisstjórnum.

Flokkur, sem hefur um og innann við 20% af fylgi og er ekki meirihlutaflokkur í ríkisstjórn, getur ekki vænzt þess að ráða ferðinni í málum, þar sem allir hinir flokkarnir og kjósendur þeirra eru í stórum dráttum samferða.

Keflavíkurundur Ólafs munu því sennilega ekki leiða til, að Alþýðubandalagið taki ákvörðun, er stimpla mundi það sem ósamstarfshæfan flokk um ríkisstjórn og er þrengja mundi mynztur stjórnarmyndana í náinni framtíð.

Jónas Kristjánsson

DV